Category Archives: Ræður

Ræður fluttar við ýmis tækifæri

Fólk en ekki faraldur

Ræða flutt 8. október 2016 í tilefni af opnun ljósmyndasýningarinnar Fólk en ekki faraldur í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Kæru gestir.

Takk fyrir að bjóða mér að opna þessa sýningu sem Samtök um líkamsvirðingu standa fyrir í samvinnu við Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og sýnir ljósmyndir Gunnars Freys Steinssonar.

Það er í raun stórmerkilegt að það sé, í okkar samfélagi “fullkomlega eðlilegt”, að hafa skoðun á holdafari annarra og tjá sig um það. Það er alls ekki óvenjulegt að heyra fólk tala saman um að þessi eða hinn þurfi nú að taka sig á og ná af sér nokkrum kílóum og það má heldur ekki gleyma því að þurfa að bæta við sig. Það er eins og holdafar einstaklinga sé almenningseign sem hverjum og einum sé frjálst að tjá sig um og hafa skoðanir á. En þannig er það oft því miður. Mig mynnir að ég hafi verið sex ára gömul þegar ég fékk fyrst að heyra að ég væri feit.

Í þessu stutta ávarpi ætla ég ekki að kryfja ástæður þess en við skulum ekki gleyma því að það eru margir sem græða peninga á því að kynt sé undir óánægju með útlit. Það eru framleidd föt sem eiga að láta þig líta út grennri, pillur sem hjálpa þér að missa kíló, te sem léttir, matur sem minnkar mittismálið, alls konar námskeið sett á fót sem eiga að fá þig til að vera einhver annar en þú ert. Útlitsiðnaðurinn sem gengur út að á vekja þá tilfinningu með okkur öllum að við séum ekki nógu mjó, nógu falleg, nógu hávaxin eða í nógu góðu formi.

Í stað þess að vera fjötruð af staðalmyndum um útlit, eigum við frekar að leggja áherslu á að vera hamingjusöm, vera ánægð í eigin skinni og fagna margbreytileikanum. Við eigum hins vegar ekki að vera umburðalynd gagnvart fordómum annarra. Tökum þá umræðu þegar tækifæri gefst að óeðlilegt sé að gefið hafi verið út skotleyfi á fólk vegna útlits og holdafars. Við erum alls konar og fordómar í garð útlits fólks eru óásættanlegir.

Ég greini stolt frá því að í drögum að nýrri mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar sem mun vera lögð fyrir borgarstjórn á næstu dögum er fjallað um að óheimilt sé að mismuna fólki vegna holdafars, útlits eða líkamsgerðar og að Reykjavíkurborg líti svo á að fordómar og mismunun í tengslum við holdafar séu félagslegt óréttlæti sem beri að vinna gegn.

Vonandi verður þessi sýning til þess að vekja athygli og kveikja umræður um líkamsvirðingu. Njótið, látið þetta kveikja í ykkur og munum að við erum alls konar.

Takk fyrir.

 

 

Leave a Comment

Filed under Ræður

Úr viðjum vanans

Húsnæðissamvinnufélög og aðrir valkostir við einaeignarfyrirkomulag á húsnæðismarkaði.

Staðan;

Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi hefur einkennst af ofuráherslu á séreingarstefnu. Það er lítil sem næstum engin hefð fyrir leigufélögum sem bjóða langtímaleigu á íslenskum húsnæðismarkaði. Fæstir íslendingar velja leiguíbúðir sem langtíma búsetukost heldur tímabundið úrræði fyrir þá sem ekki hafa efni eða kost á öðru. Mikið af þeirri vinnu sem fram hefur farið í húsnæðismálum hefur miðast við ríkjandi stöðu.

Séreignarstefnan;

Við höfum áratugum saman (og jafnvel árhundruðum) haft þá ríkjandi hugsun að hver fjölskylda þurfi að koma sér upp þaki yfir höfuðið – þetta þak á helst að vera í þeirra eign, en ekki aðeins til leigu. Stuðningskerfi hins opinbera bæði í formi húsnæðisbótakerfisins (vaxtabóta) og skattalegs umhverfis hefur verið íviljandi fyrir þá sem “valið” að kaupa sér íbúð – en hvaða valkostir hafa verið í boði?

Leigumarkaðurinn;

Leigumarkaður hér á landi hefur árum saman einkennst af því að vera tímabundin redding eða þrautarlausn fyrir þá sem ekki hafa getað keypt sér húsnæði td. vegna lága tekna. Langflestir leigusalar eru einstaklingar sem leigja út eignir sínar og einkennist leigumarkaðurinn af óöryggi og tíðum flutningum t.d þegar dóttir leigusalans kemur fyrr heim úr námi frá útlöndum. Hér á landi eru um 15% á leigumarkaði en þetta hlutfall er um 30% í Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi. Þetta má einna helst skýra með því hversu óöruggur leigumarkaðurinn er hér á landi auk þess sem það er gríðarlegur munur er á stuðningi hins opinbera við leigjendur annarsvegar og þá sem kaupa hins vegar.

Húsnæðissamvinnufélög og annað sniðugt;

Hægt er að draga þá ályktun að áhersla hins opinbera á séreignarstefnu, árás á félagslega íbúðakerfið t.d með niðurlagningu Verkamannabústaða og upptaka 100% húsnæðislána, áttu stóran þátt í bólunni á árunum fyrir hrun sem og efnahagshruninu sjálfu. Mikilvægt er að líta til annara lausna en séreignarstefnunnar, samhliða ótraustum leigumarkaði sem aðeins er hugsaður fyrir þá sem ekki “geta” keypt.

Mikið hefur verið talað um mikilvægi húsnæðisleigufélaga sem boðið gætu upp á öruggt húsnæði til langtímaleigu. En hvaða valkostir standa til boða? Leigufélög, búseturéttur, leiguréttur og kaupleiga eru nokkrir valkostir sem hafa verið í umræðunni en hér ætla ég að fjalla nánar um húsnæðissamvinnufélög.

Húsnæðissamvinnufélög einnig nefnd íbúasamvinnufélög gætu orðið grundvöllur að leigumarkaði á félagslegum grunni. Íbúasamvinnufélög eru rekin á félagslegum grunni af og fyrir íbúa. Íbúar kaupa sig inn í félögin með leigu- eða búseturétti og verða þannig rétthafar í félögunum og reksturinn er í þágu íbúa en ekki hluthafa á markaði. Þannig má tryggja að arður af rekstrinum verði íbúunum sjálfum til góða í formi viðhalds, nýbygginga og góðra leigukjara. Þessi framtíðarsýn byggist þó á því að fjármagn fáist í langtímaverkefni með lægri arðsemiskröfu en t.d þeim 3.5% sem nú eru sett á lífeyrissjóðina.

Hægt verður að búa alla sína ævi í leiguhúsnæði sem hægt er að laga að þörfum og stærð fjölskyldunnar að hverju sinni. Þessi leið er alls ekki óraunhæf enda verið ríkjandi á Norðurlöndunum og víðsvegar í Evrópu um áratuga skeið og reynst vel. En þar þarf sameiginlegt átak fleiri aðila til að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd, til þess að gera þær að veruleika. Fjárfestar sem geta lagt til “þolinmótt fjármagn” skipta þar sköpum. Ríki, sveitarfélög, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og hin nýstofnuðu íbúasamvinnufélög gætu lagst saman á eitt til að finna viðeigandi lausnir.  Starfsumhverfi húsnæðissamvinnufélaga, sjálfseignarstofnanna og annarra félaga á húsnæðismarkaði sem hafa ekki hagnað að leiðarljósi þarf að vera öruggt.

Framtíðarsýn;

Núverandi húsnæðiskerfi, þar sem séreignarhúsnæði og óöruggur leigumarkaður ræður ríkjum, svarar ekki breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu eftir hrun. Íbúasamvinnufélög sem bjóða öruggt leigu- og kaupleiguhúsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur er mikilvæg viðbót við það sem nú býðst á íslenskum húsnæðismarkaði. Sá tími ætti að vera liðinn að ríki og sveitarfélög bjóði einkaaðilum lóðir til uppbyggingar á útsöluprís til að tryggja hagnað verktaka og fasteingafélaga á kostnað almennings. Ríki og sveitarfélög ásamt lífeyrissjóðum geta orðið hluthafar í nýjum húsnæðissamvinnufélögum með því að gera kröfu um að t.d lóðir verði metnar inn í félögin á markaðsvirði. Þannig má láta borgaranna njóta ágóðans í formi öruggrar langtímaleigu á viðráðanlegu verði.

Við eigum að þora að hugsa húsnæðiskerfið upp á nýtt, við þurfum ekki að festast í viðjum vanans.

 

Erindi flutt á málþinginu – Þak yfir höfuðið þann. 12. mars sl.

 

Leave a Comment

Filed under Ræður

Karllægar aðgerðir í atvinnumálum?

Kæru félagar!

Tölur um atvinnuleysi hér á landi fara lækkandi eins og formaður vor rakti hér áðan. Því ber hiklaust að fagna. Hinsvegar byrja ákvæðnar viðvörunarbjöllur að hringja þegar þessar tölur eru skoðaðar nánar. Í janúar 2010 var atvinnuleysi meðal karla 9,9% en 7,9% meðal kvenna. Á því voru ýmsar skýringar t.d hrun í byggingariðnaði sem bitnaði frekar á störfum karla en kvenna.

Síðan greip hið opinbera til aðgerða í atvinnumálum. Ráðist var gegn atvinnuleysinu fullum fetum. Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa farið í eru að mörgu leyti dæmigerðar og í anda “The new deal”. Opinberar framkvæmdir og uppbygging á steinsteypu, vegnum og göngum koma helst við sögu. Hinsvegar hefur hið opinbera skorið niður til heilbrigðis- og velferðarmála á sama tíma. Ríkisstjórnin og sérstaklega okkar fulltrúar í henni og á þingi verða að gæta að því að hugsa ekki aðgerðir í atvinnumálum út frá karllægum og svart hvítum forsendum stórframkvæmdanna.

Í heilbrigðis-og velferðargeiranum starfar fjöldi kvenna og það að verja störf þeirra snýst um atvinnumál ekki síður en um þjónustu í þessum geirum. Reynslan af hinum norðurlöndunum í kjölfar efnahagsþrenginga t.d í Finnlandi sýnir að ef aðgerðir í atvinnumálum eru of karllægar getur það haft mjög neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku kvenna til lengri tíma litið. Í desember 2011 var atvinnuleysi 7,2% meðal karla og hafði lækkað um 2,7% frá upphafi árs 2010. Hinsvegar var atvinnuleysi meðal kvenna 7,4 % í desember 2011 og hafði því lækkað um 0,5% á sama tímabili. Í yfirferð formannins áðan mátti sjá að “Atvinnuleysi kvenna hefur verið hærra en atvinnuleysi karla síðan í júlí 2011”

Nú virðist hinsvegar sem nokkru jafnvægi sé náð í atvinnuleysi karla og kvenna og því þarf að gæta að því að halda uppi atvinnustigi beggja kynja til framtíðar.

Aðgerðir sem ráðist verður í  tengdar atvinnumálum nú, þarf að hugsa til lengri tíma. Vinstri-græn þurfa að huga að stöðu kvenna og karla í allri umræðu um atvinnumál sem og mótun aðgerða í kjölfarið. Ef við gerum það ekki hverjir gera það þá? Ég treysti allavega engum öðrum til að þess að standa vaktina þannig að sómi sé af.

Ræða flutt á flokksráðsfundi Vinstri-grænna 24. febrúar 2012

 

 

Leave a Comment

Filed under Ræður

110% leiðin – fyrir hverja?

Kæru félagar, ég hef oft stigið í pontu og rætt um ýmis mál s.s fátækt og velferð. Ég hef oft tekið að mér það hlutverk að vera reiða og eða leiðinlega konan. Nú hef ég líka ákveðið að gefa kost á mér í framboð til stjórar flokksins.

Ég hef haft það að leiðarljósi að samvinna og samræður skili meiru heldur en deilur og illindi. Ég hef þó leyft mér það að koma með gagnrýni og aðhald þegar mér hefur þótt þess þurfa. Nú er svo komið að ég verð að hefja raust mína fyrir framan hæstvirta ráðherra og þingmenn flokksins. Nú er svo komið að ég get ekki lengi á mér setið. Háværar kröfur um leiðréttingar á íbúðalánum hafa ómað síðan í hruninu. Ýmsar leiðir hafa verið ræddar, og miklar gagnrýnisraddir hafa heyrst um að EKKERT hafi gerst! Þó var ákveðið með samkomulagi þann 15. Janúar 2011 að fara í aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila í daglegu tali nefnt 110% leiðin. Í september sl. kom út skýrsla eftirlitsnefndar viðskiptaráðherra sem m.a átti að taka út framkvæmdina á 110% leiðinni.  Í henni kemur ýmislegt í ljós sem kallar á frekari aðgerðir stjórnvalda. Flokkur sem kennir sig við félagslegt réttlæti hlýtur að rísa upp þegar fram kemur í skýrslunni með leyfi fundarstjóra;

„Húsnæðiskaupendur sem vildu haga fjármálum sínum af skynsemd á þensluárunum frá 2004-2008 tóku lán í íslenskum krónum hjá íbúðalánasjóði og fengu viðbótarlán gegn lánsveði frá lífeyrissjóði eða sparisjóði sem starfaði í samvinnu við íbúðalánasjóð. Aðrir einstaklingar tóku lán hjá Kaupþingi, Glitni, Landsbankanum eða öðru fjármálafyrirtæki í jenum eða svissneskum frönkum þó tekjur væri ekki í þessum myntum, sem telja verður óvarkárt þó svo að sú staðreynd sé fyrir hendi að fjármálafyrirtækin hvöttu til slíkrar lántöku einstaklinga og gerðu minna úr áhættunni en hún raunverulega var.“

Já sumir voru skynsamir, keyptu ekki gylliboð bankanna og töldu sig vera að fara varlega. Þessi hópur á það sameiginlegt að hafa haft aðgang að lánsveðum hjá ættingjum. Þannig hafa þúsundir ungra einstaklinga sem lögðu kaup á sína fyrstu eign fengið lánsveð hjá ættingjum, flestir hjá foreldrum. Þetta er fólk sem nú berst í bökkum við að greiða af lánum til þess að ekki sé gengið á eignir vina og vandamanna. Margir farnir að skulda langt yfir 110% en fá ekkert leiðrétt þar sem lánsveðin teljast ekki með. Þetta hlýtur að teljast óréttlæti á háu stigi. En í skýrslu nefndarinnar kemur fram að þetta hafi skapað handahófskennt óréttlæti við beitingu á 110% leiðinni. En dæmi um þetta kemur fram í skýrslunni með leyfi fundarstjóra;

„Einstaklingar sem tóku húsnæðislán tengd erlendum myntum hafa nú fengið lán sín lækkuð niður í 110% af markarðsverði eignar sinnar. Óheppnir viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs, lífeyrissjóða og/eða sparisjóða sitja hins vegar uppi með heildarlánabyrði sem getur verið talsvert yfir 110% mörkunum vegna þess að höfuðstóll lánsveðláns þeirra er látinn óhreyfður. Það má því segja að 110% úrræðið taki ekki nema að takmörkuðu leyti á skuldavanda þeirra sem reyndu að sýna aðgæslu og forsjálni í ákvörðunum sínum.“

VG var flokkurinn sem hvatti til aðgæslu í ríkisfjármálum í aðdraganda hrunsins. Sjálfri var mér kennt að kaupa hluti þegar ég væri búin að spara fyrir þeim. Það þurfti ekki stóra auglýsingaherferð frá einum stærsta viðskiptabankanum til þess að fá mig til að átta sig á því. Hrópleg ósanngirni í þessu máli sem og öðru tel ég líklega ástæðu fyrir vaxandi ólgu fólks í samfélaginu. Það er eðlilegt að fólk beri sig saman við einstaklinga/fjölskyldur í svipaðri stöðu. Úr þessu þarf að bæta og það erum við sem þurfum að gera það vegna þess að enginn annar mun gera það.

Að lokum vil ég taka undir lokaniðurstöðu nefndarinnar þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að gera stöðu lánstaka með lánsveð sambærilega við stöðu annarra lántaka í 110% leiðinni.

Takk fyrir og góðan landsfund!

Ræða flutt á landsfundi Vinstri-grænna 28.10.2011

Hér má finna skýrslu eftirlitsnefndar

Leave a Comment

Filed under Ræður

Húsnæðisstefna – ræða í borgarstjórn 18.10.2011

Hæstvirtur forseti, borgarfulltrúar og borgarbúar.

Þann 18. nóvember 2010 skipaði hæstvirtur Borgarstjóri starfshóp sem falið var að móta húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2020. Þann 6. september sl. var umræða um stefnuna hér í Borgarstjórn Reykjavíkur. Í þeirri umræðu kom fram að almenn sátt var um stefnuna þó svo að borgarfulltrúar gætu haft mismunandi skoðanir á útfærslum á einhverjum atriðum. Sú sátt endurspeglaðist m.a í jákvæðum umsögnum um stefnuna frá hagsmunaaðilum. Mánuði síðar eða þann 6. október voru tillögur starfshópsins samþykktar í borgarráði. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta ansi góður árangur hingað til og dæmi um það að hægt er að „vinda sér í hlutina“ þegar mikið liggur við. Við þurfum að fagna því sem vel er gert hér í okkar góðu borg og er Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar fyrirmyndardæmi um slíkt. Eins og ég benti á í ræðu minni þann 6. September sl. þá tel ég mikilvægt að stefnan verði lifandi plagg sem mótað verði áfram og unnið eftir en ekki enn ein rykfallin skýrsla sem fellur í gleymskunnar dá.

Mér þykja þær tillögur sem samþykktar voru í Borgarráði 6. október sl. gefa vísbendingar um að sú ósk mín gæti orðið að veruleika. Það sakar allavega aldrei að vera bjartsýnn. Þar voru samþykktar mikilvægar tillögur m.a um uppbyggingu námsmannaíbúða í Brautarholti, á Lindargötureit og á svæði Háskóla Íslands vestan Suðurgötu. Húsnæðismál stúdenta eru í miklum ólestri m.a eftir gjaldþrot Byggingarfélags Námsmanna og því ber að fagna samstarfi borgarinnar við Félagsstofnun stúdenta um fjölgun námsmannaíbúða miðsvæðis í Reykjavík.

Það ber að fagna tillögu um úttekt á hlutverki Reykjarvíkurborgar varðandi leigufélög en það er brýnt velferðarmál fyrir lágtekjuhópa sem og þá sem kjósa að fjárfesta ekki í húsnæði að koma á öflugum leigumarkaði í Reykjavík. Ef að Reykjavíkurborg getur tekið þátt í slíku þá tel ég það af hinu góða. Þar ber einna helst að líta til íbúasamvinnufélaga þar sem íbúar eru rétthafar í félögunum. Þannig er hægt að tryggja að arður af rekstrinum verði íbúunum sjálfum til góða í formi viðhalds, nýbygginga og góðra leigukjara. Ekki má falla í þá gryfju að nota opinbert fjármagn til þess að ausa undir arðgreiðslur til einkaaðila s.s verktaka en dæmi sýna að slíkt hefur verið misnotað t.d þegar verktakar fengu sérstök lánakjör til uppbyggingar á leigumarkaði en seldu síðan eignirnar á almennum markaði og hirtu gróðann. Fyrir þannig svik verður að girða þannig að slík mistök endurtaki sig ekki.

Mikilvægt er að setja hlutfall leiguhúsnæðis inn í gerð aðalskipulags, hverfis- og deiliskipulags. Ég tel að 20% leiguíbúða í grónum hverfum og 25% í nýjum hverfum og á þéttingarsvæðum sé raunhæft markmið. Þó svo að þessari tillögu hafi verið vísað til umsagnar skipulagsráðs þá hef ég fulla trú á jákvæðri umsögn þaðan. Ég viðurkenni að ég hef ekki kynnt mér nýtt aðalskipulag í þaula en ég tel að þessar áherslur rími vel við þau markmið sem ég hef séð útlistuð í þeirri vinnu. Ef að Reykjavíkurborg ætlar að axla ábyrgð á uppbyggingu leigumarkaðar sem stærsta sveitarfélag landsins er aðalskipulag mikilvægt verkfæri í þeirri vinnu.

Ég er sérstaklega ánægð með tillögu um úttekt á Félagsbústöðum enda vann ég ötullega að því í starfshópnum að slík úttekt yrði gerð. Ég vil þó brýna mikilvægi þess að skipaður verði starfshópur til þess að móta formlega eigendastefnu Félagsbústaða, þar sem m.a þarf að taka á rekstarformi félagsins. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg vinni slíka stefnu sjálf áður en til hugsanlegrar samvinnu kemur á höfuðborgarsvæðinu um rekstur félagslegs húsnæðis. Ég tel þó mikilvægt að Félagsbústaðir reki áfram húsnæði fyrir þá sem ekki geta leigt á almennum leigumarkaði þrátt fyrir sérstakan stuðning. Ég tel brýnt að félagslegt leiguhúsnæði þ.m.t Félagsbústaðir séu áfram í eigu opinberra aðila og tel ekki að einkavæða eigi slíka starfssemi. Auk þess er mikilvægt að Borgin endurskoði með hvaða hætti kosið er í stjórn Félagsbústaða óháð því hvað úttekt innri endurskoðunar leiðir í ljós.

En hver eru næstu skref?

Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut að veita húsnæðissamvinnufélögum og félagasamtökum sem hyggjast bjóða upp á leigu- og búseturéttaríbúðir á viðráðanlegum kjörum forgang við úthlutun lóða hjá Reykjavíkurborg. Tillögurnar um lóðir til Félagsstofnunar Stúdenta um námsmannaíbúðir eru góð byrjun en við verðum að halda áfram á sömu braut.

Reykjavíkurborg þarf síðan að fara í þá vinnu að endurskoða og samræma eins og kostur er reglur um sérstakar húsaleigubætur í samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Slík vinna myndi ýta undir þá framtíðarsýn að líta á höfuðborgarsvæðið sem eitt búsetusvæði. Samræmdar reglur um sérstakar húsaleigubætur gætu einnig leitt til þess að auka félagslega fjölbreytni í nágrannasveitarfélögunum sem hlýtur að teljast gott.

Upp hafa komið hugmyndir um að skipa að nýju starfshóp um húsnæðisstefnu sem hefði það hlutverk að fylgja stefnunni eftir til dæmis með því að fylgjast með þeim tillögum og aðgerðum sem koma í kjölfar stefnunnar. Ég vill nota tækifærið hér til að lýsa yfir stuðningi mínum við slíkar hugmyndir því þannig mætti tryggja þá sýn mína að Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar til ársins 2020 verði lifandi plagg sem hefur það markmið að auka húsnæðisöryggi borgarbúa og þar með bæta og efla lífsgæði þeirra.

Leave a Comment

Filed under Ræður

Virðing og kurteisi

Elín Kristgeirsdóttir, húsfreyja og amma mín kenndi mér að sýna öðrum þá háttsemi sem ég vildi að aðrir sýndu mér – vera kurteis og þakka fyrir mjólkurkexið.

Í samfélaginu er margt eins og það á ekki að vera. Frjálshyggjupésar hafa vaðið hér uppi í partýinu síðan ég man eftir mér. Ég hef unnið ýmis störf m.a við ræstingar t.d á börum og það er vond lykt og allt í drasli eftir gleðskap og skemmtun gærdagsins. Engin veit hver ræstingarkonan er -hún vinnur óþakklátt starf sem öllum þykir þó sjálfsagt því allir vilja koma að hreinu borði. Ef að við sem viljum hafa áhrif á samfélagið í átt til félagslegs réttlætis, kvenfrelsis og umhverfisverndar ætlum að gera það skv. gömlum forskriftum spillingar kann það ekki góðri lukku að stýra.

Við hljótum að vilja ný vinnubrögð.

Ég starfa í Klúbbnum Geysi, sem er vinnustaður þeirra sem eiga eða hafa átt við geðræn veikindi að stríða. Þar eru teknar samhljóma ákvarðanir eftir að allir hafa fengið að tjá sínar skoðanir, en auk þess hlustað á sjónarmið annarra. Það getur oft verið erfitt að vinna í slíku umhverfi en jafnfram gefandi – ákvarðanir taka lengri tíma, en það er staðföst skoðun mín að ákvarðanir verði vandaðri eftir því sem að fleiri koma að þeim.

Samræður eru erfiðari en einræður – en hverju skila ræður sem engin hlustar á nema ræðumaðurinn? Er ekki eðlilegt að kona spyrji sig;

Hvernig getur fólk ætlast til að aðrir sýni þeim kurteisi ef þeir umgangast hvort annað af vanvirðingu og hroka?

Ef að við í vinstrihreyfingunni grænu framboði ætlum að breyta samfélaginu í átt að félagslegu réttlæti og samræðum þá er eðlilegast að við byrjum innan okkar eigin raða – verum róttæk – verum hugsjónarfólk – vinnum saman og tölum saman.

Ræða flutt á Flokksráðsfundi Vinstri-grænna 20.maí 2011.

Leave a Comment

Filed under Ræður

Jómfrúrræða í Borgarstjórn Reykjavíkur

911-essay.com

Leave a Comment

Filed under Ræður

Erindi um fátækt flutt á flokksráðsfundi VG – 15. janúar 2010

Kæru Félagar

Ég samdi erindi um fátækt, allir eru að tala um ICESAVE og efnahagsmálin – hætti svo við að flytja það – en hætti síðan við að hætta við! Hver er ástæðan fyrir því að ég er alltaf að tala um fátækt Íslandi?  Þangað til í október í fyrra töldu allir að hér á landi ríkti sögulegt góðæri, við tilheyrðum hamingjusömustu þjóð í heimi og hér hafa allir það svo gott, eða hvað?  Er nokkuð til fátækt fólk í okkar stéttlausa samfélagi? Hafa þær það ekki svo gott þessar einstæðu á bótunum?  Sannleikurinn er sá að á Íslandi kemur það allt of oft fyrir að launin duga ekki til framfærslu.  Stórt hlutfall atvinnubærs fólks vinnur láglaunastörf og fær greitt samkvæmt taxta, engir bónusar þar. Tíu prósent þeirra sem þáðu fjárhagsaðstoð í Reykjavík árið 2008 voru í launaðri vinnu samkvæmt gögnum frá Velferðarsviði borgarinnar. Að óleymdum öryrkjunum, eldri borgurum og þeim sem misst hafa atvinnu sína vegna „ástandsins“ Ástandið er víða slæmt – ég þekki um dæmi þess að fólk hafi beðið í rúmlega fjögur ár eftir félagslegu húsnæði. Það gerði það líka í gróðærinu. Þetta leiðir til þess að margir borga okurleigu á hinum almenna markaði fyrir húsnæði sem vart telst íbúðarhæft. Það vill engin standa í röð hjá Mæðrastyrksnefnd, sama hverju ritstjóri moggans heldur fram,  og það á engin að þurfa að gera það. Þó svo að formaður velferðarráðs borgarinnar virðist telja það hið besta mál.  Það eru grundvallarmannréttindi að hafa húsaskjól og lífsins nauðþurftir eins og mat og bleyjur fyrir börnin sín. Kaffistofa Samhjálpar sem áður hýsti þá sem höfðu lent á skjön í samfélaginu býður nú ókeypis mat fyrir þá sem hafa ekki efni á að kaupa hann og sérstakt tilkynningarferli er komið í gang hjá velferðarvaktinni vegna fólks sem þangað þarf að leita með börnin sín.

Fátækt er staðreynd á Íslandi, hún var það í gróðærinu og hún er það nú. Spurningin er hversu lengi þeir sem verst standa í þjóðfélaginu hreinlega tóra við núverandi ástand. Skellurinn sem búist var við í fyrra haust er nú skollin á okkur á fullum krafti og við þurfum að gera eitthvað í málinu, við verðum að gera eitthvað í málinu. Fátækt er ekkert sem fólk velur sér, fólk lendir í klóm fátæktar. Ekki bara fullorðnir einstaklingar heldur einnig fjölskyldur þeirra og börn. Börn sem búa við fátækt fara ekki bara á mis við efnahagsleg gæði heldur búa við óöryggi og ótta sem fylgja fjárhagsáhyggjum foreldra. Einnig hafa rannsóknir sýnt að börn sem búa við fátækt eiga það frekar á hættu að verða fyrir ofbeldi og vanrækslu vegna félagslegs vanda en önnur börn.

Við þurfum að afhjúpa mýtuna um hina svokölluðu ”uppbyggingu” íhaldsáranna. Nú þurfum við að standa saman, ekki bara byggja upp sömu glerhallirnar aftur  heldur byggja nýtt samfélag á gróðærisrústunum. Það þarf engin að vera fátækur á Íslandi, það á engin að þurfa að vera það!

Leave a Comment

Filed under Ræður