Opinskátt um ofbeldi

Ræða flutt á sameiginlegum fundi Borgarstjórnar Reykavíkur og Ofbeldisvarnarnefndar 30. maí 2017

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar kemur fram að Reykjavíkurborg ætlar að vinna gegn kynbundu ofbeldi, bæði andlegu líkamlegu og kynferðislegu. Reykjavíkurborg viðurkennir að kynbundið ofbeldi er brot á grundvallarmannréttindum fólks og samfélagsmein sem enginn á að búa við. Öll starfssemi borgarinnar skal samkvæmt mannréttindastefnunni taka mið að þessu sjónarmiði.

Reykjavíkurborg hefur unnið aðgerðaráætlun gegn kynbundu ofbeldi frá árinu 2012. Í núverandi aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum sem gildir til ársins 2019 koma fram 3 aðgerðir sem snúa að kynbundu ofbeldi.

Saman gegn ofbeldi, ofbeldisvarnarnefnd og öruggar borgir eru verkefni sem nú þegar eru hluti af áætluninni. Verkefnin eru nú orðin mun fleiri og fjölbreyttari má þar meðal annars nefna Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og verkefnið opinskátt um ofbeldi.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir um að innleiða verkefnið Opinskátt gegn ofbeldi í skóla og frístundamiðstöðvar borgarinnar ber svo sannarlega að fagna. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu barna á ofbeldi og gera þeim kleift að ræða um ofbeldi á opinskáan hátt. Ljóst er að hreinskiptin umræða um ofbeldi er til þess fallinn að rjúfa þögnina sem hefur umlukið ofbeldi. Niðurstaða verkefnisins sýnir að starfsfólk telur sig betur í stakk búið til að greina merki um ofbeldi og bregðast við frásögnum barna um ofbeldi. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg búi börnum umhverfi sem er laust við hvers kyns ofbeldi og tryggi að þolendur ofbeldis hafi verkfæri til að tjá sig um ofbeldi og að við sem samfélag bregðumst við hvers kyns ofbeldi með skýrum hætti

Að lokum vill ég nefna að það er fyllilega skoðunar vert að koma þeim verkefnum sem þegar eru í framkvæmd og þeirra sem eru í farvegi  í ofbeldisvarnarmálum í sérstaka aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar á því sviði.  Margt er vel gert og við erum svo sannarlega lögð af stað, en aðgerðir gegn kynbundu ofbeldi eru viðvarandi verkefni og við megum ekki sofna á verðinum. Enginn á að þurfa að búa við ofbeldi og viðhorf stjórnvalda s.s Reykjavíkurborgar skipta máli. Ofbeldi má aldrei líðast í nokkurri mynd.

 

 

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Gullpakkinn – ekki fyrir þig!

Ríkisstjórnin styður „fjölbreytt rekstrarform“ og „valfrelsi“ í heilbrigðiskerfinu. Þetta kann að hljóma spennandi. Hver getur svo sem verið á móti fjölbreytni og valfrelsi fólks? En hvað þýða þessir frasar í raun og veru? Þeir þýða að stjórnvöld hér á landi ætli að stefna í stórauknum mæli að einkarekstri og einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar.

Um miðjan janúar fékk Klíníkin leyfi Landlæknis til að framkvæma stærri aðgerðir sem krefjast innlagnar í kjölfarið. Klíníkin er fyrsta einkastofan hér á landi sem fær leyfi til að reka legudeild. Fjölmargar rannsóknir sýna hins vegar að opinber rekstur heilbrigðisþjónustu er besta leiðin til að tryggja öllum aðgang að þjónustunni óháð búsetu, efnahag eða félagslegri stöðu. Stjórnvöld halda því áfram þeirri vegferð að búa til tvöfalt kerfi þar sem sumir geta borgað sig fram fyrir röðina og fengið að velja „gullpakkann“ meðan aðrir þurfa að bíða með tilheyrandi þjáningum og samfélagslegum kostnaði. Það er skrýtin forgangsröðun að nota skattfé almennings í arðgreiðslur til gróðadrifinna fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Hægt væri að forgangsraða þessu sama fé í heilbrigðiskerfið sjálft öllum til hagsbóta, líka þeim fátæku.

Forsvarsmaður Klíníkurinnar ber því við í sjónvarpsviðtali að langir biðlistar séu vandamál og hefur Klíníkin boðist til að leysa biðlistavandann með því að óska eftir þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands til að greiða niður aðgerðirnar. Þetta er þekkt tækni einkavæðingarinnar: fjársvelta, ganga úr skugga um að hlutirnir virki ekki svo neyðarástand skapist og hlutirnir eru í kjölfarið leystir með því að fela þá einkaaðilum. Ég hvet heilbrigðisráðherra, Óttar Proppé, til að vinna frekar á biðlistum með því að auka fé til opinbera heilbrigðiskerfisins í stað þess að eyða skattfé almennings í samninga við einkaaðila í gróðastarfsemi. Ég vil að lokum hvetja ráðherra til að leggjast gegn arðgreiðslum úr heilbrigðisþjónustunni. Þar er um að ræða stórt réttlætismál sem varðar okkur öll. Við eigum nefnilega öll heilbrigðiskerfið okkar, að minnsta kosti enn sem komið er.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Sjálfstæðismenn í borginni senda notendum fjárhagsaðstoðar kaldar kveðjur!

Á fundi borgarstjórnar í desember sl. lögðu Sjálfstæðismenn fram tillögu þess efnis að í stað þess að hækka fjárhagsaðstoð mv. forsendur fjárhagsáætlunar upp í tæpar 185 þúsund krónur á mánuði yrði fjárhagsaðstoð lækkuð til „samræmis við meðalupphæð fjárhagsaðstoðar annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu“. Slík „samræming“ myndi fela í sér lækkun fjárhagsaðstoðar í tæpar 150 þúsund krónur á mánuði eða um tæpar 35 þúsund krónur á mánuði. Þarna skín í gegn sú skoðun sjálfstæðismanna í borginni að þeir verst settu í samfélaginu eigi að taka á sig miklar skerðingar þannig að hægt sé að fara í önnur „mikilvæg“ verkefni á borð við endurnýjun gervigrasvalla, lengingu á opnunartíma sundlauga og byggja stokka og mislæg gatnamót. Mikilvægt er að mæta fólki þar sem það er statt og aðstoða þá verst settu til að ná tökum á lífi sínu og tryggja þátttöku allra í samfélaginu. Nógu lág er nú fjárhagsaðstoðin samt, en um það erum við og sjálfstæðismenn í borginni greinilega ósammála.

 

 

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Í bullandi mótsögn?

Fjárhagsstaða flestra sveitarfélaga landsins er erfið. Eitt helsta baráttumál Sambands íslenskra sveitarfélaga er að tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð í ljósi nýrra verkefna og aukinna krafna um þjónustu.

Sjálfstæðismenn svara því til þegar þeir voru spurðir að því hvort þeir ætli að styrkja tekjustofna sveitarfélaga að slíkt standi ekki til. Sjálfstæðisflokkurinn svarar því til að tekjustofnar sveitarfélaga hafi styrkts og ekki standi til að auka álögur á íbúa. Sveitarfélög verði einfaldlega að forgangsraða! Nú veit ég ekki hvernig Sjálfstæðismenn fá það út að það að endurskoða tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga feli í sér auknar álögur á íbúa.

Spurningin snýst ekki um það heldur því hvernig þeim sköttum sem nú þegar eru innheimtir er skipt á sanngjarnan hátt þannig að þeir dugi til að fjármagna þau verkefni sem fyrir liggja. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddviti Sjálfstæðismanna í borginni skrifar grein í málgagnið þar sem hann varar við því að sömu flokkar og séu í meirihluta í Reykjavíkurborg taki við stjórn landsmálanna. Hann heldur því fram að Reykjavíkurborg sé illa rekið sveitarfélag, þegar hann veit fullvel í stöðu sinni sem formaður Sambands Íslenskra Sveitarfélaga að fjárhagsstaða flestra sveitarfélaga landsins er slæm.

Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að nýjum verkefnum hefur ekki fylgt nægjanlegt fjármagn. Við þurfum að stokka spilin upp á nýtt og tryggja fjármagn í grunnþjónustu sveitarfélaga. Sum sveitarfélög standa betur á meðan önnur undir stjórn Sjálfstæðismanna hafa fengið skipaða yfir sig fjárhaldsstjórn.

Ég býð spennt eftir gagnrýni frá formanni Sambands Íslenskra Sveitarfélaga á þá stefnu Sjálfstæðisflokksins að ekki standi til að endurskoða tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Annars hlýtur formðurinn að ganga gegn helsta baráttumáli Sambandsins um að kökunni verði skipt upp á nýtt þannnig að hægt sé að tryggja nauðsynlega grunnþjónustu sveitarfélaga.

Greinin birtist á vísi.is þann 27.10.2016
Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Fólk en ekki faraldur

Ræða flutt 8. október 2016 í tilefni af opnun ljósmyndasýningarinnar Fólk en ekki faraldur í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Kæru gestir.

Takk fyrir að bjóða mér að opna þessa sýningu sem Samtök um líkamsvirðingu standa fyrir í samvinnu við Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og sýnir ljósmyndir Gunnars Freys Steinssonar.

Það er í raun stórmerkilegt að það sé, í okkar samfélagi “fullkomlega eðlilegt”, að hafa skoðun á holdafari annarra og tjá sig um það. Það er alls ekki óvenjulegt að heyra fólk tala saman um að þessi eða hinn þurfi nú að taka sig á og ná af sér nokkrum kílóum og það má heldur ekki gleyma því að þurfa að bæta við sig. Það er eins og holdafar einstaklinga sé almenningseign sem hverjum og einum sé frjálst að tjá sig um og hafa skoðanir á. En þannig er það oft því miður. Mig mynnir að ég hafi verið sex ára gömul þegar ég fékk fyrst að heyra að ég væri feit.

Í þessu stutta ávarpi ætla ég ekki að kryfja ástæður þess en við skulum ekki gleyma því að það eru margir sem græða peninga á því að kynt sé undir óánægju með útlit. Það eru framleidd föt sem eiga að láta þig líta út grennri, pillur sem hjálpa þér að missa kíló, te sem léttir, matur sem minnkar mittismálið, alls konar námskeið sett á fót sem eiga að fá þig til að vera einhver annar en þú ert. Útlitsiðnaðurinn sem gengur út að á vekja þá tilfinningu með okkur öllum að við séum ekki nógu mjó, nógu falleg, nógu hávaxin eða í nógu góðu formi.

Í stað þess að vera fjötruð af staðalmyndum um útlit, eigum við frekar að leggja áherslu á að vera hamingjusöm, vera ánægð í eigin skinni og fagna margbreytileikanum. Við eigum hins vegar ekki að vera umburðalynd gagnvart fordómum annarra. Tökum þá umræðu þegar tækifæri gefst að óeðlilegt sé að gefið hafi verið út skotleyfi á fólk vegna útlits og holdafars. Við erum alls konar og fordómar í garð útlits fólks eru óásættanlegir.

Ég greini stolt frá því að í drögum að nýrri mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar sem mun vera lögð fyrir borgarstjórn á næstu dögum er fjallað um að óheimilt sé að mismuna fólki vegna holdafars, útlits eða líkamsgerðar og að Reykjavíkurborg líti svo á að fordómar og mismunun í tengslum við holdafar séu félagslegt óréttlæti sem beri að vinna gegn.

Vonandi verður þessi sýning til þess að vekja athygli og kveikja umræður um líkamsvirðingu. Njótið, látið þetta kveikja í ykkur og munum að við erum alls konar.

Takk fyrir.

 

 

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Læknar úr opinberum störfum á einkastöðvar

“Læknar hafa áhyggjur af því að nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar verði ekki til þess að heimilislæknum fjölgi á höfuðborgarsvæðinu heldur flytji heimilislæknar sig úr opinbera geiranum yfir í einkageirann.”

Svona byrjar frétt sem birtist á vísi.is í dag. Ég deili svo sannarlega þessum áhyggjum læknanna. En í ljós hefur komið að í stjórn Heilsugæslunnar Höfða sem var eina félagið sem bauð í rekstur heilsugæslu á Bíldshöfða (sem er ekki góð staðsetning f. íbúa) sitji fimm læknar þar af eru fjórir þeirra þegar starfandi á heilsugæslustöðvum á Höfuðborgarsvæðinu. Þetta er sannarlega áhyggjuefni, þarna færast læknar úr opineru kerfi yfir í einkakerfi þar sem þeir geta greitt sér arð úr rekstri fyrir almannafé. Staðsetningar nýju stöðvanna þriggja virðast ekki byggja neinu mati á því hvar á svæðinu sé mest þörf fyrir þjónustu og útboði háttað þannig að einungis einn aðili býður í rekstur á hverri stöð (ætli það sé tilviljun?).

Í lokin vil ég lýsa yfir áhyggjum yfir nýju greiðslufyrirkomulagi á þjónustu Heilsugæslustöðva. Fyrirkomulagið sem ráðherra kallar að “fé fylgi sjúkling” er að sænskri fyrirmynd og heitir þar í landi “vårdval¨en það módel var dæmt úr leik af sænsku ríkisendurskoðuninni árið 2014 þegar úttekt leiddi í ljós að fyrirkomulagið dró úr jafnræði í kerfinu. Þeir sem veikari voru og efnaminni fengu verri þjónustu á meðan þeir sem voru hraustari og efnameiri voru ofþjónustaðir. Auk þess hafa fjölmörg fámenn svæði orðið nánast án heilbrigðisþjónustu vegna fyrirkomulagsins.

Málið snýst því ekki einungis um útboð á þremur einkareknum Heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu, það snýst um grundvallarbreytingu á heilbriðgisþjónustu í landinu og þeirri sýn að öflug heilsugæsla skuli standa öllum til boða, óháð efnahag og búsetu. Ef raunverulegur vilji stæði til að efla heilsugæsluna væri einfaldasta leiðin til þess að leggja meira fé í málaflokkinn.

 

 

 

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

2 Comments

Filed under Blogg

Heilbrigðiskerfi í skattaskjól?

Heilbrigðisráðherra talar sífellt um aukið „val“ í heilbrigðiskerfinu. Frasar á borð við „fjölbreytt rekstarform“ og „valfrelsi“ eru farin að hljóma sem kunnuleg stef. Þetta kann við fystu heyrn að hljóma spennandi, hver getur svosem verið á móti fjölbreytni og valfrelsi? En hvað þýðir þetta í raun og veru? Þetta þýðir að stefna stjórnvalda hér á landi er að stefna í stórauknu mæli að einkarekstri og einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Málið hefur átt sér langan aðdraganda og ljóst að síðastliðin ár hefur kerfið verið einkavætt í litlum bútum. Það er gert til þess að vekja ekki of mikið umtal í samfélaginu, enda eru langflestir hér á landi hlynntir því að greiða skuli fyrir slíka heilbrigðisþjónustuna úr sameiginlegum sjóðum með skattfé.

Næsta skref í þessum einkavæðingaráformum er fyrirhuguð einkavæðing þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Nú þegar hefur verið auglýst eftir áhugasömum rektstaraðilum. Því er orðið ljóst að umræddum breytingum verður hrint í framkvæmd án aðkomu Alþingis. Engin veit hvaða skref verða stigin næst, enda virðist hvíla ákveðin leynd yfir áformum ráðherra í þeim efnum. Þó er vitað að það er starfandi nefnd á vegum heilbrigðisráðherra sem ætlað er að skoða „fleiri“ rekstrarform í heilbrigðisþjónustu og hafa fulltrúar gróðadrifinna fyrirtækja á því sviði beina aðkomu að þeirri nefnd. Ekkert bólar þó á niðurstöðunum enn sem komið er, kannski sem betur fer.

Arðgreiðslur af skattfé

Sú umræða hægrimanna að hið hið opinbera veiti sjálfkrafa lélega þjónustu þar sem sjúklingar hafi ekkert val stenst enga skoðun. Það á að vera okkar metnaður að hið opinbera veiti öllum góða heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Með því að fela einkaaðilum rekstur sívaxandi hluta heilbrigðiskerfisins eru milljónir færðar úr sameiginlegum sjóðum okkar allra til að þess hægt sé að greiða arð til eigenda fyrirtækja sem sinna heilbrigðisþjónustu. Mér þykir það skrýtin forgangsröðun að nota skattfé almennings til að greiða arð til gróðadrifinna fyrirtækja í staðinn fyrir að forgangsraða þessu sama fé í  heilbrigðiskerfið sjálft, öllum til hagsbóta líka þeim fátæku.

Gullpakkinn: Ekki fyrir þig

Rekstur heilsugæslustöðva á sem og önnur heilbrigðisþjónusta að vera veitt af hinu opinbera. Það er besta leiðin til að tryggja öllum aðgang að þjónustunni, óháð búsetu, efnahag eða félagslegri stöðu. Við getum ekki búið við tvöfalt kerfi þar sem sumir geta borgað sig framfyrir röð eða fengið „gullpakkann“ á fæðingardeildinni á meðan aðrir stinga skattfé almennings í vasann í formi arðgreiðslna til eigenda.  Sú leið sem ráðherra talar fyrir um að „fé fylgi sjúkling“ var í Svíþjóð kölluð „Vårdval“. Sú leið beið skipbrot og hefur hið opinbera í síauknu mæli þurft að taka yfir rekstur heilsugæslustöðva frá einkaaðilum þar í landi með ærnum tilkostnaði, en arðurinn stundum horfinn í hyldýpi skattaskjóla. Ráðherra svaraði munnlegri fyrirspurn formanns Vinstri grænna á þingi á dögunum á þá vegu að ekki stæði til að einkareknar heilsugæslustöðvar á Höfðuborgarsvæðinu gætu greitt sér arð. Ég vil því nota tækifærið til að hvetja ráðherra til að setja lög strax sem koma í veg fyrir að slíkt sé mögulegt. Ekki virðist veita af slíkri lagasetningu miðað við áform ríkisstjórnarinnar um frekari einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Vonandi verður þó kosið fyrr en síðar þannig að hægt verði að koma í veg fyrir núverandi áform um aukin einkarekstur í heilbrigðiskerfinu okkar. Við eigum það nefnilega öll saman, enn sem komið er.

Greinin birtist í 1. maí blaði Vinstri Grænna í Reykjavík.

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Stóru málin?

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs, nei afsakið Sigurðar Inga og Bjarna Benediktssonar er tíðrætt um þau “Stóru Mál” sem þarf að klára. Hvaða stóru mál eru þetta?

1. Einkavæðing Heilsugæslunnar á Höfuðborgarsvæðinu

2. Einkavæðing Landsnets

3. Einkavæðing Landsbankans

Það er semsagt að hefjast brunaútsala á eigum okkar almennings í hendur ríku klíkunnar sem á aflandsfélög á Tortóla, já það er svo sannarlega erftitt að eiga peninga á Íslandi…

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Hugleiðing um “Samtök fyrirtækja í Velferðarþjónustu”

Að gefnu tilefni finnst mér ástæða til að benda á að í Samtökum fyrirækja í velferðarþjónustu eru bæði gróðardrifin fyrirtæki á markaði sem og sjálfseignarstofnanir sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Ég tel þetta samkurl eðlisólíkrar starfssemi óeðlilegt og villandi.  Mikilvægt er að skilja á milli gróðarsækinna fyrirtækja á markaði og félagasamtaka og sjálfseignarstofnanna sem sinna velferðarþjónustu.

Hlutverk fyrirtækja er að framleiða vörur og þjónustu fyrir viðskiptavini sem er yfirleitt gert gegn greiðslu peninga. Hagnaðardrifin hugsjón fyrirtækjareksturs getur ekki átt við þegar við veitum velferðarþjónustu, þar sem sá arður sem greiddur er eigendum slíkra fyrirtækja koma úr vasa skattgreiðenda eða þeirra sem nota þjónustuna, oftast aldraðra eða fatlaðs fólks. Menn tala opinskátt um einkafjármögnun á byggingu nýs landspítala, fyrrverandi bæjarstýra greiðir sér tugmilljóna arð úr fyrirtæki í velferðarþjónustu á nokkra ára tímabili, og ráðherrar núverandi ríkisstjórnar telja eðlilegt að notendur velferðarþjónustu greiði í meira mæli úr eigin vasa til þess að hægt sé að fjármagna fyrirheit um “skattalækkanir”.

Sjálfseignarstofnanir og félagasamtök hafa sinnt velferðarþjónustu hér á landi um langt skeið. Hrafnista, Styrktarfélagið Ás, Krabbameinsfélagið og fleiri tugir aðila sinna í dag mikilvægri velferðarþjónustu. Rekstur slíkrar þjónustu á það sameiginlegt að vera ekki rekin í hagnaðarskyni fyrir eigendur sína og óheimilt er að greiða arð út úr starfsseminni, ef afgangur verður fer hann í frekari uppbyggingu og eflingu starfsins, notendum þjónustunnar til hagsbóta.

Ég tel að þau félagasamtök og þær sjálfseignarstofnanir sem sinna velferðarþjónustu án hagnaðarsjónarmiða ættu að sjá hag sinn í því að segja sig úr samtökum kennd við “fyrirtæki í velferðarþjónustu” og stofna frekar sér hagsmunasamtök. Það myndi bæta ímynd þeirra og gera hlutverk þeirra fjölmörgu frjálsu félagasamtaka sem sinna velferðarþjónustu með hag notenda og aðstandenda þeirra að leiðarljósi sýnilegri í umræðunni.

 

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Hver á að græða á heilsugæslunni?

Nú er ljóst að heilbrigðisráðherra er að leggja lokahönd á undirbúning fyrir einkavæðingu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fljótlega verður þeim undirbúningi sem nú stendur yfir í ráðuneytinu lokið og hafist handa við að hrinda í framkvæmd stefnumáli Sjálfstæðismanna um aukinn einkarekstur og einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Sjálfstæðismenn hafa komið því þannig fyrir að ráðherra getur gert samninga um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu án aðkomu Alþingis.

Þegar ráðherra talar um „fjölbreyttari valkosti“ er hann í raun að tala um það sem heitir á mannamáli aukinn einkarekstur heilbrigðiskerfisins. Heilsugæslan er aðeins fyrsta skrefið. Ráðherra skipaði starfshóp sem ætlað er að skoða „fleiri“ rekstrarform í heilbrigðisþjónustu. Þeir sem vilja selja ríkinu slíka þjónustu til að græða á henni hafa í gegnum starfshópinn beina aðkomu að því að skilgreina hverjir þurfa þjónustu og hvernig hún skal veitt.

Einkavæðing heilsugæslunnar gekk hratt fyrir sig í Svíþjóð á sínum tíma, umsvif einkafyrirtækja í heilbrigðisþjónustu tvöfölduðust undir hægristjórn Fredriks Reinfeldt. Sýnt hefur verið fram á að jafngildi rúmlega 500 milljarða íslenskra króna var tekið úr vasa sænskra skattgreiðenda til að standa undir arðgreiðslum til eigenda gróðadrifinna fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu þar í landi á árunum 2008-2012. Þetta var gert þrátt fyrir að fjölmargar skoðanakannanir sýni fram á að sjö af hverjum tíu Svíum séu mótfallnir því að arður sé tekinn út úr slíkri þjónustu.

Horfið af braut einkavæðingar

Nú hefur í auknum mæli þurft að hverfa af braut einkavæðingar í Svíþjóð og hið opinbera hefur þurft að taka aftur yfir rekstur heilsugæslustöðva með ærnum tilkostnaði. Úttekt sænsku ríkisendurskoðunarinnar leiddi í ljós að þjónustan varð brotakenndari og að eftirspurn réð framboði á heilbrigðisþjónustu frekar en raunveruleg þörf. Þetta leiddi til þess að hinir efnameiri og hraustari fengu betri þjónustu, hinir fátæku og veikari fengu verri þjónustu. Það sama á við um rekstur hjúkrunarheimila í Danmörku. Einkaframtakið brást og aukakostnaður við að taka aftur yfir reksturinn leggst á hið opinbera.

Langflestir Íslendingar eru þeirrar skoðunar að greiða skuli fyrir heilbrigðis- og velferðarþjónustu úr sameiginlegum sjóðum. Í einhverjum tilfellum má velferðarþjónusta vera á hendi styrktar- og eða góðgerðarfélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Þeir sem fá opinbert fé til að veita slíka þjónustu eiga eðlilega að gera grein fyrir hverri krónu og tryggja þarf að opinbert fé fari ekki í arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja.

Rekstur heilsugæslustöðva á að vera á hendi hins opinbera. Það á að vera metnaður okkar allra að greiða fyrir slíkt úr sameiginlegum sjóðum og tryggja öllum aðgang, óháð búsetu, efnahag eða félagslegri stöðu. Framtíðarsýn sem byggist á því að sumir geti borgað aukalega fyrir betri þjónustu, á meðan aðrir hagnast á heilbrigðiskerfinu, er sýn sem ég deili einfaldlega ekki. Það er skrítið að líta á það sem forgangsverkefni að nota skattfé til að tryggja eigendum gróðadrifinna fyrirtækja arð, í stað þess að forgangsraða sama fjármagni í þjónustuna sjálfa. Það nýtist nefnilega öllum, líka þeim fátæku.

Um þessi áform hef ég aðeins eitt að segja: Heilsugæslan er ekki til sölu!

Greinin birtist á vísi.is 25.nóvember 2015.

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar