Fátæktin er erfið, því hún stelur vonum og draumum

Segir 12 ára drengur á höfuðborgarsvæðinu.

Titillinn er tilvísun í viðtal við dreng sem Barnaheill notuðu í herferð sína til að vekja athygli á fátækt barna í íslensku samfélagi. Samkvæmt opinberum tölum Hagstofunnar og íslenskum rannsóknum búa nú um níu þúsund börn við fátækt hér á landi. Samtökin Barnaheill tóku viðtöl við börn sem hafa búið við fátækt og skort á efnislegum gæðum og þar kom berlega í ljós hversu mikið sú staðreynd að alast upp við fátækt hefur áhrif á andlega heilsu þeirra. Börn sem alast upp við fátækt upplifa sig sem minnimáttar og forðast jafnvel samveru við jafnaldra sína þar sem þau gætu verið útsett fyrir efnahagslegan mun. Börn sem búa við fátækt fara ekki bara á mis við efnahagsleg gæði heldur búa við það óöryggi og þann ótta sem fylgir fjárhagsáhyggjum foreldra þeirra. Einnig hafa rannsóknir sýnt að börn sem búa við fátækt eiga það frekar á hættu að verða fyrir ofbeldi og vanrækslu vegna félagslegs vanda en önnur börn.

Ein stúlka talaði um að hún gæti svosem mætt í afmæli hjá vinum sínum en valdi að gera það ekki þar sem fjölskylda hennar hafði ekki efni á að kaupa afmælisgjöf. Spurningin hlýtur því að vera þessi – í hvernig samfélagi viljum við búa? Viljum við samþykkja og festa í sessi fátækt á Íslandi? Er það boðlegt að borgin vísi börnum af leikskólum og frístundaheimilum vegna vangoldinna gjalda foreldra? Á að refsa börnum fyrir efnahagslegar aðstæður þeirra? Biðlistar eftir félagslegu húsnæði eru langir, margir neyðast til að búa í óíbúðarhæfu húsnæði og greiða af því okurleigu, ástandið hefur lengi verið slæmt en aldrei jafn slæmt og nú. Það vill engin standa í röð hjá góðgerðarsamtökum eftir mat og það á engin að þurfa að gera það. Viljum við öflugt velferðarkerfi sem sinnir þeim sem standa höllum fæti eða ætlum við að búa til ölmususamfélag að Bandarískri fyrirmynd þar sem fátækir þurfa að reiða sig á góðvild þeirra ríku sem eru í leit að skattaafsláttum?

Það eru grundvallarmannréttindi að hafa húsaskjól og lífsins nauðþurftir eins og mat og bleyjur fyrir börnin sín. Fátækt er staðreynd á Íslandi og spurningin er hvort við ætlum að líta á hana sem náttúrulögmál eða stuðla að þeim breytingum sem nauðsynlegar eru til þess að ekkert barn alist upp við fátækt.

 

Pirr dagsins; Að fátækt sé liðin í okkar samfélagi

Lag dagsins; Money Money Money

 

Þangað til næst…

 

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *