Erindi um fátækt flutt á flokksráðsfundi VG – 15. janúar 2010

Kæru Félagar

Ég samdi erindi um fátækt, allir eru að tala um ICESAVE og efnahagsmálin – hætti svo við að flytja það – en hætti síðan við að hætta við! Hver er ástæðan fyrir því að ég er alltaf að tala um fátækt Íslandi?  Þangað til í október í fyrra töldu allir að hér á landi ríkti sögulegt góðæri, við tilheyrðum hamingjusömustu þjóð í heimi og hér hafa allir það svo gott, eða hvað?  Er nokkuð til fátækt fólk í okkar stéttlausa samfélagi? Hafa þær það ekki svo gott þessar einstæðu á bótunum?  Sannleikurinn er sá að á Íslandi kemur það allt of oft fyrir að launin duga ekki til framfærslu.  Stórt hlutfall atvinnubærs fólks vinnur láglaunastörf og fær greitt samkvæmt taxta, engir bónusar þar. Tíu prósent þeirra sem þáðu fjárhagsaðstoð í Reykjavík árið 2008 voru í launaðri vinnu samkvæmt gögnum frá Velferðarsviði borgarinnar. Að óleymdum öryrkjunum, eldri borgurum og þeim sem misst hafa atvinnu sína vegna „ástandsins“ Ástandið er víða slæmt – ég þekki um dæmi þess að fólk hafi beðið í rúmlega fjögur ár eftir félagslegu húsnæði. Það gerði það líka í gróðærinu. Þetta leiðir til þess að margir borga okurleigu á hinum almenna markaði fyrir húsnæði sem vart telst íbúðarhæft. Það vill engin standa í röð hjá Mæðrastyrksnefnd, sama hverju ritstjóri moggans heldur fram,  og það á engin að þurfa að gera það. Þó svo að formaður velferðarráðs borgarinnar virðist telja það hið besta mál.  Það eru grundvallarmannréttindi að hafa húsaskjól og lífsins nauðþurftir eins og mat og bleyjur fyrir börnin sín. Kaffistofa Samhjálpar sem áður hýsti þá sem höfðu lent á skjön í samfélaginu býður nú ókeypis mat fyrir þá sem hafa ekki efni á að kaupa hann og sérstakt tilkynningarferli er komið í gang hjá velferðarvaktinni vegna fólks sem þangað þarf að leita með börnin sín.

Fátækt er staðreynd á Íslandi, hún var það í gróðærinu og hún er það nú. Spurningin er hversu lengi þeir sem verst standa í þjóðfélaginu hreinlega tóra við núverandi ástand. Skellurinn sem búist var við í fyrra haust er nú skollin á okkur á fullum krafti og við þurfum að gera eitthvað í málinu, við verðum að gera eitthvað í málinu. Fátækt er ekkert sem fólk velur sér, fólk lendir í klóm fátæktar. Ekki bara fullorðnir einstaklingar heldur einnig fjölskyldur þeirra og börn. Börn sem búa við fátækt fara ekki bara á mis við efnahagsleg gæði heldur búa við óöryggi og ótta sem fylgja fjárhagsáhyggjum foreldra. Einnig hafa rannsóknir sýnt að börn sem búa við fátækt eiga það frekar á hættu að verða fyrir ofbeldi og vanrækslu vegna félagslegs vanda en önnur börn.

Við þurfum að afhjúpa mýtuna um hina svokölluðu ”uppbyggingu” íhaldsáranna. Nú þurfum við að standa saman, ekki bara byggja upp sömu glerhallirnar aftur  heldur byggja nýtt samfélag á gróðærisrústunum. Það þarf engin að vera fátækur á Íslandi, það á engin að þurfa að vera það!

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *