Author Archives: elinsig

Reykjavík – fyrir okkur öll!

Ræða flutt í Borgarstjórn þriðjudaginn 15. júní 2021 um Velferðarstefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030.

Borgarstjóri, borgarfulltrúar og aðrir áheyrendur. Það var lagt af stað í mikinn leiðangur þegar ákveðið var að móta fyrstu heildstæðu Velferðarstefnuna fyrir Reykjavíkurborg á haustmánuðum 2019. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að vera hluti af þeim stýrihóp sem hélt utan um að leiða þá vinnu. Ég er stolt af þessarri vinnu enda fór í gang umfangsmikið samráðsferli sem var meginstefið í allri vinnu stýrihópsins, en í honum áttu sæti fulltrúar Velferðarráðs, Velferðarsviðs auk fulltrúa helstu hagsmunaðila. 

Mörg könnumst við sjálf við eða höfum heyrt sögur af oft torveldu kerfi þegar kemur að því að fá þjónustu hjá Reykjavíkurborg. Sjálf man ég eftir því eins og það hefði gerst í gær þegar ég steig fæti inn á skrifstofu þáverandi Félagsþjónustu Reykjavíkur fyrir um aldarfjórðung til að sækja um fjárhagsaðstoð, viðhorf þeirra sem þar tóku á móti mér skiptu á þeim tíma öllu máli. Leiðarljós mitt frá því að ég hóf afskipti af borgarmálum hefur ávallt verið að setja notendur þjónustunnar og þarfir þeirra í fyrsta sæti. Við þurfum að huga að því hvernig við getum minnkað flækjustig og háttað samskiptum við íbúana út frá þeirra þörfum frekar en hentugleika kerfisins. Kerfi fyrir fólk en ekki fólk fyrir kerfi er slagorð sem ég hef tileinkað mér í öllum mínum störfum í þágu borgarbúa. 

Nú standa eftir sjö stefnumarkandi áherslur í Velferðarstefnu borgarinnar, þær munu skilgreina forgangsáherlsur sem nánar eru útfærðar í aðgerðaráætlun sem fylgja stefnunni. Mig langar aðeins að tæpa á þeim rauða þræði sem ég sé í þeim sjö áherslum sem markaðar hafa verið 

1. Með því að viðurkenna að engin tvö eru eins þarf að breyta þjónustumenningunni og setja þarfir íbúa í fyrsta sæti. “Computer says no” – heyrir sögunni til!

2. Með nálægð og aðgengileika viljum við einfalt skipulag sem er hannað út frá þörfum notenda þjónustunnar í hvítevna t.d með eflingu stafrænna lausna, felst viljum við geta gengið frá umsóknum og slíkum málum í símanum eða tölvunni frekar en að mæta á staðinn, þeir sem ekki geta nýtt sér stafrænar lausnir fá auðvitað áfram þjónustu á staðnum. 

3. Með þjónustulipurð og skilvirkni nýtum við notendamiðaða hönnun og ferðalag íbúa gegnum allt kerfið, við hreinlega löbbum í gegnum þetta með fólki og finnum bestu lausnirnar þannig. 

4. Með virðingu og umhyggju leggjum við áherslu á valdeflingu fólks, byggjum samkipti á gagnkvæmri virðingu og trausti og vinnum gegn hvers kyns fordómum með hugmyndafræði mannréttinda að leiðarljósi. Munum ávallt að einstaklingar eru ekki jaðarsettir, það erum við samfélagið sem jaðarsetjum þá. 

5. Með forvörnum og frumkvæði, viljum við að frumkvæði gæti orðið stærri þáttur í vinnubrögðum starfsólks, hægt er að benda á ýmsar lausnir án þess að íbúinn þurfi ávallt að biðjaa um nákvæmlega þá lausn. Frumkvæðisskyldan snýr að því að upplýsa íbúann um rétt sinn á hinum ýmsu sviðum og fara heildstætt yfir málin. 

6. Með samtali og samráði bætum við upplýsingagjöf til borgarbúa, umfram allt notendur velferðarþjónustu og aðstandenda þeirra. Mikilvægt er að framkvæma reglulega þjónustukannanir á sem flestum sviðum. 

7. Með fagmennsku og framsýni sköðum við eftirsótt vinnuumhverfi, því án starfsólks er engin velferðarþjónusta. Í öflugri velferðarþjónustu fara hagsmunir starfsfólks og notenda saman. Öflugt fagfólk sem er stolt og ánægt í vinnunni sinni veitir íbúum gæðaþjónustu. 

Með þessar sjö stefnumarkandi áherslur að leiðarljósi, sköpum við Reykjavík sem sannarlega er fyrir okkur öll. Nú er það okkar sem sitjum í þessum sal að tryggja það að stefnan verði innleidd með aðgerðaráætlun á næstu árum. 

Takk kærlega öll sem lögðuð ykkar að mörkum og mótuðuð þessa stefnu, í dag er gleðidagur. 

Leave a Comment

Filed under Ræður

Stefna um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík til 2030

Við ræddum í dag stefnu um framtíðarskipan tónlistarnáms í borginni en ég var fulltrúi í stýrihópnum sem vann stefnuna. Hér má lesa ræðu mína úr borgarstjórn í heild sinni. Nú er að vinna aðgerðaráætlun og láta verkin tala. Minna mas og meiri músík.

Borgarstjóri, borgarfulltrúar og aðrir áheyrendur. 

Það er gleðidagur að standa hér og ræða nýja stefnu borgarinnar um framtíðarskipan tónlistarnáms í borginni til ársins 2030. Hópurinn hefur starfað frá því í maí 2019 og hefur lagt mikla áherslu á upplýsingaöflun, gagnasöfnun og samráð við þá sem sinna tónlistarkennslu barna í borginni í víðum skilningi. Með því að leggja nú fram heilstæða stefnu um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík, setjum við okkur það markmið að styðja við fjölbreytt faglegt og vandað tónlistarnám fyrir börn og ungmenni um alla borg. Á meðan við stöndum vörð um það góða starf sem unnið er þurfum við líka að styðja við nýsköpun og framþróun í tónlistarmenntun, stórbæta aðstöðu til tónlistarkennslu barna innan grunnskólanna og auka samstarf stofnana sem starfa á sviði tónlistarkennslu barna í sem víðustum skilningi. Rannsóknir sýna að tónlistarnám barna er æskilegt og stuðlar það að þroska, félagsgreind og góðri andlegri líðan þeirra sem það stunda auk þess fylgir tónlistarnámi aukin almenn námsgeta og bættur námsárangur.

Algjör samhugur var um það í stýrihópnum og hjá öllum sem við ræddum við að mikilvægt væri að leggja áherslu á aukið aðgengi að tónlistarnámi þannig að það standi öllum börnum til boða. Mikilvægt er að við ryðjum úr vegi þeim hindrunum sem hindra börn frá þátttöku í tónlistarnámi. Stuðla þarf að auknum jöfnuði þegar kemur að tónlistarnámi, bæði með því að minnka kostnaðarþáttöku en líka ameð því að vinna að markvisst að kynningu og hvatningu til tónlistarnáms um alla borg. Mikilvægur liður í því að gefa fleiri börnum kost á að stunda tónlistarnám er að elfa starf skólahljómsveita borgarinnar og auka samstarf tónlistarskóla og skólahljómsveita við skóla borgarinnar, þannig að sem flest börn geti stundað tónlistarnám innan veggja skólans á skólatíma. Einnig þarf markmisst að draga úr kostaðarþáttöku foreldra m.a með skipulagsbreytingum sem stuðla að nýsköpun í tónlistarkennslu draga úr stjórnunarkostnaði í kerfinu þannig að sem mest af því fjármagni sem veitt er til málaflokksins nýtist beint til kennslu barna. 

Stjórnunarkostnaður tónlistarkóla er mjög misjafn eins og staðan er í dag eða frá 8.6% og upp í 20.1%, til viðmiðunar er meðal stjórnunarkostnaður í grunnskólum um 7%. Það er því til mikils að vinna að skapa öfluga skóla og minnka þannig það hlutfall sem fer í stjórnun og auka fjármagn sem fer beint til kennslu barna og ungmenna í borginni.  Mikilvægt er að leggja áherslu á því að styðja skóla til að auka fjölbreytni námstilboða, kennsluhátta og sköpun í sínu starfi. Þar sem um mjög viðamikla stefnu er að ræða vil ég víkja sérstaklega að tveimur atriðum í minni ræðu. Það þýðir ekki að allt sem hér hefur verið farið yfir ágætlega í öðrum ræðum er allt mjög mikilvægt Ég vil nú aðeins víkja máli mínu að starfssemi skólahljómsveita borgarinnar. 

Markmiðið með skólahljómsveitum er að bjóða vandað, ódýrt og aðgengilegt tónlistarnám um alla borg. Þetta hefur tekist. Nú þurfum við að leggja áherslu á að fjölga plássum í skólahljómsveitum og fjölga þannig börnum sem geta stundað þar tónlistarnám. Auk þess að skoða hvort fjölga megi í sveitunum er komin tími til að athuga hvort og hvenær tímabært sé að stofna fimmtu skólahljómsveitina í borginni. Auk þess er brýnt að ráðast í nauðsynlegar úrbætur á aðstöðu skólahljómsveitanna og vinna að úrbótum á aðstöðu og húsnæði, bæði til skemmri og lengri tíma. Við þá vinnu má að nýta úttekt sem gerð var á húsnæði og aðstöðu skólahljómsveita á vegum sérstaks húsnæðishóps sem skilaði ítarlegri skýrslu um málið. Mikivægt er að muna ávallt eftir starfssemi skólahljómsveita þegar byggja á nýja skóla eða gera viðbyggingar eða endurbætur á núverandi skólahúsnæði. Það hefur verið viðloðandi að skólahljómsveitirnar “gleymist” eða mæti afgangi við nýtingu skólahúsnæðis, þessu þurfum við að breyta. Auk þess er tímabært að skoða útvíkkun á hlutverki skólahljómsveita og stofna innan þeirra sérstaka hverfiskóra. Hægt væri að byrja með slíkt verkefni í 1-2 hverfum í tilraunaskyni til að sjá hvernig reynist. 

Að lokum vil ég nefna þau tækifæri sem felast í tækni og nýsköpun á sviði tónlistarkennslu. Ljóst er að tæknibyltingin er lögnu hafin og mikilvægt að virkja hana í tónlistarkennslu sem og öllu öðru skólastarfi. Tækninotkun getur ekki bara stutt við núverandi fyrirkomulag kennslu heldur einnig leitt til nýsköpunar og nýrra kennsluaðferða sem aukið geta aðgang barna að tónlistarkennslu. Samhliðla því er mikilvægt að stuða að aukinni fagþekkingu tónlistarkennara og bjóða upp á símenntun á þessu sviði. Mikilvægt er að skoða hvort hægt sé að kaupa aðgang að kennsluöppum í tónlist fyrir reykvísk börn og gera fleiri tilraunir á því sviði. Einnig má skoða lausnir á sviði fjarkennslu, nýtingu á fyrirfram uppteknu efni og “flipped classroom” aðferðum til að virkja nemendur til frekari þátttöku.

Stefnan sem við ræðum nú er í senn framsýn, raunsæ en jafnframt metnaðarfull. Ég vil ítreka að samstarfið í stýrihópnum var farsælt og vil ég þakka borgarfulltúum Eyþóri Laxdal Arnalds og Alexöndru Briem fyrir gott samstarf. Einnig vil ég þakka Sigfríði Björnsdóttur sérstaklega fyrir sína miklu vinnu við gerð stefnunnar. Mikilvægt er að muna að nú þegar er unnið metnaðarfullt starf á sviði tónlistarnáms barna um alla borg og hefur hróður íslensks tónlistarfólks náð vel útfyrir landsteinanna, það er engin tilviljun. Nú stendur yfir vinna við tímasetta aðgerðaráætlun til að innleiða stefnuna og er það okkar allra að tryggja að sú innleiðing verði vönduð og tryggi framgang þeirra góðu tillagna sem hér eru lagðar fram. Að lokum vill ég segja að tónlistarlíf á Íslandi stendur í fullum blóma og það er okkar að búa þannig um hnútana að í borginni okkar verði öflugt tónlistarnám í forgrunni, sem stendur öllum börnum til boða um alla borg. Þannig skilum við ómældum og ómetanlegum gæðum til samfélagsins, fyrir okkur öll.

Leave a Comment

Filed under Ræður

Fríar tíðavörur í grunn­skólum Reykja­víkur­borgar!

Skóla-og frístundaráð hefur samþykkt tillögu ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða um fríar tíðavörur í alla grunnskóla og félagsmiðstöðvar borgarinnar frá og með haustinu 2021. Ég vil byrja á að þakka fulltrúum sérstaklega fyrir þessa mikilvægu tillögu, þegar ungt fólk talar er það okkar kjörinna fulltrúa að hlusta. Ljóst er að aðgengi að tíðavörum er mikilvægt jafnréttismál. Ungmenni hafa ekki val um hvort og hvenær blæðingar hefjast og því mikilvægt að auðvelda aðgengi að tíðavörum á salernum í skólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar.

Það getur aukið verulega á kvíða og streitu ungmenna að óttast að byrja á blæðingum á skólatíma eða þurfa að fara á salernið án þess að hafa tíðavörur meðferðis. Haustið 2018 hófst tilraunaverkefni um aukna markvissa kynfræðslu í tveimur skólum borgarinnar, samhliða fræðslunni hefur verið boðið upp á fríar tíðavörur á salernum skólans. Reynslan af verkefninu hefur verið afar jákvæð og þykir þeim nemendum sem hafa blæðingar öryggi felast í því að geta gengið að tíðavörunum vísum ef á þarf að halda.

Aðgengi að tíðavörum er auk þess mikilvægt heilsufarsmál, og staðan því miður þannig í heiminum í dag að aðgengi að slíkum vörum er víða ábótavant sem ógnar lífi og heilsu fólks víða um heim. Nú þegar hafa stjórnvöld lækkað virðisaukaskatt á tíðavörum og þannig viðurkennt að um nauðsynjavörur er að ræða fyrir um helming mannkyns og má þannig líkja við kaup á salernispappir, handþurrkum og öðrum slíkum vörum í skólum. Samhliða því að tryggja aukið aðgengi að tíðavörum er mikilvægt að auka fræðslu um tíðavörur á borð við álfabikar, fjölnota bindi og tíðarnærbuxur og auka þekkingu á þeim fjölmörgu valkostum sem nú bjóðast. Auk þess er mikilvægt að allir nemendur hljóti fræðslu um líkamlegan þroska allra kynja þannig að vinna megi gegn þeirri skömm sem oft fylgir því að byrja á blæðingum. Slíkum fordómum er best eytt með upplýsingum og því er mikilvægt að skólasamfélagið vinni saman að því að draga úr skömm sem fylgir eðlilegri líkamlegri starfssemi um helmings mannkyns.

Ég fagna þessarri tillögu og óska ykkur öllum til hamingju með fríar tíðavörur í grunnskólum borgarinnar.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.

Greinin birtist fyrst á vísi

Leave a Comment

Filed under Blogg, Greinar

Þjónustugreiðslur vegna barna: Bylting í framkvæmd fjárhagsaðstoðar á Íslandi

Borgarráð samþykkti í gær breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð sem flestar eiga rætur sínar að rekja til tillagna stýrihóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Stýrihópurinn starfaði í umboði sviðsstjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á árunum 2019-2020 og var ég í forsvari fyrir hann. Hópurinn lagði mikla áherslu á að ná víðtæku samráði, við fræðimenn, starfsmenn, notendur og fulltrúa samtaka sem hafa reynslu af því að starfa með fólki í fátækt. Hópurinn lagði til ýmsar úrbætur í þjónustu Velferðarsviðs bæði á sviði úrræða, reglna, upplýsingagjafar og samráðs. Rík áhersla var á að koma á fót þjónustugreiðslum til barna þeirra sem nutu fjárhagsaðstoðar til að tryggja þeim mikilvæga grunnþjónustu óháð efnahag foreldra.

Stærstu breytingarnar sem nú hafa verið samþykktar á reglum um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar felast í því, að heimildagreiðslur sem hafa verið til vegna barna verða nú þjónustugreiðslur, sem verða að sjálfkrafa rétti en ekki heimild. Þannig er hægt að veita börnum notenda fjárhagsaðstoðar ákveðna grunnþjónustu á vegum borgarinnar. Þjónustugreiðslurnar duga fyrir allt að átta tíma dvöl á leikskóla ásamt fæðisgjaldi, dvöl á frístundaheimili fimm daga í viku ásamt síðdegishressingu og skólamat fyrir hvert barn notenda fjárhagsaðstoðar.

Greiningar velferðarsviðs sýndu að fyrirkomulagið sem hefur verið við lýði varðandi heimildagreiðslur vegna barna, hamlaði notendum að sækja rétt sinn, þar sem fyrst þurfti að leggja út fyrir kostnaði og fá síðan hluta hans endurgreiddan. Fyrstu sex mánuði ársins 2019 nýttu einungis 41% foreldra á fjárhagsaðstoð heimildagreiðslur vegna barna. Með nýju fyrirkomulagi verður hægt að tryggja öllum notendum þjónustugreiðslur með skilvirkum hætti og börnum þeirra mikilvæga grunnþjónustu. Hér er um að ræða algjörlega nýja nálgun í framkvæmd fjárhagsaðstoðar hér á landi, barnmiðaða nálgun, þar sem litið er á sjálfstæðan rétt barna til þjónustu.

Þjónustugreiðslur vegna barna er bylting í framkvæmd fjárhagsaðstoðar hér á landi þar sem unnið er með hagsmuni og velferð barna að leiðarljósi. Þessarri mikilvægu breytingu ber að fagna enda mikilvægt skref í átt að barnvænna og betra samfélagi.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna

Greinin birtist fyrst á vísi

Leave a Comment

Filed under Greinar

Til hamingju með Ráð­gjafar­stofu inn­flytj­enda

Það er mikið fagnaðarefni að loksins sé Ráðgjafarstofa innflytjenda orðin að veruleika. Hávært ákall hefur verið meðal þeirra sem sinna margskonar þjónustu við innflytjendur um að sárlega hafi vantað samræmda og aðgengilega þjónustu á einum stað. Vinstri græn hafa tekið undir þetta ákall og haft það á stefnu sinni að boðið sé upp á heildstæða þjónustu sem veitt er með mannúð að leiðarljósi.

Ráðgjafarstofa innflytjenda er skýrt dæmi um mál þar sem markviss samvinna ríkis og sveitarfélaga ásamt grasrótarsamtökum og fagfólki í málaflokknum skilar árangri. Vorið 2018 var fyrsta heildstæða stefnan í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd samþykkt í borgarstjórn. Sú stefna, sem unnin var undir forystu Vinstri grænna í borginni, fól í sér fjölmargar aðgerðir sem krefjast aukins samstarfs ríkis og sveitarfélaga. Þar var lögð áhersla á að opnuð yrði upplýsingamiðstöð fyrir innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfar þessa ákalls samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu Vinstri grænna um að sett verði á fót Ráðgjafarstofa innflytjenda sem veitir sértæka ráðgjöf á einum stað. Nú hefur þessi mikilvæga ákvörðun loksins komið til framvæmda og því ber að fagna.

Það er mikilvægt að hafa ávallt í huga að þeir sem setjast hér að koma úr öllum áttum og hafa margvíslegar ástæður fyrir að setjast að á íslandi. Því getum við ekki litið á innflytjendur sem einsleitan hóp heldur verðum við að skipuleggja alla þjónustu með fjölbreytileika í huga. Ljóst er að ennþá er full þörf fyrir sértæka þjónustu fyrir innflytjendur. Margar augljósar staðreyndir, svo sem mismunum á vinnumarkaði og víðar, tala sínu máli. Þeir sem nýlega hafa sest hér að vita ekki hver réttindi þeirra eru, hvaða þjónusta stendur til boða eða hvert hægt er að sækja hana.

Saman getum við skapað samfélag án aðgreiningar þar sem öll fá þjónustu við hæfi. Með heildstæðri þjónustu og betri upplýsingagjöf má auðvelda nýjum íbúum sín fyrstu skref og er það öllum til heilla. Til hamingju með Ráðgjafarstofu innflytjenda.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.

Greinin birtist fyrst á vísi

Leave a Comment

Filed under Greinar

Hús­næði fyrst – far­sæl stefna til fram­tíðar!

Allt fram til ársins 2014 var lítil framþróun í málaflokki heimilislausra í Reykjavík. Borgin rak gistiskýli fyrir heimilislausa karla í gamla farsóttarhúsinu á Þingholtsstræti auk þess sem kaffistofa Samhjálpar var opin yfir daginn. Hafði þetta fyrirkomulag verið nánast óbreytt um áratuga skeið. Fyrsta heildstæða stefnan í málefnum heimilislausra hjá Reykjavíkurborg var gerð árið 2008 og gilti til 2012. Næsta stefna tók gildi 2014 og gilti til ársins 2018. Velferðarráð bókaði á vormánuðum 2016 að skaðaminnkandi nálgun skyldi höfð að leiðarljósi í úrræðum velferðarsviðs fyrir heimilislausa. Á sama fundi var ákveðið að setja af stað fyrsta tilraunaverkefnið hér á landi um „Húsnæði fyrst“ í þjónustu við heimilislausa með miklar þjónustuþarfir. Fulltrúar Vinstri grænna hafa staðið með innleiðingu skaðaminnkunar og „Húsnæði fyrst“ allt frá upphafi enda á enginn að vera heimilislaus í Reykjavík.

Ný stefna Reykjavíkurborgar í málefnum heimilslausra með miklar þjónustuþarfir var samþykkt árið 2019. Helstu breytingar sem fólust í þeirri stefnu voru að innleiða formlega hugmyndafræði um skaðaminnkun og „Húsnæði fyrs“ í stefnu borgarinnar en auk þess var sérstök áhersla lögð á að skoða og taka tillit til aðstæðna heimilslausra kvenna sérstaklega, en rannsóknir sýna að vandi þeirra er oft meira falinn úti í samfélaginu. Skaðaminnkandi nálgun byggir í grunninn á nálgun mannúðar og skynsemi og því að viðurkenna réttindi fólks sem notar vímuefni og veita þeim aðstoð til að draga úr þeim skaða sem af neyslunni hlýst, bæði fyrir neytendur og samfélagið í heild. Ekki er gerð krafa um að hætta neyslu til að eiga rétt á aðstoð og stuðningi.

Hugmyndafræði um „Húsnæði fyrst“ gengur út frá því að húsnæði sé grunnþörf og teljist til mannréttinda. Það að einstaklingar hafi öruggt húsaskjól er forsenda þess að hægt sé að vinna með aðra þætti sem einstaklingar með fjölþættan vanda glíma við. Einstaklingar sem hafa átt sögu um erfiðleika við að halda heimili þurfa til þess markvissan stuðning. Húsnæðinu þarf því ávallt að fylgja þjónusta. Áhersla er lögð á auðvelt aðgengi og byggir hugmyndafræðin á gildum skaðaminnkunar. „Húsnæðið fyrst“ er gagnreynd aðferð sem hefur sannað gildi sitt víða um heim. Rannsóknir sýna að „Húsnæði fyrst“ dregur úr bráðakomum á sjúkrahús og innlögnum. Minnkar notkun á neyðarathvörfum, dregur úr tíðni vimuefnameðferða. Fækkar fangelsisdómum og dregur úr vistun í fangaklefum vegna skorts á húsnæði. Hugmyndafræðin eykur lífsgæði þjónustuþega, aðtandenda þeirra og er farsæl fyrir samfélagið allt.

Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu fyrir heimilislausa með miklar þjónustuþarfir á síðustu árum. Margt hefur verið gert, fest hafa verið kaup á 20 smáhúsum, nýtt heimili fyrir tvígreindar konur hefur verið opnað, nýtt gistiskýli fyrir yngri heimilislausa karla hefur verið opnað og íbúðum í sjálfstæðri búsetu með stuðningi hefur fjölgað jafnt og þétt. Auk þess er verið að ræða við ríkið um rekstur neyslurýmis og sérhæfðra hjúkrunarrýma fyrir eldri heimilislausa einstaklinga. Stefna borgarinnar er skýr og gengur út að þjónusta einstaklinginn þar sem hann er staddur á hans forsendum og viðurkenna rétt allra til heimilis óháð aðstæðum. Til þess að ná því markmiði starfar meðal annars öflugt Vettvangs- og ráðgjafarteymi sem þjónustar heimilislausa einstaklinga þar sem þeir eru staddir á þeirra forsendum en slíkt er nauðsynlegt til að langvarandi árangur náist í málaflokknum.

Við skulum öll hafa kjark og þor til að standa með rétti allra til húsnæðis. Öll eigum við rétt á öruggum stað til að búa á. Með mannúð og fordómaleysi samfélagsins að leiðarljósi getum við áorkað miklu í sameiningu. Ég vil að lokum hvetja ykkur öll til að hjálpa okkur í baráttunni fyrir fjölgun úrræða í málaflokknum, hún er vissulega upp á líf og dauða.

Leave a Comment

Filed under Greinar

Tillaga um viðræður við Heilbrigðisráðuneyti um rekstur neyslurýmis samþykkt í borgarstjórn.

Ræða í borgarstjórn:

Við ræðum hér tillögu fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og okkar Vinstri grænna um að hefja samtal við Heilbrigðisráðuneytið um sameiginlegan rekstur á neyslurými í Reykjavík. Þetta mál sem ég hef lengi barist fyrir á sér þó nokkuð langan aðdraganda. Fram til ársins 2014 var lítil framþróun í málaflokki heimilislausra í Reykjavík. Borgin rak gistiskýli fyrir heimilislausa í gamla farsóttarhúsinu á Þingholtsstræti auk þess sem kaffistofa Samhjálpar var opin yfir daginn. Hafði þetta fyrirkomulag verið nánast óbreytt um áratuga skeið. Fyrsta heildstæða stefnan í málefnum heimilislausra leit síðan dagsins ljós í febrúar 2014 og gilti sú stefna til ársins 2018. Ný stefna var svo samþykkt í borgarstjórn nú í júní 2019. Í henni kemur m.a. fram að skoða þurfi aðstæður kvenna sérstaklega, en rannsóknir sýna að vandi þeirra er oft meira falinn úti í samfélaginu. Ég er stolt af því að hafa komið að gerð stefnunnar og aðgerðaráætlunarinnar, hún er bæði framsækin og róttæk og snýr fyrst og fremst að því að mæta einstaklingum þar sem þeir eru staddir, á þeirra forsendum, sem er einmitt í anda stefnu okkar Vinstri grænna.

Jón Gnarr þáverandi borgarstjóri viðraði sínum tíma hugmyndir sínar um að setja á fót neyslurými fyrir einstaklinga sem nota vímuefni um æð. Mörgum þótti hugmyndin ansi fjarstæðukennd og ekki hægt að segja að það hafi verið víðtæk sátt um hana, hvorki innan stjórnmálanna né meðal fagfólks í félags- og heilbrigiðmálum þegar hún var lögð fram. Þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði stafshóp sem hafði það hlutverk að skila tillögum um skaðaminnkandi nálgun í þjónustu og lagalegu umhverfi vímuefnaneytenda. Hópurinn skilaði skýrslu árið 2016 þar sem m.a. var lagt til að sett yrði á fót neyslurými fyrir þá sem nota vímuefni um æð. Breytingar létu á sér standa en nú hrósum við því happi að núvernadi heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir hafði kjark og þor til að standa með skaðaminnkandi nálgun í þjónustu við þá sem nota vímuefni um æð. Lögunum var svo loksins breytt í maí 2020 þar sem heimilt er að setja á fót neyslurými að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Eftir stendur að afnema refsingar við vörslu neysluskammta og hefur það mál verið boðað inn á því þingi sem nú er að hefjast.

En hvað er neyslurými og út á hvað gengur þessi skaðaminnkandi nálgun?

Skaðaminnkandi nálgun byggir í grunnin á nálgun mannúðar og skynsemi og því  að viðurkenna fólk sem notar vímuefni og veita þeim aðstoð til að draga úr þeim skaða sem af neyslunni hlýst, bæði fyrir neytendur og fyrir samfélagið í heild. Ekki er gerð krafa um að hætta neyslu til að eiga rétt á aðstoð og stuðningi.

Neyslurými eru lagalega samþykkt svæði fyrir einstaklinga til að neyta ólöglegra vímuefna og er markmið þeirra ávallt að draga úr þeim skaða sem hlýst af vímuefnaneyslu. Opnun neyslurýmis byggir á þeirri hugmynd að ef að einstaklingar sem nota vímuefni um æð fengju ákveðinn stað þar sem þeir gætu sprautað sig á öruggan hátt myndi það draga úr ýmiskonar skaðlegum hliðarverkunum því tengdu. Neyslurými hafa verið til frá því á áttunda áratugnum, aðallega í Vestur-Evrópu, en útbreiðsla þeirra hefur verið nokkur undanfarin ár og neyslurými hafa til að mynda verið opnuð í Ástralíu og Kanada. Fyrsta neyslurýmið var opnað árið 1986 í Berne í Sviss. Frá þeim tíma hafa mörg önnur lönd fylgt í kjölfarið, s.s Holland, Þýskaland, Noregur og Danmörk. Ég hef sjálf kynnt mér starfssemi neyslurýma og skoðaði m.a. slíkt í Amsterdam ásamt fulltrúum í Mannrétttindaráði árið 2013 og sannfærðist í þeirri ferð að hér væri um gríðarlega mikilvæga þjónustu að ræða fyrir einn jaðarsettasta hóp samfélagsins.

Ég tek að lokum undir mat Velferðarsviðs um að það sé jákvætt skref að heimila með lögum rekstur neyslurýmis. Sú mannúð sem felst í skaðaminnkandi nálgun getur skilið milli lífs og dauða fyrir þá sem þurfa á svo nauðsynlega á þjónustunni að halda. Mikilvægt er að veita öfluga heilbrigðisþjónustu í tengslum við slíkan rekstur en einnig fjölbreytta félagslega aðstoð og er Reykjavíkurborg reiðubúin í það samtal. Við skulum öll hafa kjark og þor til að standa með þeim sem þurfa öruggan stað til að neyta vímuefna um æð með mannúð og fordómaleysi að leiðarljósi. Ég hvet ykkur kæru borgarfulltrúar til að samþykkja tillöguna, hún er vissulega upp á líf og dauða.

Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.

Leave a Comment

Filed under Ræður

Skólaheilsugæsla mikilvæg þjónusta við grunnskólabörn

Skólaheilsugæslu er sinnt af Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Reglulega kemur fram umræða um mikilvægi öflugrar skólaheilsugæslu til að sinna margvíslegri heilbrigðisþjónustu við börn. Ljóst er að skólahjúkrunarfræðingar sinna margvíslegum mikilvægum verkefnum bæði innan skólanna og í nærsamfélaginu. Meðal verkefna þeirra er að sinna forvörnum og heilsuelfingu grunnskólabarna í víðum skilningi.

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum að vekja athygli Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins á stöðu skólaheilsugæslu í Reykjavík. Á fundi Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarstjórnar 2019 lögðu fulltrúar ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða fram tillögu þess efnis að gerðar verði ráðstafanir til að auka viðveru hjúkrunarfræðinga í grunnskólum borgarinnar. Í kjölfar tillögunnar var óskað eftir upplýsingum frá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins um stöðugildi hjúkrunarfræðinga í skólum borgarinnar. Samkvæmt svörum frá heilsugæslunni eru dæmi um að fjölmargir skólar í Reykjavík uppfylli ekki viðmið Heilsugæslunnar um að 650 nemendur séu að baki hverju fullu stöðugildi skólahjúkrunarfræðings. Í gögnum frá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins eru dæmi um að ríflega þúsund nemendur séu að baki hverju stöðugildi. Ljóst er af þessum tölum að viðmiðum um nemendafjölda að baki fullu stöðugildi skólahjúkrunarfræðings er víða ábótavant. Mikilvægt er að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins nýti fyrirliggjandi gögn til úrbóta og fjölgi skólahjúkrunarfræðingum þar sem þess gerist þörf til að uppfylla viðmið um nemendafjölda. Ljóst er að skólahjúkrunarfræðingar sinna mikilvægri þjónustu við nemendur í grunnskólum en í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerð um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007 er tiltekið að þjónusta skólahjúkrunarfræðinga sé á ábyrgð heilsugæslunnar á hverjum stað.

Mikilvægt er að Heilsugæsla Höfðuborgarsvæðisins sé meðvituð um þessa stöðu og nýti fyrirliggjandi gögn til að grípa til viðeigandi aðgerða til úrbóta sem fyrst þannig að uppfylla megi viðmið um nemendafjölda. Einnig er mikilvægt að það eigi sér stað samtal milli Heilsugæslu og skólayfirvalda um verkaskiptingu og sameiginlega sýn á verkefnin framundan. Mikilvægt er, ekki síst á þessum fordæmalausu tímum, að fullnægjandi skólaheilsugæsla sé til staðar í öllum skólum borgarinnar og að jafnræði nemenda að þessarri mikilvægu þjónustu sé tryggt í hvívetna.

Leave a Comment

Filed under Greinar

Mikil­væg upp­bygging í þágu heimilis­lausra

Sameiginlegt verkefni okkar allra.

Margir hafa réttilega lýst yfir áhyggjum af stöðu heimilislausra á þessum viðsjárverðu tímum. Þeir sem eiga hvergi heima geta ekki fylgt fyrirmælum um að halda sig heima og tilheyra auk þess mörg áhættuhópum sem setja þau í viðkvæma stöðu. Ráðist hefur verið í ýmsar bráðaaðgerðir á borð við að lengja opnun neyðarskýla og auka eftirfylgd við einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Auk þess hefur verið ráðist í breytingu á þjónustu til að tryggja smitvarnir starfsmanna og gesta; t.d með leigu á viðbótarhúsnæði. Stefna borgarinnar í þjónustu við heimilislausa einstaklinga með miklar þjónustuþarfir leggur grunn að nauðsynlegri uppbyggingu í þágu heimilislausra í borginni. Stefnan er að mæta þörfum notenda hverju sinni, minnka skaðann og vinna samkvæmt hugmyndafræðinni „húsnæðið fyrst“.

Reykjavíkurborg sinnir margvíslegri þjónustu fyrir einstaklinga með miklar þjónustuþarfir og er einnig í góðu samstarfi við Frú Ragnheiði sem er skaðaminnkunarverkefni Rauða Krossins. Frá því að ný stefna var samþykkt síðastliðið haust hefur nýtt sérhæft gistiskýli fyrir karla verði opnað auk heimilis fyrir konur sem glíma við fíkn og geðrænan vanda. Íbúðum í „húsnæðið fyrst“ hefur fjölgað um 11 og fest hafa verið kaup á 20 smáhýsum sem verða víðsvegar um borgina. Aukin uppbygging hefur þegar skilað sér en biðlistar eftir sértæku húsnæði fyrir heimilislausa hafa styst um þriðjung frá sama tíma í fyrra.

Samhliða mikilli uppbyggingu og aukningu í þjónustu við þennan jaðarsettasta hóp samfélagsins er nauðsynlegt að vinna áfram gegn fordómum og viðurkenna mannréttindi einstaklinga í jaðarsettri stöðu. Einungis þannig getum við tryggt skilyrðislausan rétt til þjónustu. Skaðaminnkandi nálgun leiðir til meiri lífsgæða fyrir notendur þjónustunnar og dregur úr álagi á nærsamfélagið, stofnanir ríkis og sveitarfélaga og dregur úr kostnaði samfélagsins.

Það er gleðiefni að við sem samfélag höfum sammælst um það að aðstoða fólk með fíknvanda og veita aðstoð og þjónustu í stað þess að refsa. Við þurfum að halda áfram að byggja upp þjónustu í öllum hverfum í anda skaðaminnkandi nálgunar og „húsnæðið fyrst“-hugmyndafræðinnar. Þannig getum við skipað okkur í fremstu röð hvað varðar mannréttindi allra, líka þeirra sem oftast verða fyrir fordómum og eru jaðarsettir í samfélaginu. Það er mín einlæga ósk að við sem samfélag vinnum sameiginlega að því að sú verði raunin.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem sinna þessarri mikilvægu velferðarþjónustu á mjög krefjandi tímum.

Greinin birtist fyrst á Vísi

 

Leave a Comment

Filed under Greinar

Mikil uppbygging í þágu fatlaðs fólks í Reykjavík

Húsnæðismál eru brýn velferðarmál. Mikið hefur áunnist í réttindabaráttu fatlaðs fólks síðustu ár. En ljóst var strax árið 2011, þegar sveitarfélög tóku yfir málaflokkinn,  að þörf var á gríðarlegri uppbyggingu í búsetuúrræðum fatlaðs fólks, enda hafði málaflokkurinn verði vanræktur um langt skeið.

Þegar ég tók tímabundið við formennsku í velferðarráði í upphafi árs 2014 lagði ég áherslu á að framkvæma fyrstu heildstæðu þarfagreininguna á húsnæðisþörf fatlaðs fólks í Reykjavík. Árið 2016 var síðan samþykkt ákveðin neyðaruppbyggingaráætlun til að bregðast við þeim bráðavanda sem uppi varð. Sú áætlun gilti til 2018 og komst að fullu til framkvæmda. Árið 2017 var síðan samþykkt samhljóma uppbyggingaráætlun í húsnæðismálum fatlaðra sem gildir til ársins 2030.

Ljóst er að vandinn var mikill og uppsafnaður, en þó að verkefnin séu ærin og umfangsmikil dugar ekki að leggja árar í bát. Vinstri græn í borginni höfðu kjark til að setja búsetumál fatlaðra á oddinn og tryggja fullt fjármagn til að fylgja eftir metnaðarfullri uppbyggingaráætlun í málaflokknum allt til ársins 2030. Á árunum 2016-2019  hefur sértækum búsetuúrræðum fjölgað um 71 í Reykjavík. Á rúmlega tveimur árum bíða 48 færri eftir sértæku húsnæði auk þess sem 38 einstaklingar hafa fengið milliflutning í nýtt og betra húsnæði. Meðal annars samhliða innleiðingu áætlunar um niðurlagningu herbergjasambýla. Til stendur að fjölga íbúðum fyrir fatlað fólk í Reykjavík um allt að 183 til ársins 2030.

Við Vinstri græn munum áfram vinna að því að tryggja öllum viðeigandi húsnæði óháð fötlun eða félagslegri stöðu. Samhliða mikilli uppbyggingu í húsnæðismálum fatlaðs fólks hefur orðið mikil breyting á allri þjónustu við fatlað fólk, m.a vegna nýrra laga. Unnið er að því að auka val fatlaðs fólks þegar kemur að búsetu og þjónustu og tryggja fólki þjónustu óháð búsetuformi. Þjónusta út frá kjarna, færanleg búsetuteymi, NPA og öflug stuðningsþjónusta eru nú í mikilli framþróun til að mæta kröfum nútímans um að allir geti lifað með reisn í okkar samfélagi.

Greinin birtist fyrst á vísi.is

 

Leave a Comment

Filed under Greinar