110% leiðin – fyrir hverja?

Kæru félagar, ég hef oft stigið í pontu og rætt um ýmis mál s.s fátækt og velferð. Ég hef oft tekið að mér það hlutverk að vera reiða og eða leiðinlega konan. Nú hef ég líka ákveðið að gefa kost á mér í framboð til stjórar flokksins.

Ég hef haft það að leiðarljósi að samvinna og samræður skili meiru heldur en deilur og illindi. Ég hef þó leyft mér það að koma með gagnrýni og aðhald þegar mér hefur þótt þess þurfa. Nú er svo komið að ég verð að hefja raust mína fyrir framan hæstvirta ráðherra og þingmenn flokksins. Nú er svo komið að ég get ekki lengi á mér setið. Háværar kröfur um leiðréttingar á íbúðalánum hafa ómað síðan í hruninu. Ýmsar leiðir hafa verið ræddar, og miklar gagnrýnisraddir hafa heyrst um að EKKERT hafi gerst! Þó var ákveðið með samkomulagi þann 15. Janúar 2011 að fara í aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila í daglegu tali nefnt 110% leiðin. Í september sl. kom út skýrsla eftirlitsnefndar viðskiptaráðherra sem m.a átti að taka út framkvæmdina á 110% leiðinni.  Í henni kemur ýmislegt í ljós sem kallar á frekari aðgerðir stjórnvalda. Flokkur sem kennir sig við félagslegt réttlæti hlýtur að rísa upp þegar fram kemur í skýrslunni með leyfi fundarstjóra;

„Húsnæðiskaupendur sem vildu haga fjármálum sínum af skynsemd á þensluárunum frá 2004-2008 tóku lán í íslenskum krónum hjá íbúðalánasjóði og fengu viðbótarlán gegn lánsveði frá lífeyrissjóði eða sparisjóði sem starfaði í samvinnu við íbúðalánasjóð. Aðrir einstaklingar tóku lán hjá Kaupþingi, Glitni, Landsbankanum eða öðru fjármálafyrirtæki í jenum eða svissneskum frönkum þó tekjur væri ekki í þessum myntum, sem telja verður óvarkárt þó svo að sú staðreynd sé fyrir hendi að fjármálafyrirtækin hvöttu til slíkrar lántöku einstaklinga og gerðu minna úr áhættunni en hún raunverulega var.“

Já sumir voru skynsamir, keyptu ekki gylliboð bankanna og töldu sig vera að fara varlega. Þessi hópur á það sameiginlegt að hafa haft aðgang að lánsveðum hjá ættingjum. Þannig hafa þúsundir ungra einstaklinga sem lögðu kaup á sína fyrstu eign fengið lánsveð hjá ættingjum, flestir hjá foreldrum. Þetta er fólk sem nú berst í bökkum við að greiða af lánum til þess að ekki sé gengið á eignir vina og vandamanna. Margir farnir að skulda langt yfir 110% en fá ekkert leiðrétt þar sem lánsveðin teljast ekki með. Þetta hlýtur að teljast óréttlæti á háu stigi. En í skýrslu nefndarinnar kemur fram að þetta hafi skapað handahófskennt óréttlæti við beitingu á 110% leiðinni. En dæmi um þetta kemur fram í skýrslunni með leyfi fundarstjóra;

„Einstaklingar sem tóku húsnæðislán tengd erlendum myntum hafa nú fengið lán sín lækkuð niður í 110% af markarðsverði eignar sinnar. Óheppnir viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs, lífeyrissjóða og/eða sparisjóða sitja hins vegar uppi með heildarlánabyrði sem getur verið talsvert yfir 110% mörkunum vegna þess að höfuðstóll lánsveðláns þeirra er látinn óhreyfður. Það má því segja að 110% úrræðið taki ekki nema að takmörkuðu leyti á skuldavanda þeirra sem reyndu að sýna aðgæslu og forsjálni í ákvörðunum sínum.“

VG var flokkurinn sem hvatti til aðgæslu í ríkisfjármálum í aðdraganda hrunsins. Sjálfri var mér kennt að kaupa hluti þegar ég væri búin að spara fyrir þeim. Það þurfti ekki stóra auglýsingaherferð frá einum stærsta viðskiptabankanum til þess að fá mig til að átta sig á því. Hrópleg ósanngirni í þessu máli sem og öðru tel ég líklega ástæðu fyrir vaxandi ólgu fólks í samfélaginu. Það er eðlilegt að fólk beri sig saman við einstaklinga/fjölskyldur í svipaðri stöðu. Úr þessu þarf að bæta og það erum við sem þurfum að gera það vegna þess að enginn annar mun gera það.

Að lokum vil ég taka undir lokaniðurstöðu nefndarinnar þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að gera stöðu lánstaka með lánsveð sambærilega við stöðu annarra lántaka í 110% leiðinni.

Takk fyrir og góðan landsfund!

Ræða flutt á landsfundi Vinstri-grænna 28.10.2011

Hér má finna skýrslu eftirlitsnefndar

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *