Er velferðin til sölu?

Undanfarnar vikur hafa fjölmörg kosningamál verið blásin upp í fjölmiðlum. Flugvöllurinn og Hofsvallagatan eru dæmi um slíkt. En um hvað verður kosið í vor? Ríkir samstaða um að standa vörð um öflugt velferðarkerfi í Reykjavík? Af skrifum Áslaugar Maríu Friðriksdóttur, borgarfulltrúa og fulltrúa í Velferðaráði í Morgunblaðið á dögunum má glöggt lesa að stefna sjálfstæðismanna snýst um það að einkavæða velferðarkerfið. Hún talar um notendur velferðarþjónustu sem “viðskiptavini” og viðrar hugmyndir um að veita hæfu fólki tækifæri til að “spreyta” sig á rekstri grunnþjónustunnar.

Þetta kann að hljóma spennandi, en hvað þýðir þetta í raun? Stórfelld einkavæðing velferðarþjónustunnar víða á Norðurlöndunum hefur leitt til þess að milljarðar hafa verið teknir úr sameiginlegum sjóðum okkar allra til í að greiða arð til fyrirtækja í velferðarþjónustu. Þessi fyrirtæki hafa oft höfuðstöðvar sínar í öðrum löndum, hafa orðið uppvís að brotum á réttindum erlends vinnuafls sem hefst við í gámum og fær ekki greitt samkvæmt kjarasamningum. Dæmin sýna enn fremur að einkavæðing af þessum toga leiðir af sér verri þjónustu.

Við Vinstri græn höfum ekki farið leynt með þá skoðun að við teljum að velferðarþjónusta skuli veitt af opinberum aðilum. Í einhverjum tilfellum má velferðarþjónusta vera á hendi styrktar- og eða góðgerðarfélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Þeir sem fá opinbert fé til að veita slíka þjónustu þurfa að gera grein fyrir hverri krónu, og tryggja verður að opinbert fé fari ekki í arðgreiðslur eða óhófslaun stjórnenda.

Við getum ekki ekki endalaust einkavætt gróðann og ríkisvætt tapið. Það eru engin rök að halda því fram að hið opinbera veiti lélega þjónustu þar sem notendur hafi ekkert val. Það á að vera okkar metnaður að hið opinbera veiti öllum borgarbúum öfluga velferðarþjónustu óháð efnahag. Það er skrýtin forgangsröðun að til sé fé til að greiða arð til fyrirtækja í velferðarþjónustu í stað þess að forgangsraða þessu sama fé í þjónustuna sjálfa okkur öllum til hagsbóta. Vinstrihreyfingin grænt framboð stendur alfarið gegn einkavæðingu velferðarþjónustunnar! Velferðin er ekki til sölu!

 

Greinin birtist í Reykjavík Vikublað 24. maí 2014.

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *