Category Archives: Ræður

Ræður fluttar við ýmis tækifæri

Tillaga um viðræður við Heilbrigðisráðuneyti um rekstur neyslurýmis samþykkt í borgarstjórn.

Ræða í borgarstjórn:

Við ræðum hér tillögu fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og okkar Vinstri grænna um að hefja samtal við Heilbrigðisráðuneytið um sameiginlegan rekstur á neyslurými í Reykjavík. Þetta mál sem ég hef lengi barist fyrir á sér þó nokkuð langan aðdraganda. Fram til ársins 2014 var lítil framþróun í málaflokki heimilislausra í Reykjavík. Borgin rak gistiskýli fyrir heimilislausa í gamla farsóttarhúsinu á Þingholtsstræti auk þess sem kaffistofa Samhjálpar var opin yfir daginn. Hafði þetta fyrirkomulag verið nánast óbreytt um áratuga skeið. Fyrsta heildstæða stefnan í málefnum heimilislausra leit síðan dagsins ljós í febrúar 2014 og gilti sú stefna til ársins 2018. Ný stefna var svo samþykkt í borgarstjórn nú í júní 2019. Í henni kemur m.a. fram að skoða þurfi aðstæður kvenna sérstaklega, en rannsóknir sýna að vandi þeirra er oft meira falinn úti í samfélaginu. Ég er stolt af því að hafa komið að gerð stefnunnar og aðgerðaráætlunarinnar, hún er bæði framsækin og róttæk og snýr fyrst og fremst að því að mæta einstaklingum þar sem þeir eru staddir, á þeirra forsendum, sem er einmitt í anda stefnu okkar Vinstri grænna.

Jón Gnarr þáverandi borgarstjóri viðraði sínum tíma hugmyndir sínar um að setja á fót neyslurými fyrir einstaklinga sem nota vímuefni um æð. Mörgum þótti hugmyndin ansi fjarstæðukennd og ekki hægt að segja að það hafi verið víðtæk sátt um hana, hvorki innan stjórnmálanna né meðal fagfólks í félags- og heilbrigiðmálum þegar hún var lögð fram. Þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði stafshóp sem hafði það hlutverk að skila tillögum um skaðaminnkandi nálgun í þjónustu og lagalegu umhverfi vímuefnaneytenda. Hópurinn skilaði skýrslu árið 2016 þar sem m.a. var lagt til að sett yrði á fót neyslurými fyrir þá sem nota vímuefni um æð. Breytingar létu á sér standa en nú hrósum við því happi að núvernadi heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir hafði kjark og þor til að standa með skaðaminnkandi nálgun í þjónustu við þá sem nota vímuefni um æð. Lögunum var svo loksins breytt í maí 2020 þar sem heimilt er að setja á fót neyslurými að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Eftir stendur að afnema refsingar við vörslu neysluskammta og hefur það mál verið boðað inn á því þingi sem nú er að hefjast.

En hvað er neyslurými og út á hvað gengur þessi skaðaminnkandi nálgun?

Skaðaminnkandi nálgun byggir í grunnin á nálgun mannúðar og skynsemi og því  að viðurkenna fólk sem notar vímuefni og veita þeim aðstoð til að draga úr þeim skaða sem af neyslunni hlýst, bæði fyrir neytendur og fyrir samfélagið í heild. Ekki er gerð krafa um að hætta neyslu til að eiga rétt á aðstoð og stuðningi.

Neyslurými eru lagalega samþykkt svæði fyrir einstaklinga til að neyta ólöglegra vímuefna og er markmið þeirra ávallt að draga úr þeim skaða sem hlýst af vímuefnaneyslu. Opnun neyslurýmis byggir á þeirri hugmynd að ef að einstaklingar sem nota vímuefni um æð fengju ákveðinn stað þar sem þeir gætu sprautað sig á öruggan hátt myndi það draga úr ýmiskonar skaðlegum hliðarverkunum því tengdu. Neyslurými hafa verið til frá því á áttunda áratugnum, aðallega í Vestur-Evrópu, en útbreiðsla þeirra hefur verið nokkur undanfarin ár og neyslurými hafa til að mynda verið opnuð í Ástralíu og Kanada. Fyrsta neyslurýmið var opnað árið 1986 í Berne í Sviss. Frá þeim tíma hafa mörg önnur lönd fylgt í kjölfarið, s.s Holland, Þýskaland, Noregur og Danmörk. Ég hef sjálf kynnt mér starfssemi neyslurýma og skoðaði m.a. slíkt í Amsterdam ásamt fulltrúum í Mannrétttindaráði árið 2013 og sannfærðist í þeirri ferð að hér væri um gríðarlega mikilvæga þjónustu að ræða fyrir einn jaðarsettasta hóp samfélagsins.

Ég tek að lokum undir mat Velferðarsviðs um að það sé jákvætt skref að heimila með lögum rekstur neyslurýmis. Sú mannúð sem felst í skaðaminnkandi nálgun getur skilið milli lífs og dauða fyrir þá sem þurfa á svo nauðsynlega á þjónustunni að halda. Mikilvægt er að veita öfluga heilbrigðisþjónustu í tengslum við slíkan rekstur en einnig fjölbreytta félagslega aðstoð og er Reykjavíkurborg reiðubúin í það samtal. Við skulum öll hafa kjark og þor til að standa með þeim sem þurfa öruggan stað til að neyta vímuefna um æð með mannúð og fordómaleysi að leiðarljósi. Ég hvet ykkur kæru borgarfulltrúar til að samþykkja tillöguna, hún er vissulega upp á líf og dauða.

Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.

Leave a Comment

Filed under Ræður

Ný Innflytjendastefna samþykkt- Ræða flutt í Borgarstjórn.

Kæru borgarfulltrúar, borgarstjóri og kæru áheyrendur.

Við búum í fjölmenningarlegri borg sem hefur tekið hefur þátt í netverkinu Intercultural Cities frá árinu 2014. Það er því löngu orðið tímabært að Reykjavíkurborg setji sér heilstæða stefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umfjöllun um alþjóðlega vernd. Við alla umfjöllun hér framundan ber að hafa þann fyrirvara að ekki er hægt að líta á innflytjendur sem einsleitan hóp. Þarfir innflytjenda eru jafn fjölbreyttar og annarra borgarbúa. Þó þurfum við ávallt að hafa í huga þær hindranir sem innflytjendur mæta í þjónustu borgarinnar eða til þess að þeir geti notið sín í starfi og er stefna og þær aðgerðir sem henni fylgja til þess fallnar að útrýma slíkum hindrunum.

Stýrihópur var skipaður í september 2016 og skilaði drögum að stefnu og aðgerðaráætlun í september 2017. Í hópnum áttu allir flokkar sem sæti eiga í borgarstjórn fulltrúa ásamt áheyrnarfulltrúa fjölmenningarráðs. Stefnan var sett í umsagnarferli s.l. sumar og framhaldi var brugðist við þeim athugasemdum sem bárust. Þann 19. desember s.l. fór fram fyrri umræða um stefnuna ásamt aðgerðaráætlun í borgarstjórn.

Eftir fyrri umræðu í borgarstjórn var óskað eftir frekari umsögnum frá þeim sviðum og skrifstofum borgarinnar sem ætlað er að framfylgja aðgerðum tengdum stefnumótuninni, þar sem hver aðgerð var skoðuð og rýnd frekar. Sjö svið og skrifstofur sendu svör við þeim spurningum og í framhald að því voru aðgerðir stefnunnar metnar út frá þeim svörum sem bárust. Auk þess var stefnumótun einstakra sviða tengd innflytjendamálum skoðuð og samlegðaráhrif við stefnur einstakra sviða og málaflokka skoðuð. Ljóst er eftir þá greiningu að mikið af því sem tiltekið er í aðgerðaráætlun með stefnu í málefnum innflytjenda, hælisleitenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd má finna í annarri stefnumótun borgarinnar sem þegar hefur verið samþykkt í ýmsum málaflokkum.

Eitt að þeim atriðum sem margir sérfræðingar nefndu sem stýrihópurinn ræddi við var að það vantaði heildstæða yfirsýn yfr málaflokkinn á einum stað í borgarkerfinu. Samþykkt þeirrar stefnu og þeirrar aðgerðaráætlunar sem hér liggur fyrir er til þess fallinn að bregðast við þeim ábendingum og halda miðlægt utan um þau fjölmörgu verkefni sem unnin eru víðsvegar um borgina í þessum mikilvæga málaflokki. Ég tel að hér sé um mikilvægt skref en ein heildarstefnumótun ásamt aðgerðaráætlun veitir Reykjavíkurborg sem stjórnvaldi, atvinnurekenda og miðstöð þjónustu,  ákveðna yfirsýn yfir málaflokkinn á einum stað. Ég tel einnig að stofnun þverfaglegs teymis sem vinnur þvert á svið sé til þess fallið að bæta þjónustuna og gera hana skilvirkari.

Aðgerðaráætlunin með stefnunni er gerð til fjögurra ára í senn og er gert ráð fyrir að hún verði leiðarljós við þá vinnu sem Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir við að þjónusta hóp innflytjenda og flóttafólks. Í þeirri aðgerðaráætlun sem nú liggur fyrir er ljóst að framvinda verkefna fer eftir því fjármagni sem nú er til staðar innan sviða og skrifstofa Reykjavíkurborgar og mun fjármagn verða tryggt við afgreiðslu fjárhagsáæltunar hvers árs eins og venja er. Ef flýta á framgangi verkefna gæti það í einstaka tilvikum kallað á aukafjárveitingar.

Mannréttindaskrifstofa hefur nú þegar yfirumsjón með eftirliti með aðgerðaráætlun í jafnréttismálum og er það skilningur minn að umsjón með aðgerðaráætlun í innflyltjendamálum muni fara fram með svipuðum hætti hvað varðar eftirfylgd með þeirri áætlun.

Það er ákveðin sýn sem felst í því að líta á innflytjendur sem auðlind fyrir samfélagið. Sem fjölmenningarborg á Reykjavíkurborg að stuðla að því að allir sem hér setjast að og búa upplifi sig sem Reykvíkinga óháð þjóðerni og uppruna, þá höfum við náð árangri í að skapa borg fyrir alla.

Ég vil að lokum þakka öllum í stýrihópnum fyrir þeirra framlag sem og starfsmanni hópsins auk þeirra fjölmörgu aðila sem hittu hópinn, miðluðu af reynslu sinni og veittu umsangir. Auk þess ber að þakka sérstaklega þá vinnu sem innt hefur verið af hendi hjá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar vegna stefnumótunarinnar.

 

 

Leave a Comment

Filed under Ræður

Femínismi, friður og baráttan gegn feðraveldinu.

Ræða flutt á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og janfrétti í Tjarnarbíó 08.03.2018.

Kæru konur!

Konur hafa verið leiðandi í baráttunni fyrir friði og jafnrétti, bæði hér á landi sem og erlendis. Konur bylta samfélögum, án stríðsátaka og hernaðar. Kvennasamstaðan hefur áorkað mörgu og við skulum í dag heiðra minningu þeirra fjölmörgu kvenna sem ruddu brautina fyrir okkur hinar. Við þurfum líka að muna beina sjónum okkar að þeirri margþættu mismunum sem konur verða fyrir, konur af erlendum uppruna, hinsegin konur og fatlaðar konur heyja margþátta baraáttu gegn þeirri margþættu mismunum sem þær verða fyrir á hverjum degi.

Baráttan fyrir friði er líka barátta gegn heimsmynd feðraveldisins. Ríkjandi orðræða hins stríðsóða feðraveldis stimplar hvers kyns andóf kvenna gegn stríði sem einhverskonar væl þeirra þar sem þær láta tilfinningar sínar bera sig ofurliði. Kúgaðir hópar samfélagsins þar á meðal konur þekkja vel þá aðferð þegar lítið er gert úr þeim í opinberri umræðu til þess að karlar geti viðhaldið völdum sínum og tryggt yfirráð sín í samfélaginu.

Kæru konur!

Í þessu samhengi er mikilvægt að nefna kenningar norsku fræðikonunnar Berit Ås um drottnunaraðferðirnar fimm. Konur eru gerðar ósýnilegar í opinberri umræðu, þetta á við konur innan friðarhreyfingarinnar sem og annarsstaðar í samfélaginu þar sem konur berjast gegn kúgun. Konur mæta framkomu sem ýtir undir það að þær upplifi skoðanir sínar sem minna virði en skoðanir karla. Konur eru gerðar hlægilegar, skoðanir þeirra eru taldar byggja á tilfinningasemi eða kynbundnum líffræðilegum þáttum. Afleiðingar slíkra aðferða er að konur efast sífellt um réttmæti skoðanna sinna og konur þora síður að stíga fram sem málsvarar fyrir samfélagslegum málefnum á borð við friðarstefnu. Upplýsingum er leynt frá konum, karlar skiptast á mikilvægum upplýsingum oft í óformlegum hópum sem konur hafa ekki aðgang að. Konum er refsað fyrir að hafa vitlausa forgangsröðun í lífinu.

Konur sem láta samfélagsleg mál sig varða eru sérstaklega berskjaldaðar. Má nefna opinberar aftökur samfélagsmiðla á femínistum í þessu samhengi. Við konur eigum einfaldlega bara að forgagnsraða rétt, hugsa um börnin og skúra eldhúsgólfið. Konur eiga bara að kunna að skammast sín og fá sektarkennd fyrir að beita sér í opinberri umræðu. Við verðum að passa það að það eru ekki einungis karlrembur sem beita þessum aðferðum til að viðhalda feðraveldinu. Við gerum það örugglega margar hverjar einhvern tímann, sennilega ómeðvitað. Við þurfum sem konur sem berjast gegn hvers kyns kúgun að standa saman og benda á þegar aðferðum sem þessum er beitt. Við verðum að benda á ósanngrinina og nýta kvennasamstöðuna, þannig náum við árangri.

Kæru konur!

Á meðan að við erum hér á þessum fundi eru ríflega 32 miljónir kvenna og stúlkna á flótta eða hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna stríðsátaka víðs vegar í heiminum. Konur og stúlkur á flótta eru í sérstaklega varnarlausri stöðu og eru í mikilli hættu á að verða fyrir hvers kyns ofbeldi, bæði andlegu, líkamlegu og kynferðislegu. Konur á flótta hafa takmarkaðan aðgang að getnaðarvörnum, fæðingarhjálp er nánast engin, mæðradauði er mjög algengur og ungbarnavernd og önnur heilbrigðisjþjónusta er af mjög skornum skammti.

En þessar konur er ekki einungis tölur á blaði, þær eiga allar sínar mikilvægu sögu að segja. Staðreyndin er sú að það eru konur sem byggja upp samfélög í kjölfar stríða og eru lykilgerendur í því að viðhalda friði og öryggi á áður stríðshrjáðum svæðum. Reynslan hefur sýnt að farsælasta þróunaraðstoðin felst í því að styrkja fjölbreyttan atvinnurekstur kvenna og aðstoða þær við uppbyggingu samfélagsins.

Saman getum við konur barist gegn kúgun og misrétti. Við þurfum ávallt að muna að baráttan er alþjóðleg og hún nær til margþættrar mismununar.

Kæru konur, til hamingju með daginn.

 

 

Leave a Comment

Filed under Ræður

Afhending styrkja Velferðarráðs

Ræða flutt við afhendingu styrkja Velferðarráðs

Kæru gestir!

Velferðarráð Reykjavíkurborgar úthlutar ár hvert styrkjum til frjálsra félagasamtaka og einstaklinga. Markmið styrkja ráðsins er að styrkja við sjálfsprottið starf og starfssemi frjálsra félagasamtaka á sviði velferðarmála.

Þau verkefni sem hljóta styrki eru mjög fjölbreytt en öll eiga það sameiginlegt að snúa að aukinni velferð borgarbúa og stuðla að fjölbreyttu mannlífi í borginni okkar. Markmið styrkveitinga velferðarráðs er meðal annars að styrkja og efla til samstarfs við félagsasamtök og einstaklinga um uppbyggilega starfssemi og þjónustu við. En meðal áherslna er að styðja við margvísleg og fjölbreytt verkefni. Við val á verkefnum er tekið mið að því hvort þau falli að áherslum velferðarráðs. Auk almennra styrkja gerir velferðarráð tillögu um þjónustusamninga til eins árs eða þriggja ára í senn. Þessir samningar skulu taka mið af lagalegum skyldum sveitarfélagsins á sviði velferðarm´la á hverjum tíma.

Vegna verkefna á árinu 2018 voru samtals 40 styrkir samþykktir. Þar af eru 28 almennir verkefnastyrkir. Fjórtán þjónustusamningar til eins árs og fimm þjónustusamingar til þriggja ára. Alls er rúmlega 100 miljónum varið í styrki til velferðarmála vegna ársins 2018 en fyrir eru tæpar 40 miljónir bundnar í fyrri samningum.

Mikið af mikilvægri velferðarþjónustu er sinnt af ýmsum grasrótarsamtökum og góðgerðarfélögum sem unnið hafa mikilvægt starf í þágu aukinnar velferðar borgarbúa, mörg hver árum saman. Slíkt ber að þakka.

Ég vil að lokum óska styrkþegum innilega til hamingju og þakka þeim fyrir að sinna mikilvægri velferðarþjónustu við borgarbúa, öllum til hagsbóta.

Til hamingju með daginn!

 

 

 

Leave a Comment

Filed under Ræður

Ræða flutt við afhendingu styrkja mannréttindaráðs

Kæru gestir!

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar úthlutar ár hvert styrkjum til frjálsra félagasamtaka og einstaklinga. Markmið styrkjana ráðsins er að styrkja við sjálfsprottið starf og starfssemi frjálsra félagasamtaka á sviði mannréttinda.

Þau verkefni sem hljóta styrki eru æði fjölbreytt en öllum er þeim ætlað að stuðla að farsælli þróun borgarsamfélagsins, jafnræði borgarbúa og fjölbreytilegu mannlífi í borginni okkar. Auk þess er það hlutverk styrkja mannréttindaráðs að styðja við hvers konar starf sem vekur athygli á eða stendur vörð um mannréttindi borgarbúa.

Á liðnu ári var skyndistyrkjum mannréttindaráðs úthlutað í fyrsta sinn. Var þeim komið á til að bregðast við umsóknum vegna verkefna sem ekki er hægt að sjá fyrir eða skipuleggja í aðdraganda almennra styrkúthlutana. Skyndistyrkir eru því mikilvæg viðbót til að efla grasrótina á sviði mannréttindamála. Þannig er hægt að bregðast hratt og vel við oft ófyrirséðum viðburðum og efla grasrót til nýsköpunar á sviði mannréttindamála.

Ég vil að lokum óska styrkþegum innilega til hamingju og þakka þeim fyrir að stuðla að mannréttindum í okkar góðu borg. Til hamingju með daginn!

 

Leave a Comment

Filed under Ræður

Kynferðisofbeldi, leyndarhyggja og þöggun.

Kæru félagar

Lokið hefur sprungið af leyndarhyggjunni, leyndarhyggjunni sem stendur vörð um gerendur kynferðisofbeldis og leggur ábyrgð á þolendur. Athugasemdir um “meint” brot og hegðun og klæðaburð þolenda eru ekki til umfjöllunar í öðrum tegundum afbrota en kynferðisbrota. Kæru félagar, það skiptir máli hverjir stjórna í samfélaginu. Í Reykjavik starfrækjum við Bjarkarhlíð sem er miðstöð fyrir hvers kyns þolendur ofbeldis. Markmið með stofnun Bjarkarhlíðar er að veita samhæfðan stuðning og ráðgjöf til þolenda ofbeldis, en auk þess stuðla að fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis og gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið í okkar samfélagi.

Á þeim sex mánuðum sem liðið frá stofnun Bjarkarhlíðar hafa 193 einstaklingar leitað þangað. Af þeim eru 171 kona og 18 karlar. Yfir helmigur mála eru heimilisofbeldismál þar sem andlegt líkamlegt og / eða kynferðisofbeldi kom við sögu. Einnig hafa einstaklingar verið aðstoðaðir við að komast úr vændi. Í Bjarkarhlíð starfar rannsóknarlögreglukona í fullu starfi sem aðstoðar brotaþola við að leita réttar síns og eftir atvikum kæra. Alls voru lagðar fram 36 kærur vegna ofbeldis á tímabilinu.

Rannsóknir hafa sýnt að börn hafa að meðaltali reynt að segja sjö sinnum frá því ofbeldi sem þau verða fyrir, bæði andlegu, líkamlegu og kynferðislegu áður en einhver hlustar á frásagnir þeirra. Nú hafa brotaþolar og aðstandendur þeirra ákveðið að láta í sér heyra bæði undir #konurtala og #höfumhátt. Nú eru brotaþolar kominir með rödd og þeir hafa hátt og tala. Það er okkar að hlusta. Afnám laga um uppreist æru er aðeins byrjunin. Við þurfum heildarendurskoðun á kefinu. Ljóst er að hreinskiptin umræða um ofbeldi er til þess fallin að rjúfa þögnina sem allt of lengi hefur umlukið ofbeldi. Við sem samfélag megum aldrei viðurkenna, afsaka eða samþykkja ofbeldi af neinu tagi.

Við þurfum að hlusta á þolendur ofbeldis og taka mark á þeim, þeir eiga það skilið!

Ræða flutt á landsfundi VG 6. október 2017.

 

 

Leave a Comment

Filed under Ræður

Opinskátt um ofbeldi

Ræða flutt á sameiginlegum fundi Borgarstjórnar Reykavíkur og Ofbeldisvarnarnefndar 30. maí 2017

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar kemur fram að Reykjavíkurborg ætlar að vinna gegn kynbundu ofbeldi, bæði andlegu líkamlegu og kynferðislegu. Reykjavíkurborg viðurkennir að kynbundið ofbeldi er brot á grundvallarmannréttindum fólks og samfélagsmein sem enginn á að búa við. Öll starfssemi borgarinnar skal samkvæmt mannréttindastefnunni taka mið að þessu sjónarmiði.

Reykjavíkurborg hefur unnið aðgerðaráætlun gegn kynbundu ofbeldi frá árinu 2012. Í núverandi aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum sem gildir til ársins 2019 koma fram 3 aðgerðir sem snúa að kynbundu ofbeldi.

Saman gegn ofbeldi, ofbeldisvarnarnefnd og öruggar borgir eru verkefni sem nú þegar eru hluti af áætluninni. Verkefnin eru nú orðin mun fleiri og fjölbreyttari má þar meðal annars nefna Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og verkefnið opinskátt um ofbeldi.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir um að innleiða verkefnið Opinskátt gegn ofbeldi í skóla og frístundamiðstöðvar borgarinnar ber svo sannarlega að fagna. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu barna á ofbeldi og gera þeim kleift að ræða um ofbeldi á opinskáan hátt. Ljóst er að hreinskiptin umræða um ofbeldi er til þess fallinn að rjúfa þögnina sem hefur umlukið ofbeldi. Niðurstaða verkefnisins sýnir að starfsfólk telur sig betur í stakk búið til að greina merki um ofbeldi og bregðast við frásögnum barna um ofbeldi. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg búi börnum umhverfi sem er laust við hvers kyns ofbeldi og tryggi að þolendur ofbeldis hafi verkfæri til að tjá sig um ofbeldi og að við sem samfélag bregðumst við hvers kyns ofbeldi með skýrum hætti

Að lokum vill ég nefna að það er fyllilega skoðunar vert að koma þeim verkefnum sem þegar eru í framkvæmd og þeirra sem eru í farvegi  í ofbeldisvarnarmálum í sérstaka aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar á því sviði.  Margt er vel gert og við erum svo sannarlega lögð af stað, en aðgerðir gegn kynbundu ofbeldi eru viðvarandi verkefni og við megum ekki sofna á verðinum. Enginn á að þurfa að búa við ofbeldi og viðhorf stjórnvalda s.s Reykjavíkurborgar skipta máli. Ofbeldi má aldrei líðast í nokkurri mynd.

 

 

Leave a Comment

Filed under Ræður

Fólk en ekki faraldur

Ræða flutt 8. október 2016 í tilefni af opnun ljósmyndasýningarinnar Fólk en ekki faraldur í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Kæru gestir.

Takk fyrir að bjóða mér að opna þessa sýningu sem Samtök um líkamsvirðingu standa fyrir í samvinnu við Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og sýnir ljósmyndir Gunnars Freys Steinssonar.

Það er í raun stórmerkilegt að það sé, í okkar samfélagi “fullkomlega eðlilegt”, að hafa skoðun á holdafari annarra og tjá sig um það. Það er alls ekki óvenjulegt að heyra fólk tala saman um að þessi eða hinn þurfi nú að taka sig á og ná af sér nokkrum kílóum og það má heldur ekki gleyma því að þurfa að bæta við sig. Það er eins og holdafar einstaklinga sé almenningseign sem hverjum og einum sé frjálst að tjá sig um og hafa skoðanir á. En þannig er það oft því miður. Mig mynnir að ég hafi verið sex ára gömul þegar ég fékk fyrst að heyra að ég væri feit.

Í þessu stutta ávarpi ætla ég ekki að kryfja ástæður þess en við skulum ekki gleyma því að það eru margir sem græða peninga á því að kynt sé undir óánægju með útlit. Það eru framleidd föt sem eiga að láta þig líta út grennri, pillur sem hjálpa þér að missa kíló, te sem léttir, matur sem minnkar mittismálið, alls konar námskeið sett á fót sem eiga að fá þig til að vera einhver annar en þú ert. Útlitsiðnaðurinn sem gengur út að á vekja þá tilfinningu með okkur öllum að við séum ekki nógu mjó, nógu falleg, nógu hávaxin eða í nógu góðu formi.

Í stað þess að vera fjötruð af staðalmyndum um útlit, eigum við frekar að leggja áherslu á að vera hamingjusöm, vera ánægð í eigin skinni og fagna margbreytileikanum. Við eigum hins vegar ekki að vera umburðalynd gagnvart fordómum annarra. Tökum þá umræðu þegar tækifæri gefst að óeðlilegt sé að gefið hafi verið út skotleyfi á fólk vegna útlits og holdafars. Við erum alls konar og fordómar í garð útlits fólks eru óásættanlegir.

Ég greini stolt frá því að í drögum að nýrri mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar sem mun vera lögð fyrir borgarstjórn á næstu dögum er fjallað um að óheimilt sé að mismuna fólki vegna holdafars, útlits eða líkamsgerðar og að Reykjavíkurborg líti svo á að fordómar og mismunun í tengslum við holdafar séu félagslegt óréttlæti sem beri að vinna gegn.

Vonandi verður þessi sýning til þess að vekja athygli og kveikja umræður um líkamsvirðingu. Njótið, látið þetta kveikja í ykkur og munum að við erum alls konar.

Takk fyrir.

 

 

Leave a Comment

Filed under Ræður

Úr viðjum vanans

Húsnæðissamvinnufélög og aðrir valkostir við einaeignarfyrirkomulag á húsnæðismarkaði.

Staðan;

Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi hefur einkennst af ofuráherslu á séreingarstefnu. Það er lítil sem næstum engin hefð fyrir leigufélögum sem bjóða langtímaleigu á íslenskum húsnæðismarkaði. Fæstir íslendingar velja leiguíbúðir sem langtíma búsetukost heldur tímabundið úrræði fyrir þá sem ekki hafa efni eða kost á öðru. Mikið af þeirri vinnu sem fram hefur farið í húsnæðismálum hefur miðast við ríkjandi stöðu.

Séreignarstefnan;

Við höfum áratugum saman (og jafnvel árhundruðum) haft þá ríkjandi hugsun að hver fjölskylda þurfi að koma sér upp þaki yfir höfuðið – þetta þak á helst að vera í þeirra eign, en ekki aðeins til leigu. Stuðningskerfi hins opinbera bæði í formi húsnæðisbótakerfisins (vaxtabóta) og skattalegs umhverfis hefur verið íviljandi fyrir þá sem “valið” að kaupa sér íbúð – en hvaða valkostir hafa verið í boði?

Leigumarkaðurinn;

Leigumarkaður hér á landi hefur árum saman einkennst af því að vera tímabundin redding eða þrautarlausn fyrir þá sem ekki hafa getað keypt sér húsnæði td. vegna lága tekna. Langflestir leigusalar eru einstaklingar sem leigja út eignir sínar og einkennist leigumarkaðurinn af óöryggi og tíðum flutningum t.d þegar dóttir leigusalans kemur fyrr heim úr námi frá útlöndum. Hér á landi eru um 15% á leigumarkaði en þetta hlutfall er um 30% í Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi. Þetta má einna helst skýra með því hversu óöruggur leigumarkaðurinn er hér á landi auk þess sem það er gríðarlegur munur er á stuðningi hins opinbera við leigjendur annarsvegar og þá sem kaupa hins vegar.

Húsnæðissamvinnufélög og annað sniðugt;

Hægt er að draga þá ályktun að áhersla hins opinbera á séreignarstefnu, árás á félagslega íbúðakerfið t.d með niðurlagningu Verkamannabústaða og upptaka 100% húsnæðislána, áttu stóran þátt í bólunni á árunum fyrir hrun sem og efnahagshruninu sjálfu. Mikilvægt er að líta til annara lausna en séreignarstefnunnar, samhliða ótraustum leigumarkaði sem aðeins er hugsaður fyrir þá sem ekki “geta” keypt.

Mikið hefur verið talað um mikilvægi húsnæðisleigufélaga sem boðið gætu upp á öruggt húsnæði til langtímaleigu. En hvaða valkostir standa til boða? Leigufélög, búseturéttur, leiguréttur og kaupleiga eru nokkrir valkostir sem hafa verið í umræðunni en hér ætla ég að fjalla nánar um húsnæðissamvinnufélög.

Húsnæðissamvinnufélög einnig nefnd íbúasamvinnufélög gætu orðið grundvöllur að leigumarkaði á félagslegum grunni. Íbúasamvinnufélög eru rekin á félagslegum grunni af og fyrir íbúa. Íbúar kaupa sig inn í félögin með leigu- eða búseturétti og verða þannig rétthafar í félögunum og reksturinn er í þágu íbúa en ekki hluthafa á markaði. Þannig má tryggja að arður af rekstrinum verði íbúunum sjálfum til góða í formi viðhalds, nýbygginga og góðra leigukjara. Þessi framtíðarsýn byggist þó á því að fjármagn fáist í langtímaverkefni með lægri arðsemiskröfu en t.d þeim 3.5% sem nú eru sett á lífeyrissjóðina.

Hægt verður að búa alla sína ævi í leiguhúsnæði sem hægt er að laga að þörfum og stærð fjölskyldunnar að hverju sinni. Þessi leið er alls ekki óraunhæf enda verið ríkjandi á Norðurlöndunum og víðsvegar í Evrópu um áratuga skeið og reynst vel. En þar þarf sameiginlegt átak fleiri aðila til að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd, til þess að gera þær að veruleika. Fjárfestar sem geta lagt til “þolinmótt fjármagn” skipta þar sköpum. Ríki, sveitarfélög, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og hin nýstofnuðu íbúasamvinnufélög gætu lagst saman á eitt til að finna viðeigandi lausnir.  Starfsumhverfi húsnæðissamvinnufélaga, sjálfseignarstofnanna og annarra félaga á húsnæðismarkaði sem hafa ekki hagnað að leiðarljósi þarf að vera öruggt.

Framtíðarsýn;

Núverandi húsnæðiskerfi, þar sem séreignarhúsnæði og óöruggur leigumarkaður ræður ríkjum, svarar ekki breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu eftir hrun. Íbúasamvinnufélög sem bjóða öruggt leigu- og kaupleiguhúsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur er mikilvæg viðbót við það sem nú býðst á íslenskum húsnæðismarkaði. Sá tími ætti að vera liðinn að ríki og sveitarfélög bjóði einkaaðilum lóðir til uppbyggingar á útsöluprís til að tryggja hagnað verktaka og fasteingafélaga á kostnað almennings. Ríki og sveitarfélög ásamt lífeyrissjóðum geta orðið hluthafar í nýjum húsnæðissamvinnufélögum með því að gera kröfu um að t.d lóðir verði metnar inn í félögin á markaðsvirði. Þannig má láta borgaranna njóta ágóðans í formi öruggrar langtímaleigu á viðráðanlegu verði.

Við eigum að þora að hugsa húsnæðiskerfið upp á nýtt, við þurfum ekki að festast í viðjum vanans.

 

Erindi flutt á málþinginu – Þak yfir höfuðið þann. 12. mars sl.

 

Leave a Comment

Filed under Ræður

Karllægar aðgerðir í atvinnumálum?

Kæru félagar!

Tölur um atvinnuleysi hér á landi fara lækkandi eins og formaður vor rakti hér áðan. Því ber hiklaust að fagna. Hinsvegar byrja ákvæðnar viðvörunarbjöllur að hringja þegar þessar tölur eru skoðaðar nánar. Í janúar 2010 var atvinnuleysi meðal karla 9,9% en 7,9% meðal kvenna. Á því voru ýmsar skýringar t.d hrun í byggingariðnaði sem bitnaði frekar á störfum karla en kvenna.

Síðan greip hið opinbera til aðgerða í atvinnumálum. Ráðist var gegn atvinnuleysinu fullum fetum. Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa farið í eru að mörgu leyti dæmigerðar og í anda “The new deal”. Opinberar framkvæmdir og uppbygging á steinsteypu, vegnum og göngum koma helst við sögu. Hinsvegar hefur hið opinbera skorið niður til heilbrigðis- og velferðarmála á sama tíma. Ríkisstjórnin og sérstaklega okkar fulltrúar í henni og á þingi verða að gæta að því að hugsa ekki aðgerðir í atvinnumálum út frá karllægum og svart hvítum forsendum stórframkvæmdanna.

Í heilbrigðis-og velferðargeiranum starfar fjöldi kvenna og það að verja störf þeirra snýst um atvinnumál ekki síður en um þjónustu í þessum geirum. Reynslan af hinum norðurlöndunum í kjölfar efnahagsþrenginga t.d í Finnlandi sýnir að ef aðgerðir í atvinnumálum eru of karllægar getur það haft mjög neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku kvenna til lengri tíma litið. Í desember 2011 var atvinnuleysi 7,2% meðal karla og hafði lækkað um 2,7% frá upphafi árs 2010. Hinsvegar var atvinnuleysi meðal kvenna 7,4 % í desember 2011 og hafði því lækkað um 0,5% á sama tímabili. Í yfirferð formannins áðan mátti sjá að “Atvinnuleysi kvenna hefur verið hærra en atvinnuleysi karla síðan í júlí 2011”

Nú virðist hinsvegar sem nokkru jafnvægi sé náð í atvinnuleysi karla og kvenna og því þarf að gæta að því að halda uppi atvinnustigi beggja kynja til framtíðar.

Aðgerðir sem ráðist verður í  tengdar atvinnumálum nú, þarf að hugsa til lengri tíma. Vinstri-græn þurfa að huga að stöðu kvenna og karla í allri umræðu um atvinnumál sem og mótun aðgerða í kjölfarið. Ef við gerum það ekki hverjir gera það þá? Ég treysti allavega engum öðrum til að þess að standa vaktina þannig að sómi sé af.

Ræða flutt á flokksráðsfundi Vinstri-grænna 24. febrúar 2012

 

 

Leave a Comment

Filed under Ræður