Fólk en ekki faraldur

Ræða flutt 8. október 2016 í tilefni af opnun ljósmyndasýningarinnar Fólk en ekki faraldur í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Kæru gestir.

Takk fyrir að bjóða mér að opna þessa sýningu sem Samtök um líkamsvirðingu standa fyrir í samvinnu við Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og sýnir ljósmyndir Gunnars Freys Steinssonar.

Það er í raun stórmerkilegt að það sé, í okkar samfélagi “fullkomlega eðlilegt”, að hafa skoðun á holdafari annarra og tjá sig um það. Það er alls ekki óvenjulegt að heyra fólk tala saman um að þessi eða hinn þurfi nú að taka sig á og ná af sér nokkrum kílóum og það má heldur ekki gleyma því að þurfa að bæta við sig. Það er eins og holdafar einstaklinga sé almenningseign sem hverjum og einum sé frjálst að tjá sig um og hafa skoðanir á. En þannig er það oft því miður. Mig mynnir að ég hafi verið sex ára gömul þegar ég fékk fyrst að heyra að ég væri feit.

Í þessu stutta ávarpi ætla ég ekki að kryfja ástæður þess en við skulum ekki gleyma því að það eru margir sem græða peninga á því að kynt sé undir óánægju með útlit. Það eru framleidd föt sem eiga að láta þig líta út grennri, pillur sem hjálpa þér að missa kíló, te sem léttir, matur sem minnkar mittismálið, alls konar námskeið sett á fót sem eiga að fá þig til að vera einhver annar en þú ert. Útlitsiðnaðurinn sem gengur út að á vekja þá tilfinningu með okkur öllum að við séum ekki nógu mjó, nógu falleg, nógu hávaxin eða í nógu góðu formi.

Í stað þess að vera fjötruð af staðalmyndum um útlit, eigum við frekar að leggja áherslu á að vera hamingjusöm, vera ánægð í eigin skinni og fagna margbreytileikanum. Við eigum hins vegar ekki að vera umburðalynd gagnvart fordómum annarra. Tökum þá umræðu þegar tækifæri gefst að óeðlilegt sé að gefið hafi verið út skotleyfi á fólk vegna útlits og holdafars. Við erum alls konar og fordómar í garð útlits fólks eru óásættanlegir.

Ég greini stolt frá því að í drögum að nýrri mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar sem mun vera lögð fyrir borgarstjórn á næstu dögum er fjallað um að óheimilt sé að mismuna fólki vegna holdafars, útlits eða líkamsgerðar og að Reykjavíkurborg líti svo á að fordómar og mismunun í tengslum við holdafar séu félagslegt óréttlæti sem beri að vinna gegn.

Vonandi verður þessi sýning til þess að vekja athygli og kveikja umræður um líkamsvirðingu. Njótið, látið þetta kveikja í ykkur og munum að við erum alls konar.

Takk fyrir.

 

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *