Árið 2021 var viðburðarríkt ár, fjölmörg verkefni, sem ekki er hægt að telja öll upp hér urðu að veruleika. Hér koma aðeins nokkur þeirra.
Ráðgjafastofa Innflytjenda opnaði, tíðarvörur urðu gjaldfrjálsar í skólum borgarinnar, rekstur hinsegin félagsmiðstöðvar var styrktur, ný hjólreiðastefna var samþykkt, aðstöðumunur milli kvótaflóttafólks og umsækjanda um alþjóðlega vernd var jafnaður, verkefnið Betri borg fyrir börn verður innleitt í öll hverfi borgarinnar, uppbygging búsetuúrræða hélt áfram sem og fjölgun almennra félagslegra leiguíbúða, ný Velferðarstefna var samþykkt og haldið var áfram að efla þjónustu fjölga búsetukostum fyrir heimilislaust fólk í borginni, undirbúningur fyrsta neyslurýmisins er í höfn og fjölmörg verkefni hafa verið sett á laggirnar til að bæta þjónustu við eldra fólk á heimilum sínum, s.s SELMA og nýtt tilraunaverkefni um aukna félagslega heimaþjónustu fyrir heilabilaða.
Ómögulegt er fyrir mig að telja allt upp hér sem ég hef unnið að á þessu erilsama ári, verkefnin eru fjölmörg og ávallt þarf að gera betur í allri þjónustu við borgarbúa. En stoltust er ég af því að hafa komið á nauðsynlegum breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð til að tryggja fátækustu börnunum í borginni leikskóladvöl, skólamat ásamt dvöl á frístundaheimili. Munum að það eru ekki alltaf þau sem eru í mestri þörf sem hafa hæstu röddina. Hlakka til áframhaldandi verkefna á nýju ári, það er sannarlega af nógu að taka.
Takk öll fyrir samstarfið, hvatninguna og stuðninginn. Hann er ómetanlegur.