Category Archives: Blogg

Skrifað f. elinsig.is

Sjálfstæðismenn í borginni senda notendum fjárhagsaðstoðar kaldar kveðjur!

Á fundi borgarstjórnar í desember sl. lögðu Sjálfstæðismenn fram tillögu þess efnis að í stað þess að hækka fjárhagsaðstoð mv. forsendur fjárhagsáætlunar upp í tæpar 185 þúsund krónur á mánuði yrði fjárhagsaðstoð lækkuð til „samræmis við meðalupphæð fjárhagsaðstoðar annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu“. Slík „samræming“ myndi fela í sér lækkun fjárhagsaðstoðar í tæpar 150 þúsund krónur á mánuði eða um tæpar 35 þúsund krónur á mánuði. Þarna skín í gegn sú skoðun sjálfstæðismanna í borginni að þeir verst settu í samfélaginu eigi að taka á sig miklar skerðingar þannig að hægt sé að fara í önnur „mikilvæg“ verkefni á borð við endurnýjun gervigrasvalla, lengingu á opnunartíma sundlauga og byggja stokka og mislæg gatnamót. Mikilvægt er að mæta fólki þar sem það er statt og aðstoða þá verst settu til að ná tökum á lífi sínu og tryggja þátttöku allra í samfélaginu. Nógu lág er nú fjárhagsaðstoðin samt, en um það erum við og sjálfstæðismenn í borginni greinilega ósammála.

 

 

Leave a Comment

Filed under Blogg

Læknar úr opinberum störfum á einkastöðvar

“Læknar hafa áhyggjur af því að nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar verði ekki til þess að heimilislæknum fjölgi á höfuðborgarsvæðinu heldur flytji heimilislæknar sig úr opinbera geiranum yfir í einkageirann.”

Svona byrjar frétt sem birtist á vísi.is í dag. Ég deili svo sannarlega þessum áhyggjum læknanna. En í ljós hefur komið að í stjórn Heilsugæslunnar Höfða sem var eina félagið sem bauð í rekstur heilsugæslu á Bíldshöfða (sem er ekki góð staðsetning f. íbúa) sitji fimm læknar þar af eru fjórir þeirra þegar starfandi á heilsugæslustöðvum á Höfuðborgarsvæðinu. Þetta er sannarlega áhyggjuefni, þarna færast læknar úr opineru kerfi yfir í einkakerfi þar sem þeir geta greitt sér arð úr rekstri fyrir almannafé. Staðsetningar nýju stöðvanna þriggja virðast ekki byggja neinu mati á því hvar á svæðinu sé mest þörf fyrir þjónustu og útboði háttað þannig að einungis einn aðili býður í rekstur á hverri stöð (ætli það sé tilviljun?).

Í lokin vil ég lýsa yfir áhyggjum yfir nýju greiðslufyrirkomulagi á þjónustu Heilsugæslustöðva. Fyrirkomulagið sem ráðherra kallar að “fé fylgi sjúkling” er að sænskri fyrirmynd og heitir þar í landi “vårdval¨en það módel var dæmt úr leik af sænsku ríkisendurskoðuninni árið 2014 þegar úttekt leiddi í ljós að fyrirkomulagið dró úr jafnræði í kerfinu. Þeir sem veikari voru og efnaminni fengu verri þjónustu á meðan þeir sem voru hraustari og efnameiri voru ofþjónustaðir. Auk þess hafa fjölmörg fámenn svæði orðið nánast án heilbrigðisþjónustu vegna fyrirkomulagsins.

Málið snýst því ekki einungis um útboð á þremur einkareknum Heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu, það snýst um grundvallarbreytingu á heilbriðgisþjónustu í landinu og þeirri sýn að öflug heilsugæsla skuli standa öllum til boða, óháð efnahag og búsetu. Ef raunverulegur vilji stæði til að efla heilsugæsluna væri einfaldasta leiðin til þess að leggja meira fé í málaflokkinn.

 

 

 

2 Comments

Filed under Blogg

Stóru málin?

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs, nei afsakið Sigurðar Inga og Bjarna Benediktssonar er tíðrætt um þau “Stóru Mál” sem þarf að klára. Hvaða stóru mál eru þetta?

1. Einkavæðing Heilsugæslunnar á Höfuðborgarsvæðinu

2. Einkavæðing Landsnets

3. Einkavæðing Landsbankans

Það er semsagt að hefjast brunaútsala á eigum okkar almennings í hendur ríku klíkunnar sem á aflandsfélög á Tortóla, já það er svo sannarlega erftitt að eiga peninga á Íslandi…

Leave a Comment

Filed under Blogg

Hugleiðing um “Samtök fyrirtækja í Velferðarþjónustu”

Að gefnu tilefni finnst mér ástæða til að benda á að í Samtökum fyrirækja í velferðarþjónustu eru bæði gróðardrifin fyrirtæki á markaði sem og sjálfseignarstofnanir sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Ég tel þetta samkurl eðlisólíkrar starfssemi óeðlilegt og villandi.  Mikilvægt er að skilja á milli gróðarsækinna fyrirtækja á markaði og félagasamtaka og sjálfseignarstofnanna sem sinna velferðarþjónustu.

Hlutverk fyrirtækja er að framleiða vörur og þjónustu fyrir viðskiptavini sem er yfirleitt gert gegn greiðslu peninga. Hagnaðardrifin hugsjón fyrirtækjareksturs getur ekki átt við þegar við veitum velferðarþjónustu, þar sem sá arður sem greiddur er eigendum slíkra fyrirtækja koma úr vasa skattgreiðenda eða þeirra sem nota þjónustuna, oftast aldraðra eða fatlaðs fólks. Menn tala opinskátt um einkafjármögnun á byggingu nýs landspítala, fyrrverandi bæjarstýra greiðir sér tugmilljóna arð úr fyrirtæki í velferðarþjónustu á nokkra ára tímabili, og ráðherrar núverandi ríkisstjórnar telja eðlilegt að notendur velferðarþjónustu greiði í meira mæli úr eigin vasa til þess að hægt sé að fjármagna fyrirheit um “skattalækkanir”.

Sjálfseignarstofnanir og félagasamtök hafa sinnt velferðarþjónustu hér á landi um langt skeið. Hrafnista, Styrktarfélagið Ás, Krabbameinsfélagið og fleiri tugir aðila sinna í dag mikilvægri velferðarþjónustu. Rekstur slíkrar þjónustu á það sameiginlegt að vera ekki rekin í hagnaðarskyni fyrir eigendur sína og óheimilt er að greiða arð út úr starfsseminni, ef afgangur verður fer hann í frekari uppbyggingu og eflingu starfsins, notendum þjónustunnar til hagsbóta.

Ég tel að þau félagasamtök og þær sjálfseignarstofnanir sem sinna velferðarþjónustu án hagnaðarsjónarmiða ættu að sjá hag sinn í því að segja sig úr samtökum kennd við “fyrirtæki í velferðarþjónustu” og stofna frekar sér hagsmunasamtök. Það myndi bæta ímynd þeirra og gera hlutverk þeirra fjölmörgu frjálsu félagasamtaka sem sinna velferðarþjónustu með hag notenda og aðstandenda þeirra að leiðarljósi sýnilegri í umræðunni.

 

Leave a Comment

Filed under Blogg

Velferðin er ekki til sölu!

Af skrifum Áslaugar Maríu Friðriksdóttur, borgarfulltrúa og fulltrúa sjálfstæðisflokks í Velferðaráði í Morgunblaðið á dögunum, ásamt viðtali við hana í Fréttablaðinu í dag má glöggt sjá að stefna sjálfstæðismanna snýst um það að einkavæða velferðarkerfið og bjóða betri þjónustu til þeirra sem hafa efni á að borga.

Langflestir íslendingar (yfir 90%) eru þeirrar skoðunar að greiða skuli fyrir heilbrigðis- og velferðarþjónustu úr sameiginlegum sjóðum.  Í einhverjum tilfellum má velferðarþjónusta vera á hendi styrktar- og eða góðgerðarfélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Þeir sem fá opinbert fé til að veita slíka þjónustu eiga eðlilega að gera grein fyrir hverri krónu og tryggja verður að opinbert fé fari ekki í arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja.

Það á að vera metnaður okkar allra að tryggja það að ríki og sveitarfélög veiti öllum öfluga heilbrigðis- og velferðarþjónustu, óháð efnahag. Framtíðarsýn sem byggist á því að sumir geti borgað aukalega fyrir betri þjónustu er sýn sem ég deili ekki. Það er skrýtið að líta á það sem forgangsverkefni að veita fé í arðgreiðslna til gróðardrifinna fyrirtækja á markaði, í stað þess að forgangsraða sama fé í þjónustuna sjálfa. Það nýtist nefnilega öllum, líka þeim fátæku. Um þessi áform hef ég aðeins eitt að segja. Velferðin er ekki til sölu.

Leave a Comment

Filed under Blogg

Ertu í ruglinu Illugi?

Leave a Comment

Filed under Blogg

Hvað um fullorðna námsmenn?

Menntamálaráðherra hefur tekið þá ákvörðun að loka framhaldskólum landsins fyrir nemendur eldri en 25 ára. Um þessar breytingar var lítillega rætt í lok síðasta árs en nú hefur þögnin tekið við. En hver er staðan?  Sú breyting að loka framhaldsskólum landsins fyrir nemum eldri en 25 ára mun hafa skelfilegar afleiðingar fyrir þann hóp sem er yfir þessum aldursviðmiðum og hefur ekki lokið námi. Afhverju? Menntun er eitt helsta tækið til að efla stöðu sína á vinnumarkaði, komast aftur út á vinnumarkað í kjölfar atvinnumissis eða ná bata í kjölfar veikinda og slysa.  Það eru ýmsar ástæður fyrir því að ungt fólk lýkur ekki menntaskólaprófi fyrir 25 ára aldur. Sumir eru að vinna, oft vegna bágrar efnahagslegrar stöðu, aðrir glíma við sjúkdóma , enn aðrir eru sjálfboðaliðar í öðrum löndum á meðan sumir standa í því að eignast börn.

Alveg sama hver ástæðan fyrir því að einstaklingar ljúki seinna námi en “normið” gerir ráð fyrir þá er það auðlind að geta menntað sig og klárað stúdentspróf seinna í lífinu. Fjölmargir velmenntaðir einstaklingar í góðum stöðum í samfélaginu luku stúdentsprófi eftir 25 ára aldurinn, það er staðreynd.  Hér á landi hafa ávallt verið fjölbreytt tækifæri til náms fyrir fullorðna námsmenn.  Flest önnur lönd Evrópu hafa nelgt niður fullorðinsfræðslu í ákveðið mót, það kerfi bauð upp á mun minni sveiganleika en hér hefur verið í boði.

Kerfið eins og það hefur verið byggt upp hér á landi, þ.e að það leyfi fólki á öllum aldri að ljúka stúdentsprófi er eitt mikilvægasta verkfærið til að tryggja öllum jafnan aðgang að menntun, óháð efnahag, sjúkdóma eða annarrar félagslegrar stöðu.  Þessar breytingar munu því hamla því að fjölmargir þjóðfélgashópar geti aflað sér menntunar á seinni stigum ævinnar, og vinna sig þannig upp úr veikindum, fátækt eða félagslegum vanda.

Nú hefur dyrum framhaldsskóla landsins verið lokað, án þess að aukið fjármagn hafi verið sett í að tryggja öflugri fullorðinsfræðslu við þá sem náð hafa 25 ára aldri. Fjölmargir munu því ekki geta nýtt sér það tækifæri sem í því fólst að sækja nám við almenna framhaldsskóla eftir 25. ára aldurinn. Sjálf var ég svo heppin að fá að stunda nám í dagsskóla með fjölmörgum fullorðnum námsmönnum á sínum tíma, ég lærði fjölmargt af þeim sem ég mun aldrei gleyma. Ég mun sjá stórlega eftir þeim fjölbreyttu tækifærum sem buðust fullorðnum námsmönnum í framhaldsskólum landsins. Nær væri að efla framhaldsskólastigið, vinna gegn brottfalli úr námi og tryggja aðgang allra að menntun óháð efnahag.

Það væri best ef menntamálaráðherra sjái að sér sem allra fyrst og leiðrétti þennan rugling , öllum til hagsbóta, ekki síst fullorðnum námsmönnum.

 

Leave a Comment

Filed under Blogg

Til hamingju ísland – um skuldaleiðréttingar og barnafátækt.

Ríkisstjórnin með þá Bjarna Ben og Sigmund Davíð í fararbroddi kynna aðgerðir til handa sumum heimilum. Fimmtán þúsund heimili með húsnæðislán fá ekkert, auk þeirra fjölmörgu sem eru í leiguhúsnæði. Engin veit ennþá hvort þeir fá fyrir pítsunni og allir sem sækja um leiðréttingu þurfa að skipta við fyrirtæki þar sem fyrrverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar gætir beinna hagsmuna.

Hinsvegar voru í dag gefin út Hagtíðindi  sem innihalda Félagsvísa um Börn og Fátækt, frá Hagstofu Íslands þar sem mun alvarlegri og mikilvægari upplýsingar koma fram. Árið 2013 bjuggu fleiri börn en fullorðinir undir lágtekjumörkun 12.2% miðað við 9,3% af þeim lifðu 8.3% þeirra við skort á efnilslegum gæðum. Sem dæmi um slík gæði má nefna að hafa ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri próteinríkri máltíð annan hvern dag, geta greitt fyrir síma, reka bíl og kynda húnsæði sitt með fullnægjandi hætti.

Ef að gögnin eru rýnd frekar kemur í ljós að 28,2% barna sem búa í leiguhúsnæði eru undir lágtekjumörkum og 20,6% þeirra búa við skort á efnilslegum gæðum. Þó búa flest börn á íslandi í á heimilum sem eru með húsnæðislán en 7,5% þeirra eru undir lágtekjumörkum og 5% þeirra búa við skort á efnislegum gæðum. Einnig býr hærra hlutfall ungra barna (á aldrinum til 0-5) ára undir lágtekjumörkum eða 16,2%. Börn einstæðra foreldra voru einnig mun líklegri til að búa undir lágtekjumörkum eða 30,8% . Þá bjuggu 25% barna einstæðra foreldra við skort á efnislegum gæðum.

Af þessu má draga þá ályktun að ung börn sem eiga einstæða foreldra á leigumarkaði séu sérstaklega útsett fyrir fátækt og skort á efnislegum gæðum í okkar samfélagi.

Hafa ber í huga að þetta eru ekki einungis prósentur á blaði og í skýrslu, á bak við hverja tölu býr barn við fátækt og skort á efnislegum gæðum. Niðurstöðurnar eru skýrar, það vantar raunverulegar aðgerðir til að lækka framfærslukostnað foreldra ungra barna t.d með lækkun á leikskólagjöldum, það þarf að stórlega hækka húsaleigubætur þannig að þeir sem eru leigumarkaði sitji við sama borð og þeir sem fá tékkan frá ríkisstjórninni.

Við þurfum alvöru aðgerðir þessum hópi til handa og það strax!

 

Leave a Comment

Filed under Blogg

Hún kláraði öldunginn…

Ég harma þær fréttir að til standi að leggja niður Öldungardeild Menntaskólans við Hamrahlíð nú um áramótin. Sjálf hef ég ekki stundað þar nám, en ég á fjölmarga vini og ættingja sem það hafa gert. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að ungt fólk lýkur ekki menntaskólaprófi 25 ára. Sumir eru að vinna oft vegna bágrar efnahagslegrar stöðu, aðrir glíma við sjúkdóma , enn aðrir eru sjálfboðaliðar í öðrum löndum á meðan sumir standa í því að eignast börn.

Alveg sama hver ástæðan fyrir því að einstaklingar ljúki seinna námi en “normið” gerir ráð fyrir þá er það auðlind að geta menntað sig og klárað stúdentspróf á seinni stigum. Ég þekki fjölmarga vel menntaða einstaklinga í góðum stöðum í samfélaginu sem luku námi seinna en núverandi lagabreyting gerir ráð fyrir.

Ég hef síðastliðin átta ár starfað í Klúbbnum Geysir sem er starfstengd endurhæfing fyrir geðsjúka. Þar af hef ég starfað sem verkefnastjóri atvinnu-og menntamála í sex ár. Klúbburinn Geysir byggir á hugmyndafræði Fountain House sem er alþjóðleg, við höfum tekið þátt í ýmsum ráðstefnum og þjálfunum bæði í evrópu og Bandaríkjunum. Eitt það sem flestir öfunda okkur af eru fjölmörg og fjölbreytt tækifæri einstaklinga til náms á ýmsum aldri. Önnur norðurlönd hafa t.d nelgt niður fullorðinsfræðslu í ákveðið mót sem getur reynst einstaklingum sem stunda nám á fullorðinsaldri sem hluta af endurhæfingu mjög erfitt.

Kerfið eins og það er byggt upp, þ.e að það leyfi fólki á öllum aldri að ljúka stúdentsprófi er eitt mikilvægasta verkfærið við að tryggja öllum jafnan aðgang að menntun, óháð efnahag, sjúkdóma eða annarrar félagslegrar stöðu. Því munu breytingar á því hamla tækifærum fjölmargra hópa til að afla sér menntunar á seinni stigum og vinna sig upp úr veikindum, fátækt og félagslegum vanda.

Ég mun sjá stórlega eftir Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og vona svo sannarlega að menntamálaráðherra sjái að sér og leiðrétti þennan rugling sem allra fyrst, öllum til hagsbóta.

 

Leave a Comment

Filed under Blogg

Um konur sem drekka bjór

Það var einhverntímann í fyrra þar sem ég sat ásamt Unni vinkonu í einum öl og við vorum í samræðum sem enduðu á hugmyndinni “við ættum nú bara að stofna félagsskap fyrir bjóráhugakonur”. Okkur fannst þetta ekkert sérstaklega róttæk hugmynd og bara frekar sniðug. Við eigum fullt af vinkonum sem drekka bjór og ef maður fer á pöbb þá sitja gjarnan margar konur með bjór í krús og þykir ekki tiltöku mál.

Við fundum stað og stund fyrir stofnum “félags íslenskra bjóráhugakvenna” og viðbrögðin stóðu ekki á sér. Á nokkrum dögum höfðu yfir þrjú hundruð konur meldað sig á stofnfundinn. Unnur hringdi síðan í mig í hádeginu á mánudegi og við hlupum í myndatöku fyrir frétt í blaði, útvarpsviðtöl og annað fylgdi í kjölfarið. Vá hugsaði ég – við erum greinilega að gera eitthvað róttækara en mér datt í hug þarna á pöbbnum fyrir rúmu ári síðan.

Það er skrýtið til þess að hugsa að árið 2014 þyki róttækt að konur stofni félagsskap vegna áhuga síns á bjór og bjórmenningu. Nú eftir reynslu síðustu vikna er ég sannfærð um að þörfin fyrir slíkan félagsskap sé ærin. Bæði vegna þess hversu skemmtilegt það verður að hitta konur, ræða og smakka bjóra og allt sem því fylgir. En einnig vegna þess að við búum í samfélagi þar sem ennþá þykir merkilegt að konur stofni bjórfélag. Sjálf hef ég lagst í smá rannsóknarvinnu um konur og bjórmenningu og komst að því að það voru konur sem brugguðu mjöð þess tíma í Mesópótamíu til forna. Einversstaðar í iðnvæðingunni var bjórgerð síðan karllæg og enn síðar bjórdrykkja. Staðalmyndin um karl með stóran bjór og konu með hvítvínsglas virðist  því ansi langlíf.

Ég er fegin að við tókum þessa ákvörðun, hún var greinilga þörf. Vonandi mun íslenskt samfélag sjá breytingar í kjölfarið. Konur sem veita sérfræðiinnlegg um bjóra, dæma bjóra í fjölmiðlum og eru sérfræðingar á sviði bjórmenningar eru mögulegar afleiðingar.  Nú er að sjá hvort að bjórframleiðendur hér á landi og fjölmiðlafólk taki við sér og átti sig á því að til eru fjölmargar konur sem hafa fjölbreytta og mikla þekkingu á þessu sviði sem eru reiðubúnar að deila henni með öðrum.

Að lokum vona ég að börn þessa lands glatist ekki við þá hræðilegu hugsun að konur þessa lands séu gengnar í slagtog við Bakkus. Þær eru nefnilega komnar með kosningarétt, fá að keyra bíl og jafnvel ganga í síðbuxum.

Áfram konur, afram bjór og áfram 2014!

Leave a Comment

Filed under Bjór, Blogg