Af sorplöggum og sóðaskap

Sorphirða er eitt af því sem margir taka sem sjálfsögðum hlut. Maður tekur ekki eftir því að sorpið sé hirt fyrir utan en þegar það er ekki gert, þá byrja vandræðin. Sorphirða er mikilvæg grunnþjónusta sem borgarbúar reiða sig á. Sorphirðan mætir í öllum veðrum í þröng húsasund og niður brattar kjallaratröppur, gegnum rigningu og snjó og sækir fullar tunnur.

Nú eru breyttir tímar og mikilvægi aukinnar endurvinnslu og sorpflokkunar verður æ ljósara. Reykjavíkurborg hefur verið eftirbátur annarra sveitarfélaga hvað þetta varðar og er það miður. Mikilvægt er að borgin setji sér stefnu varðandi endurvinnslu og auki möguleika og aðgengi borgarbúa að sorpflokkun.

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar í Umhverfis-og samgönguráði samþykkti á síðasta fundi sínum að auka sorpflokkun í Reykjavík. Þeirri ákvörðun ber hiklaust að fagna. Hinsvegar er sú leið sem ákveðið er að fara vanhugsuð og klaufaleg. Sú klaufalega leið felst í því að banna Reykvíkingum að henda pappír og skilagjaldsskyldum umbúðum með almennu heimilissorpi.  Síðan eiga borgarbúar að „velja“ hvort þeir nýti sér grenndargáma, endurvinnslustöðvar, bláu tunnuna eða þjónustu einkaaðila. Tillagan er að mínu mati vanhugsuð að mörgu leyti sem er miður þegar um jafn mikilvægan málaflokk og sorpflokkun og aukna endurvinnslu er að ræða.

Í fyrsta lagi hefur hún neikvæðan undirtón þar sem um „bann“ er að ræða. Ég er ekki viss um að slíkt bann sé farsælasta leiðin til þess að fá borgarbúa í lið með sér til aukinnar endurvinnslu. Boð og bönn hafa yfirleitt stuðandi áhrif á fólk og í jafn mikilvægum málaflokki og endurvinnslu og umhverfisvernd hefði verið betra að auka meðvitund og þátttöku borgarbúa með jákvæðum formerkjum. Þetta hefði t.d mátt gera með því að skylda þá sem nýta sér sorphirðuþjónustu borgarinnar til að vera með bláa tunnu, þannig hefði mátt sýna fram á hagræði fyrir íbúa þar sem slíkar tunnur eru ódýrari og standa að kynningu á aukinni umhverfisvitund með jákvæðum formerkjum en slíkt skiptir miklu máli í samfélagsumræðunni.

Í öðru lagi endurspegla slíkar tillögur þá hugmynd að allir borgarbúar búi í einbýlum eða litlum fjölbýlum í miðbænum eða vesturbænum þar sem flestir fulltrúar meirihlutans í umhverfis- og samgönguráði búa sjálfir. Staðreyndin er sú að margir búa í fjölbýli, meira að segja stóru fjölbýli. Á slíkum stöðum verður mjög erfitt að framfylgja „banni“ af þessu tagi. Ég sé fyrir mér þegar kjósa þarf „ruslaeftirlitsmann“ á hvern stigagang í blokkinni og á hverra ábyrgð er að slíkt sé gert?

Ég hef þrátt fyrir þessa ákvörðun mikla sannfæringu fyrir því að flestir borgarbúar vilji endurvinna meira en nú er gert. Með því að stuðla að aukinni endurvinnslu með jákvæðum formerkjum, fræðslu og hvatningu eru mun meiri líkur á að meirihluti Besta flokks og Samfylkingar fái  borgarbúa í lið með sér til þess að endurvinna í meira mæli.

Greinin byrtist á Smugunni 27.06.2012

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *