Kæru gestir!
Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar úthlutar ár hvert styrkjum til frjálsra félagasamtaka og einstaklinga. Markmið styrkjana ráðsins er að styrkja við sjálfsprottið starf og starfssemi frjálsra félagasamtaka á sviði mannréttinda.
Þau verkefni sem hljóta styrki eru æði fjölbreytt en öllum er þeim ætlað að stuðla að farsælli þróun borgarsamfélagsins, jafnræði borgarbúa og fjölbreytilegu mannlífi í borginni okkar. Auk þess er það hlutverk styrkja mannréttindaráðs að styðja við hvers konar starf sem vekur athygli á eða stendur vörð um mannréttindi borgarbúa.
Á liðnu ári var skyndistyrkjum mannréttindaráðs úthlutað í fyrsta sinn. Var þeim komið á til að bregðast við umsóknum vegna verkefna sem ekki er hægt að sjá fyrir eða skipuleggja í aðdraganda almennra styrkúthlutana. Skyndistyrkir eru því mikilvæg viðbót til að efla grasrótina á sviði mannréttindamála. Þannig er hægt að bregðast hratt og vel við oft ófyrirséðum viðburðum og efla grasrót til nýsköpunar á sviði mannréttindamála.
Ég vil að lokum óska styrkþegum innilega til hamingju og þakka þeim fyrir að stuðla að mannréttindum í okkar góðu borg. Til hamingju með daginn!