Að falla milli skips og bryggju – hver á að þjónusta geðsjúka fíkla?

Málefni geðsjúkra hafa verið í deiglunni undanfarið. Sérstaklega hafa fjölmiðlar tekið við sér í umræðunni varðandi einstaka mál. Það er þó ekki ætlun mín hér að fjalla um þau. Ég vil beina kastljósinu að því hvernig það velferðarkerfi sem við höfum byggt upp á Íslandi býður upp á það að þeir sem þurfi þjónustu falli milli skips og bryggju.

Þetta á ekki einungis við um einstaklinga sem glíma við geðraskanir af ýmsu tagi – þetta á við aldraða, sjúklinga, fatlaða, börn osfrv. Velferðarkerfið okkar er byggt upp þannig að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er oft á tíðum óljós. Þessi staðreynd leiðir af sér að stundum eru nauðsynleg úrræði ekki til staðar. Það er ekki nógu gott, það er ósköp einfalt mál.

Ávallt skal í ræðum á tyllidögum tala um nauðsyn samvinnu og samráðs ríkis og sveitarfélaga í ýmsum málaflokkum. Of oft einkennist þó umræðan af deilum um það hverjir skuli greiða fyrir hvaða þjónustu, slíkar deilur geta staðið árum saman og á meðan gerist ekkert. Oftar en ekki felast samskipti ríkis við sveitarfélögin í ýmsum boðum og reglugerðum sem geta verið fjárhagslega íþyngjandi án þess að þeim fylgi nauðsynlegt fjármagn. Þessi staða er hreinlega ekki boðleg.

Hinsvegar virðist gæta ákveðins misskilngs hjá talsmönnum sjúkrahúsa landsins að geðsjúkir fíklar séu ekki veikir, og ekki heldur geðsjúkir utangarðsmenn. Sýnt hefur verið fram á að þessir hópar fá ekki sambærilega heilbrigðisþjónustu og aðrir vegna veikinda sinna. Ef það vantar úrræði þá þarf hreinlega að búa þau til. Við þá vinnu þarf að ríkja samstarfsvilji og gagnkvæmt traust milli ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að allir fái viðunandi og fullnægjandi félags-og heilbrigðisþjónustu þannig að engin lendi milli skips og bryggju.

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *