Raunverulegar aðgerðir í þágu eldra fólks í borginni!

Reykjavíkurborg veitir eldri borgurum margvíslega þjónustu. Markmiðið með þjónustunni er ávallt að borgarbúar á öllum aldri geti blómstrað og fengið þá aðstoð sem þeir þurfa til að lifa innihaldsríku og sjálfstæðu lífi. Til að samræma og gera þjónustu borgarinnar við eldri borgara markvissari var ákveðið móta heildstæða stefnu í málaflokknum. Ný stefnumótun, „Aldursvæn og heilsueflandi borg“, var samþykkt í borgarstjórn vorið 2018 og var sú vinna unnin undir forystu Vinstri grænna. Í stefnunni er lögð áhersla á aukin lífsgæði eldri borgara. En stefna er eitt og aðgerðir eru annað. Mikilvægt er að orðum fylgi raunverulegar aðgerðir. Nú þegar kjörtímabilið er brátt á enda er lag að fara aðeins yfir þau verkefni sem ráðist hefur verið í til að bæta þjónustu við eldra fólk.

  
Nýr samningur við Sjúkratryggingar um samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun var undirritaður í lok árs 2020. Í honum er lögð áhersla á að efla getu heimahjúkrunar Reykjavíkur til að nýta velferðartækni í auknum mæli samhliða því að fjölga vitjunum, auka sérhæfingu og þverfaglega teymisvinnu t.d. með sérstöku endurhæfingarteymi í heimahúsum og hjartabilunarteymi. Mikil tækifæri liggja í velferðartækni og hefur Reykjavíkurborg sett á laggirnar sérstaka velferðartæknismiðju þar sem þróa má og prófa ýmsar lausnir sem nýta má í þjónustu við aldraða, bæði heimavið og á hjúkrunarheimilum.

Sett hefur verið á laggirnar sérhæft öldrunarteymi Reykjavíkurborgar, SELMA, en sú þjónusta miðar að því að styrkja innviði heimahjúkrunar og auka gæði þjónustunnar. Starfsemin er tvíþætt og felst í vitjunum í heimahús auk sérstakrar símaþjónustu og ráðgjafar og er markmiðið að með auknum stuðningi heim megi fækka sjúkrahúsinnlögnum aldraðra. Hingað til hefur verið mikil vöntun á slíkri samhæfingu milli þjónustukerfa. Verkefnið hefur þegar sannað gildi sitt og  komið í veg fyrir óþarfa ferðir á bráðamóttöku sem og elft stuðning við hjúkrunarfræðinga heimahjúkrunar.

Tilraunaverkefni um félagslegan stuðning við einstaklinga með heilabilun fór af stað í byrjun árs 2022. Verkefnið er unnið í samráði við helstu hagsmunaaðila. Stuðningurinn er veittur á kvöldin, um helgar eða þegar það hentar viðkomandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra. Um leið og stuðningur verður veittur einstaklingi með heilabilun gest aðstandeum hans kostur á að fara út af heimilinu og sinna hugðarefnum sínum með þá vissu að aðstandandinn sé í öruggum höndum. Vonast er til að hægt verði að létta álagi af heimilum og bæta lífsgæði fjölskyldunnar. 

Nýlega hafa síðan tekið gildi nýjar reglur um stuðningsþjónustu við eldra fólk í borginni og leysa þær af fyrri reglur um félagslega heimaþjónustu. Helsta breytingin felst í að ríkari áhersla er lögð á samvinnu við umsækjanda um það hvers konar stuðning hann þurif á að halda. Ný nálgun í veitingu þjónustu er talin gega mætt stuðingsþörfum fólks með heildstæðari hætti en áður, sveiganleiki eykst og umsýsla verður einfaldari.

Hér hefur verið stiklað á stóru varðandi bætta þjónustu við eldra fólk í Reykjavík á yfirstandandi kjörtímabili. Mikilvægt er að halda áfram að efla þá þjónustu sem fyrir er en bæta einnig þjónustu í heimahúsum með nýjum verkefnum og halda áfram samþættingu þjónustu með áherslu á þverfaglegt samstarf. Halda þarf áfram að efla þjónustu heim, leggja áherslu á nýsköpun og velferðartækni og eflingu fagstétta í heilbrigðisþjónustu. Höldum ótrauð áfram að bæta þjónustu við eldra fólk í Réttlátari Reykjavík!

Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.

Greinin birtist fyrst i Morgunblaðinu 21.02.2022.

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *