Af aumingjavæðingu og aðstoð við þá sem þurfa hjálp

Talsverð umræða hefur verið í samfélaginu um stöðu ýmissa jaðarsetta hópa. Það er sérstaklega ánægjulegt að fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málefni utangarðsfólks, því fáir ef nokkrir hópar í samfélaginu eru meira jaðarsettir í okkar samfélagi en þeir sem teljast utangarðs.

Vaxandi skilningur á vanda utangarðsfólks, sem margt glímir við fíknisjúkdóma, birtist meðal annars í því að heilbrigðisráðherra ætlar að skoða möguleika á því að opna neyslurými fyrir fíkla. Skaðaminnkandi nálgun í þjónustu við fíkla snýst ekki um lögleiðingu fíkniefna heldur afglæpavæðingu neyslu og rétt fólks til þjónustu óháð félagslegri stöðu.

En þó skilningur á vanda margra jaðarsettra hópa hafi aukist virðist samfélagsumræðan oft vera komin á þann skrýtna stað að meta þurfi hverjir séu „verðugir“ notendur velferðarþjónustunnar. Þetta birtist í dylgjum um að stór hluti þess fólks sem nýtir sér velferðarþjónustu ríkis og sveitarfélaga sé að svindla. Eða að fólk þurfi bara að „hætta þessu væli“. Það þurfi að redda sér sjálft.

Þessari mannfjandsamlegu hugmynd hefur til dæmis verið haldið á lofti af einum af frambjóðendunum í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í borginni sem fram fór á dögunum. Sá talaði um „aumingjavæðingu“, og mátti skilja af orðum hans að fólk sem þyrfti aðstoð hefði það of gott. Mikið af þessu fólki væri ekkert nema afætur á samfélaginu. Sjálfstæðisflokkurinn gerði ekkert til að sverja þennan málflutning af sér, enda eiga þessar hugmyndir sér því miður hljómgrunn í samfélaginu.

Ég sé það ekki fyrir mér að einstaklingur sem leitar sér læknisaðstoðar vegna hjartaáfalls yrðri véfengdur af samfélaginu. Hinsvegar virðist það algengt viðhorf að einstaklingar sem glíma við geðræn veikindi og fíknisjúkdóma eigi bara að hætta að kvarta og finna sér almennilega vinnu. Ég hélt lengi vel að þessar skoðanir væru á undanhaldi og ég vona svo sannarlega að það sé raunin.

Nú er ég ekki að tala gegn reglum og eftirliti í velferðarþjónustunni, en á hvaða forsendum er velferðarþjónusta veitt? Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem glímir við geðræn veikindi og fíknisjúkdóma á erfiðara með að leita sér læknishjálpar en aðrir hópar í samfélaginu. Fjölmörg mikilvæg skref hafa verið stigin í átt að skaðaminnkandi nálgun í þjónustu. Ber þar helst að nefna verkefnið Frú Ragnheiði sem sinnir nálaskiptaþjónustu og grunnheilsugæslu fyrir þá sem teljast utangarðs. Viðhorfsbreyting samfélagsins er hafin, en betur má ef duga skal. Við þurfum að hverfa frá ölmusumiðuðu kerfi sem tortryggir fólk yfir í réttindamiðað kerfi sem býður fólk velkomið.

Fólk sem þarf aðstoð og hjálp á ekki skilið að mæta ásökunum um leti og óheiðarleika, heldur þarf að mæta hverjum og einum með virðingu og skilningi. Það er verkefni okkar allra sem samfélags að tryggja það að engin falli milli skips og bryggju.

Greinin birtist fyrst á stundinni 30.01.2018.

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Aukin samvera milli kynslóða

Velferðarráð samþykkti á dögunum tillögu um tilraunaverkefni þar sem háskólanemum býðst að leigja íbúð í þjónustuíbúðakjarna fyrir eldri borgara. Nemarnir leigja á hagstæðum kjörum gegn 40 tíma vinnuframlagi á mánuði við að sinna ýmsum verkefnum af félagslegum toga. Vinna þeirra er viðbót við þá þjónustu sem þegar er boðið upp á í slíkum kjörnum. Verkefnið er unnið að erlendri fyrirmynd m.a frá Bretlandi, Finnlandi og Hollandi.

Í vefritinu Lifðu núna er fjallað um nýlega bandaríska rannsókn sem sýnir að eldra fólki er hættara við að þróa með sér þunglyndi og er einmanaleiki einn áhættuþáttur þess. Aðrir áhættuþættir eru fráfall maka og ættinga og sjúkdómar. Bretland hefur einnig verið í sviðsljósinu eftir að Tracey Crouch var á dögunum skipuð sem ráðherra gegn félagslegri einangrun og einmanaleika. Mikil umræða hefur verið um einsemd eldra fólks í Bretlandi og hafa samtökin Age UK látið sig málið varða m.a. með auglýsingaherferð fyrir jólin sem vakti mikla athygli.

Tilraunaverkefnið er til átján mánaða og verða tveir háskólanemar í verkefninu til að byrja með. Verkefnið er hluti af stærra verkefni sem snýr að því að auka samskipti milli kynslóða og draga úr félagslegri einangrun eldra fólks. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

 

 

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Framboðsyfirlýsing

Kæru félagar !

Ég býð mig fram í 2. sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík til borgarstjórnarkosninga sem fram fer þann 24. febrúar næstkomandi.

Undanfarið kjörtímabil hef ég gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir borgarstjórnarflokk Vinstri grænna sem og hreyfinguna í heild. Fyrst sem fulltrúi í menningar- og ferðamálaráði og velferðarráði en frá haustinu 2016 sem varaborgarfulltrúi. Ég gegni nú bæði formennsku í velferðarráði og mannréttindaráði borgarinnar og sinni ýmsum trúnaðarstörfum fyrir borgarstjórnarflokk VG sem og hreyfinguna í heild. Ég hef gegnt embætti ritara Vinstri grænna frá árinu 2015.

Velferðarmálin eru mér hugleikin sem og mannréttindi fólks í víðum skilningi. Kvenfrelsi, félagslegt réttlæti, mannréttindi og náttúruvernd í borg eru allt mikilvæg málefni sem eiga erindi við okkur öll.

Ég hef nú síðastliðið ár getað einbeitt mér að vinnu í þágu borgarbúa og tel mig eiga erindi til að gera það áfram næstu fjögur árin. Ég mun halda áfram að berjast fyrir því að allir borgarbúar fái lifað með reisn. Það gerum við með því að halda áfram að efla velferðarþjónustuna í víðum skilningu út frá mannréttindum allra. Mikilvæg skref hafa verið stigin til að efla félagslegt húsnæðiskerfi á yfirstandandi kjörtímabili en betur má ef duga skal.

Við þurfum að skapa gott umhverfi fyrir börn og barnafjölskyldur. Eflum faglegt starf skóla og tryggjum öllum aðgang að skóla- og frístundastarfi óháð efnahag. Raunveruleg náttúruvernd í borg snýst um að tryggja aðgang að hreinu vatni og hreinu andrúmslofti. Við þurfum að efla almenningssamgöngur og hlúa vel að umhverfinu, bæði á grænum svæðum og í borgarlandinu.

Við þurfum að efla raunverulegt íbúalýðræði og brúa bilið milli íbúa borgarinnar og kjörinna fulltrúa. Ég óska eftir stuðningi ykkar til að geta haldið þessu mikilvæga starfi áfram, fyrir okkur öll.

 

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg, Fréttir

Ræða flutt við afhendingu styrkja mannréttindaráðs

Kæru gestir!

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar úthlutar ár hvert styrkjum til frjálsra félagasamtaka og einstaklinga. Markmið styrkjana ráðsins er að styrkja við sjálfsprottið starf og starfssemi frjálsra félagasamtaka á sviði mannréttinda.

Þau verkefni sem hljóta styrki eru æði fjölbreytt en öllum er þeim ætlað að stuðla að farsælli þróun borgarsamfélagsins, jafnræði borgarbúa og fjölbreytilegu mannlífi í borginni okkar. Auk þess er það hlutverk styrkja mannréttindaráðs að styðja við hvers konar starf sem vekur athygli á eða stendur vörð um mannréttindi borgarbúa.

Á liðnu ári var skyndistyrkjum mannréttindaráðs úthlutað í fyrsta sinn. Var þeim komið á til að bregðast við umsóknum vegna verkefna sem ekki er hægt að sjá fyrir eða skipuleggja í aðdraganda almennra styrkúthlutana. Skyndistyrkir eru því mikilvæg viðbót til að efla grasrótina á sviði mannréttindamála. Þannig er hægt að bregðast hratt og vel við oft ófyrirséðum viðburðum og efla grasrót til nýsköpunar á sviði mannréttindamála.

Ég vil að lokum óska styrkþegum innilega til hamingju og þakka þeim fyrir að stuðla að mannréttindum í okkar góðu borg. Til hamingju með daginn!

 

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Kaldar jólakveðjur frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins

Við afgreiðslu á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 lögðu Sjálfstæðismenn fram tillögu þess efnis að lækka fjárhagsaðstoð borgarinnar. Í stað þess að hækka hana upp í tæpar 189 þúsund krónur á mánuði vildu þeir að hún yrði lækkuð til „samræmis við meðalupphæð fjárhagsaðstoðar annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu“. Slík samræming myndi fela í sér lækkun fjárhagsaðstoðar í um 160 þúsund krónur á mánuði eða lækkun um tæpar þrjátíu þúsund krónur á mánuði. Tillagan var vitaskuld felld, enda myndi núverandi meirihluti aldrei samþykkja að vega að þeim sem síst skyldi í samfélaginu og standa einna verst. Með þessum tillöguflutningi opinbera borgarfulltrúarnir þá skoðun sína að þeir sem minnst eða ekkert eiga geti tekið á sig miklar skerðingar.

Það er mín einlæga skoðun að við eigum að mæta fólki í vanda þar sem það er statt með virðingu að leiðarjósi. Það er hlutverk sveitarfélaga að jafna kjör og sjá til þess að enginn líði skort og að hverjum og einum sé mætt á sínum forsendum. Þannig stuðlum við best að þátttöku allra í samfélaginu og sköpum þannig öfluga og lifandi borg.

Ég vil hvetja borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til að kynna sér það öfluga starf sem unnið er með notendum fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar. Vinnan með notendum miðar að því að virkja alla til þátttöku í samfélaginu á nýjan leik. Það er hreinlega skammarlegt að vega að þeim er síst skyldi, með tillögu sem þessari, nógu lág er nú fjárhagsaðstoðin samt. Sem betur fer tilheyri ég þeim meirihluta sem er ósammála Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn um þetta og ævinlega þegar þeir hyggjast skerða kjör þeirra sem verst standa mun ég leggjast gegn slíkum tillögum enda eru þær til skammar í velferðarsamfélagi.

Greinin birtist fyrst á visir.is

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Kynferðisofbeldi, leyndarhyggja og þöggun.

Kæru félagar

Lokið hefur sprungið af leyndarhyggjunni, leyndarhyggjunni sem stendur vörð um gerendur kynferðisofbeldis og leggur ábyrgð á þolendur. Athugasemdir um “meint” brot og hegðun og klæðaburð þolenda eru ekki til umfjöllunar í öðrum tegundum afbrota en kynferðisbrota. Kæru félagar, það skiptir máli hverjir stjórna í samfélaginu. Í Reykjavik starfrækjum við Bjarkarhlíð sem er miðstöð fyrir hvers kyns þolendur ofbeldis. Markmið með stofnun Bjarkarhlíðar er að veita samhæfðan stuðning og ráðgjöf til þolenda ofbeldis, en auk þess stuðla að fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis og gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið í okkar samfélagi.

Á þeim sex mánuðum sem liðið frá stofnun Bjarkarhlíðar hafa 193 einstaklingar leitað þangað. Af þeim eru 171 kona og 18 karlar. Yfir helmigur mála eru heimilisofbeldismál þar sem andlegt líkamlegt og / eða kynferðisofbeldi kom við sögu. Einnig hafa einstaklingar verið aðstoðaðir við að komast úr vændi. Í Bjarkarhlíð starfar rannsóknarlögreglukona í fullu starfi sem aðstoðar brotaþola við að leita réttar síns og eftir atvikum kæra. Alls voru lagðar fram 36 kærur vegna ofbeldis á tímabilinu.

Rannsóknir hafa sýnt að börn hafa að meðaltali reynt að segja sjö sinnum frá því ofbeldi sem þau verða fyrir, bæði andlegu, líkamlegu og kynferðislegu áður en einhver hlustar á frásagnir þeirra. Nú hafa brotaþolar og aðstandendur þeirra ákveðið að láta í sér heyra bæði undir #konurtala og #höfumhátt. Nú eru brotaþolar kominir með rödd og þeir hafa hátt og tala. Það er okkar að hlusta. Afnám laga um uppreist æru er aðeins byrjunin. Við þurfum heildarendurskoðun á kefinu. Ljóst er að hreinskiptin umræða um ofbeldi er til þess fallin að rjúfa þögnina sem allt of lengi hefur umlukið ofbeldi. Við sem samfélag megum aldrei viðurkenna, afsaka eða samþykkja ofbeldi af neinu tagi.

Við þurfum að hlusta á þolendur ofbeldis og taka mark á þeim, þeir eiga það skilið!

Ræða flutt á landsfundi VG 6. október 2017.

 

 

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Opinskátt um ofbeldi

Ræða flutt á sameiginlegum fundi Borgarstjórnar Reykavíkur og Ofbeldisvarnarnefndar 30. maí 2017

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar kemur fram að Reykjavíkurborg ætlar að vinna gegn kynbundu ofbeldi, bæði andlegu líkamlegu og kynferðislegu. Reykjavíkurborg viðurkennir að kynbundið ofbeldi er brot á grundvallarmannréttindum fólks og samfélagsmein sem enginn á að búa við. Öll starfssemi borgarinnar skal samkvæmt mannréttindastefnunni taka mið að þessu sjónarmiði.

Reykjavíkurborg hefur unnið aðgerðaráætlun gegn kynbundu ofbeldi frá árinu 2012. Í núverandi aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum sem gildir til ársins 2019 koma fram 3 aðgerðir sem snúa að kynbundu ofbeldi.

Saman gegn ofbeldi, ofbeldisvarnarnefnd og öruggar borgir eru verkefni sem nú þegar eru hluti af áætluninni. Verkefnin eru nú orðin mun fleiri og fjölbreyttari má þar meðal annars nefna Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og verkefnið opinskátt um ofbeldi.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir um að innleiða verkefnið Opinskátt gegn ofbeldi í skóla og frístundamiðstöðvar borgarinnar ber svo sannarlega að fagna. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu barna á ofbeldi og gera þeim kleift að ræða um ofbeldi á opinskáan hátt. Ljóst er að hreinskiptin umræða um ofbeldi er til þess fallinn að rjúfa þögnina sem hefur umlukið ofbeldi. Niðurstaða verkefnisins sýnir að starfsfólk telur sig betur í stakk búið til að greina merki um ofbeldi og bregðast við frásögnum barna um ofbeldi. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg búi börnum umhverfi sem er laust við hvers kyns ofbeldi og tryggi að þolendur ofbeldis hafi verkfæri til að tjá sig um ofbeldi og að við sem samfélag bregðumst við hvers kyns ofbeldi með skýrum hætti

Að lokum vill ég nefna að það er fyllilega skoðunar vert að koma þeim verkefnum sem þegar eru í framkvæmd og þeirra sem eru í farvegi  í ofbeldisvarnarmálum í sérstaka aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar á því sviði.  Margt er vel gert og við erum svo sannarlega lögð af stað, en aðgerðir gegn kynbundu ofbeldi eru viðvarandi verkefni og við megum ekki sofna á verðinum. Enginn á að þurfa að búa við ofbeldi og viðhorf stjórnvalda s.s Reykjavíkurborgar skipta máli. Ofbeldi má aldrei líðast í nokkurri mynd.

 

 

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Gullpakkinn – ekki fyrir þig!

Ríkisstjórnin styður „fjölbreytt rekstrarform“ og „valfrelsi“ í heilbrigðiskerfinu. Þetta kann að hljóma spennandi. Hver getur svo sem verið á móti fjölbreytni og valfrelsi fólks? En hvað þýða þessir frasar í raun og veru? Þeir þýða að stjórnvöld hér á landi ætli að stefna í stórauknum mæli að einkarekstri og einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar.

Um miðjan janúar fékk Klíníkin leyfi Landlæknis til að framkvæma stærri aðgerðir sem krefjast innlagnar í kjölfarið. Klíníkin er fyrsta einkastofan hér á landi sem fær leyfi til að reka legudeild. Fjölmargar rannsóknir sýna hins vegar að opinber rekstur heilbrigðisþjónustu er besta leiðin til að tryggja öllum aðgang að þjónustunni óháð búsetu, efnahag eða félagslegri stöðu. Stjórnvöld halda því áfram þeirri vegferð að búa til tvöfalt kerfi þar sem sumir geta borgað sig fram fyrir röðina og fengið að velja „gullpakkann“ meðan aðrir þurfa að bíða með tilheyrandi þjáningum og samfélagslegum kostnaði. Það er skrýtin forgangsröðun að nota skattfé almennings í arðgreiðslur til gróðadrifinna fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Hægt væri að forgangsraða þessu sama fé í heilbrigðiskerfið sjálft öllum til hagsbóta, líka þeim fátæku.

Forsvarsmaður Klíníkurinnar ber því við í sjónvarpsviðtali að langir biðlistar séu vandamál og hefur Klíníkin boðist til að leysa biðlistavandann með því að óska eftir þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands til að greiða niður aðgerðirnar. Þetta er þekkt tækni einkavæðingarinnar: fjársvelta, ganga úr skugga um að hlutirnir virki ekki svo neyðarástand skapist og hlutirnir eru í kjölfarið leystir með því að fela þá einkaaðilum. Ég hvet heilbrigðisráðherra, Óttar Proppé, til að vinna frekar á biðlistum með því að auka fé til opinbera heilbrigðiskerfisins í stað þess að eyða skattfé almennings í samninga við einkaaðila í gróðastarfsemi. Ég vil að lokum hvetja ráðherra til að leggjast gegn arðgreiðslum úr heilbrigðisþjónustunni. Þar er um að ræða stórt réttlætismál sem varðar okkur öll. Við eigum nefnilega öll heilbrigðiskerfið okkar, að minnsta kosti enn sem komið er.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Sjálfstæðismenn í borginni senda notendum fjárhagsaðstoðar kaldar kveðjur!

Á fundi borgarstjórnar í desember sl. lögðu Sjálfstæðismenn fram tillögu þess efnis að í stað þess að hækka fjárhagsaðstoð mv. forsendur fjárhagsáætlunar upp í tæpar 185 þúsund krónur á mánuði yrði fjárhagsaðstoð lækkuð til „samræmis við meðalupphæð fjárhagsaðstoðar annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu“. Slík „samræming“ myndi fela í sér lækkun fjárhagsaðstoðar í tæpar 150 þúsund krónur á mánuði eða um tæpar 35 þúsund krónur á mánuði. Þarna skín í gegn sú skoðun sjálfstæðismanna í borginni að þeir verst settu í samfélaginu eigi að taka á sig miklar skerðingar þannig að hægt sé að fara í önnur „mikilvæg“ verkefni á borð við endurnýjun gervigrasvalla, lengingu á opnunartíma sundlauga og byggja stokka og mislæg gatnamót. Mikilvægt er að mæta fólki þar sem það er statt og aðstoða þá verst settu til að ná tökum á lífi sínu og tryggja þátttöku allra í samfélaginu. Nógu lág er nú fjárhagsaðstoðin samt, en um það erum við og sjálfstæðismenn í borginni greinilega ósammála.

 

 

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Í bullandi mótsögn?

Fjárhagsstaða flestra sveitarfélaga landsins er erfið. Eitt helsta baráttumál Sambands íslenskra sveitarfélaga er að tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð í ljósi nýrra verkefna og aukinna krafna um þjónustu.

Sjálfstæðismenn svara því til þegar þeir voru spurðir að því hvort þeir ætli að styrkja tekjustofna sveitarfélaga að slíkt standi ekki til. Sjálfstæðisflokkurinn svarar því til að tekjustofnar sveitarfélaga hafi styrkts og ekki standi til að auka álögur á íbúa. Sveitarfélög verði einfaldlega að forgangsraða! Nú veit ég ekki hvernig Sjálfstæðismenn fá það út að það að endurskoða tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga feli í sér auknar álögur á íbúa.

Spurningin snýst ekki um það heldur því hvernig þeim sköttum sem nú þegar eru innheimtir er skipt á sanngjarnan hátt þannig að þeir dugi til að fjármagna þau verkefni sem fyrir liggja. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddviti Sjálfstæðismanna í borginni skrifar grein í málgagnið þar sem hann varar við því að sömu flokkar og séu í meirihluta í Reykjavíkurborg taki við stjórn landsmálanna. Hann heldur því fram að Reykjavíkurborg sé illa rekið sveitarfélag, þegar hann veit fullvel í stöðu sinni sem formaður Sambands Íslenskra Sveitarfélaga að fjárhagsstaða flestra sveitarfélaga landsins er slæm.

Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að nýjum verkefnum hefur ekki fylgt nægjanlegt fjármagn. Við þurfum að stokka spilin upp á nýtt og tryggja fjármagn í grunnþjónustu sveitarfélaga. Sum sveitarfélög standa betur á meðan önnur undir stjórn Sjálfstæðismanna hafa fengið skipaða yfir sig fjárhaldsstjórn.

Ég býð spennt eftir gagnrýni frá formanni Sambands Íslenskra Sveitarfélaga á þá stefnu Sjálfstæðisflokksins að ekki standi til að endurskoða tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Annars hlýtur formðurinn að ganga gegn helsta baráttumáli Sambandsins um að kökunni verði skipt upp á nýtt þannnig að hægt sé að tryggja nauðsynlega grunnþjónustu sveitarfélaga.

Greinin birtist á vísi.is þann 27.10.2016
Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar