“Ég þarf ekki að fá einhvern til að fara með mér í bíó, ég þarf aðstoð við að klæða mig á morgnana”

Um réttindi fatlaðs fólks og þjónustu sveitarfélaga:

Ég sat í dag ráðstefnuna “Sveitarfélög og fatlað fólk” sem Öryrkjabandalag Íslands stóð fyrir til þess að kynna niðurstöður Rannsóknarstofu í fötlunarfræðum á rannsókn sinni á búsetu fatlaðs fólks og þjónustu sveitarfélaganna.

Þar kom margt fram meðal annars að ríflega helmingur öryrkja og fatlaðs fólks lifir við fátækt, fleiri þurfa þjónustu en fá hana og margir telja sig fá ranga tegund þjónustu. Ein kona orðaði þetta sem svo: “Ég þarf ekki að fá einhvern til að fara með mér í bíó, ég þarf aðstoð við að klæða mig á morgnana”. Margir fá semsagt ekki þá þjónustu sem þeir telja sig sjálfir þurfa, heldur fá þeir þjónustu sem aðrir telja þá þurfa. Margir lýsa einnig mikilli baráttu við “kerfið” og upplifa sig sem minnimáttar í stanslausri baráttu sinni fyrir oft á tíðum lögbundinni þjónustu.

Einnig var þekking og viðhorf sveitarstjórnarfólks kannað og þar kom í ljós að fáir töldu sig þekkja samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks auk þess sem ríflega helmingur sveitarstjórnarmanna taldi það góða hugmynd að byggja herbergjasambýli til að leysa búsetuvanda fatlaðs fólks.

Þó vakti það sérstakan ugg minn að í könnun meðal almennings kom í ljós að svarendur voru ósáttari við tilhugsunina um að fólk með geðsjúkdóm eða þroskahömlun sæti á Alþingi fyrir þeirra kjördæmi, sinnti umönnun barna þeirra, afgreiddi í verslun eða starfaði með þeim að félagsmálum en blint fólk, heyrnarskert fólk og hreyfihamlað fólk. Hversvegna eru þessir fordómar við lýði árið 2014? Margt hefur t.d áunnist í réttindabaráttu geðsjúkra á Íslandi en miðað við þessa niðurstöður eigum við ennþá langt í land.

Það er með öllu óviðunandi árið 2014 að öryrkjar og fatlað fólk séu þiggjendur en ekki notendur þjónustu og telji sig hafa lítið um hana að segja. Við hljótum að gera þær kröfur að þeir kjörnu fulltrúar sem forgangsraða fjármunum til málaflokksins þekki samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem til stendur að innleiða hér á landi.

Ekkert um okkar án okkar – þjónusta fyrir fólk – ekki ölmusa.

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *