Um konur sem drekka bjór

Það var einhverntímann í fyrra þar sem ég sat ásamt Unni vinkonu í einum öl og við vorum í samræðum sem enduðu á hugmyndinni “við ættum nú bara að stofna félagsskap fyrir bjóráhugakonur”. Okkur fannst þetta ekkert sérstaklega róttæk hugmynd og bara frekar sniðug. Við eigum fullt af vinkonum sem drekka bjór og ef maður fer á pöbb þá sitja gjarnan margar konur með bjór í krús og þykir ekki tiltöku mál.

Við fundum stað og stund fyrir stofnum “félags íslenskra bjóráhugakvenna” og viðbrögðin stóðu ekki á sér. Á nokkrum dögum höfðu yfir þrjú hundruð konur meldað sig á stofnfundinn. Unnur hringdi síðan í mig í hádeginu á mánudegi og við hlupum í myndatöku fyrir frétt í blaði, útvarpsviðtöl og annað fylgdi í kjölfarið. Vá hugsaði ég – við erum greinilega að gera eitthvað róttækara en mér datt í hug þarna á pöbbnum fyrir rúmu ári síðan.

Það er skrýtið til þess að hugsa að árið 2014 þyki róttækt að konur stofni félagsskap vegna áhuga síns á bjór og bjórmenningu. Nú eftir reynslu síðustu vikna er ég sannfærð um að þörfin fyrir slíkan félagsskap sé ærin. Bæði vegna þess hversu skemmtilegt það verður að hitta konur, ræða og smakka bjóra og allt sem því fylgir. En einnig vegna þess að við búum í samfélagi þar sem ennþá þykir merkilegt að konur stofni bjórfélag. Sjálf hef ég lagst í smá rannsóknarvinnu um konur og bjórmenningu og komst að því að það voru konur sem brugguðu mjöð þess tíma í Mesópótamíu til forna. Einversstaðar í iðnvæðingunni var bjórgerð síðan karllæg og enn síðar bjórdrykkja. Staðalmyndin um karl með stóran bjór og konu með hvítvínsglas virðist  því ansi langlíf.

Ég er fegin að við tókum þessa ákvörðun, hún var greinilga þörf. Vonandi mun íslenskt samfélag sjá breytingar í kjölfarið. Konur sem veita sérfræðiinnlegg um bjóra, dæma bjóra í fjölmiðlum og eru sérfræðingar á sviði bjórmenningar eru mögulegar afleiðingar.  Nú er að sjá hvort að bjórframleiðendur hér á landi og fjölmiðlafólk taki við sér og átti sig á því að til eru fjölmargar konur sem hafa fjölbreytta og mikla þekkingu á þessu sviði sem eru reiðubúnar að deila henni með öðrum.

Að lokum vona ég að börn þessa lands glatist ekki við þá hræðilegu hugsun að konur þessa lands séu gengnar í slagtog við Bakkus. Þær eru nefnilega komnar með kosningarétt, fá að keyra bíl og jafnvel ganga í síðbuxum.

Áfram konur, afram bjór og áfram 2014!

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Bjór, Blogg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *