Ég fagna því að tillaga borgarfulltrúa VG um 20 miljón króna aukafjárveitingu til skapandi sumarstarfa hafi verið samþykkt samhljóða í borgarráði í dag. Vegna þessa fá 110 ungmenni skapandi sumarstarf í stað 40 eins og áður var gert ráð fyrir. Sumarvinna fyrir námsmenn er mikilvæg fyrir margar sakir. Í fyrsta lagi þurfa margir á peningunum að halda – ekki til að skella sér á Hróarskeldu og kaupa sér nýjan I-pod heldur til að geta fjármagnað nám sitt á framhaldsskólastigi, sem fátækar fjölskyldur geta oft á tíðum ekki stutt við. Síðan hefur það forvarnargildi að hafa einhvern stað til að mæta á og vinna og taka þátt í samfélaginu. Ekki getur verið leiðinlegt að vinna við skapandi sumarstarf sem hlýtur að vera bónus. Ég man þegar ég var að vinna hjá Hinu Húsinu að þá var ég með starfsstöð á sama stað og Götuleikhúsið – þar var alltaf fjör og gaman. Ég er því sannfærð um það að með því að fjárfesta í ungu fólki erum við að fjárfesta til framtíðar. Það þýðir lítið að hirða aurinn og kasta krónunni…
Þangað til næst!