Hinseginfræðsla til foreldra grunnskólanema í Reykjavík

Fögnum fjölbreytileikanum

Forseti, borgarfulltrúar og fulltrúar í Reykjavíkurráði ungmenna

Ég vil byrja á að þakka Sigríði Erlu Borgarsdóttur, fulltrúa  í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða fyrir mjög brýna tillögu um hinseginfræðslu til foreldra grunnskólanema í Reykjavík.

Hinsegin fjölskyldur finnast um alla borg, en við búum í samfélagi þar sem gagnkynhneigð og sís (það að vera ekki trans) eru viðmiðin og þessvegna er hinsegin fólk í meiri hættu á að verða fyrir útilokun, mismunun, fordómum, einelti og annars konar ofbeldi. Þetta birtist víða í samfélaginu, ekki síst innan skólakerfisins þar sem börn eyða stórum hluta af sínum tíma. Það er hlutverk okkar allra að skapa hinseginvænt skólasamfélag, staðan hinsegin ungmenna er óviðunandi innan skólanna í dag, nokkuð sem könnun á líðan hinsegin ungmenna í íslensku skólaumhverfi staðfestir. Til þess að skólar geti verið hinsveginvænir þarf að virkja allt skólasamfélagið, nemendur, kennara/starfsfólk og foreldra. Það eru hinsegin börn í öllum skólum borgarinnar og þau eru alls konar, rétt eins og önnur börn. Einnig tilheyra mörg börn hinsegin fjölskyldum.

Mikilvægt er að gera ráð fyrir því að foreldrar, forsjáraðilar og fjölskyldur nemenda geta verið hinsegin. Huga þarf að ýmsum þáttum til þess bæði að tryggja það að hinsegin fjölskyldur séu teknar með í reikninginn, finni fyrir því að þær séu velkomnar og gert sé ráð fyrir þeim, en einnig til þess að nemendur upplifi sig ekki út undan eða frávik fyrir það að eiga hinsegin fjölskyldu. Það þarf að huga að því hvernig fjölskyldur eru ávarpaðar, hverjum er gert ráð fyrir á eyðublöðum, hvernig þeim er boðið að taka þátt í skólastarfi, hvernig talað er um fjölskyldur í skólastofunni o.s.frv. Einnig þarf að huga að minnihlutaálagi hjá hinsegin foreldrum og forsjáraðilum. Það verður því að vera algjörlega skýrt að hinseginnemendur og hinsegin fjölskyldur séu velkomnar í Reykvískum skólum. Það er okkar allra sem sitjum í Borgarstjórn Reykjavíkur að tryggja hingseginvæna orðræðu, innan skólans, veggja heimilisins og samfélagsins alls. Mannréttindaskrifstofa hefur tekið saman mikilvæga gátlista um hinseginvæna skóla, fyrir öll skólastig, sem mikilvægt er að nýta vel.

Reykjavíkurborg er eina sveitarfélag landsins sem er með starfandi sérfræðing í hinsegin málefnum. Sérstakir gátlistar hafa verið útbúnir til að gera skóla bæði hinsvegim, og transvæna og fá allir skólar stuðning við það mikilvæga verkefni að gera skólana þannig að öll upplifi sig velkomin. Starfsstöðvum Reykjavíkurbogar þmt. grunnskólum, stendur einnig til boða að fá Regnbogavottun og gera þannig starfsumherfi og viðhorf starfsólks hinseginvænna. Einhverjir starfsstaðir skóla- og frístundasviðs hafa farið í gegnum slíka vottun en stærsti hluti á það þó eftir.

Reykjavíkurborg hefur verið með samning við Samtökin 78 um hinseginfræðslu í skólum frá árinu 2014. Í núverandi samningi við Samtökin 78 sem undirritaður var í lok árs 2020 kemur fram að mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa sér um hinsegin fræðslu til starfsfólks í skóla- og frístundastarfi og Samtökin 78 sjái um hinseginum fræðslu til nemenda. Því er nú í boði bæði fræðsla til kennara og nemenda. Foreldrar geta svo fengið ráðgjöf bæði hjá ráðgjafarþjónustu samtakanna auk þess sem fulltrúar frá mannréttindskrifstofu og jafnréttisskólanum hafa oft komið inn og veitt stuðning til aðstandenda. Þó hefur hingað til ekki verið markviss hinsveginfræðsla til allra foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, líkt og lagt er hér til. Því er fyllilega vert að skoða hvernig hægt sé að auka hinsveginfræðslu til foreldra grunnskólabarna í Reykjavík með markvissari hætti en nú er gert.

Um leið og ég þakka ungmennaráðsfulltrúa Laugardals, Háaleitis og Bústaða fyrir mikilvæga tillögu vill ég leggja til að tillögunni verði vísað til Skóla-og frístundasviðs til frekari skoðunar innan borgarkerfisins í samráði við mannréttindskrifstofu borgarinnar og jafnréttisskólann, með það að markmiði að sjá hvernig bæta megi fræðslu til foreldra grunnskóalbarna um hinsegin málefni.

Ræða flutt í borgarstjórn 8. febrúar 2022.

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *