Heilbrigðiskerfi í skattaskjól?

Heilbrigðisráðherra talar sífellt um aukið „val“ í heilbrigðiskerfinu. Frasar á borð við „fjölbreytt rekstarform“ og „valfrelsi“ eru farin að hljóma sem kunnuleg stef. Þetta kann við fystu heyrn að hljóma spennandi, hver getur svosem verið á móti fjölbreytni og valfrelsi? En hvað þýðir þetta í raun og veru? Þetta þýðir að stefna stjórnvalda hér á landi er að stefna í stórauknu mæli að einkarekstri og einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Málið hefur átt sér langan aðdraganda og ljóst að síðastliðin ár hefur kerfið verið einkavætt í litlum bútum. Það er gert til þess að vekja ekki of mikið umtal í samfélaginu, enda eru langflestir hér á landi hlynntir því að greiða skuli fyrir slíka heilbrigðisþjónustuna úr sameiginlegum sjóðum með skattfé.

Næsta skref í þessum einkavæðingaráformum er fyrirhuguð einkavæðing þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Nú þegar hefur verið auglýst eftir áhugasömum rektstaraðilum. Því er orðið ljóst að umræddum breytingum verður hrint í framkvæmd án aðkomu Alþingis. Engin veit hvaða skref verða stigin næst, enda virðist hvíla ákveðin leynd yfir áformum ráðherra í þeim efnum. Þó er vitað að það er starfandi nefnd á vegum heilbrigðisráðherra sem ætlað er að skoða „fleiri“ rekstrarform í heilbrigðisþjónustu og hafa fulltrúar gróðadrifinna fyrirtækja á því sviði beina aðkomu að þeirri nefnd. Ekkert bólar þó á niðurstöðunum enn sem komið er, kannski sem betur fer.

Arðgreiðslur af skattfé

Sú umræða hægrimanna að hið hið opinbera veiti sjálfkrafa lélega þjónustu þar sem sjúklingar hafi ekkert val stenst enga skoðun. Það á að vera okkar metnaður að hið opinbera veiti öllum góða heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Með því að fela einkaaðilum rekstur sívaxandi hluta heilbrigðiskerfisins eru milljónir færðar úr sameiginlegum sjóðum okkar allra til að þess hægt sé að greiða arð til eigenda fyrirtækja sem sinna heilbrigðisþjónustu. Mér þykir það skrýtin forgangsröðun að nota skattfé almennings til að greiða arð til gróðadrifinna fyrirtækja í staðinn fyrir að forgangsraða þessu sama fé í  heilbrigðiskerfið sjálft, öllum til hagsbóta líka þeim fátæku.

Gullpakkinn: Ekki fyrir þig

Rekstur heilsugæslustöðva á sem og önnur heilbrigðisþjónusta að vera veitt af hinu opinbera. Það er besta leiðin til að tryggja öllum aðgang að þjónustunni, óháð búsetu, efnahag eða félagslegri stöðu. Við getum ekki búið við tvöfalt kerfi þar sem sumir geta borgað sig framfyrir röð eða fengið „gullpakkann“ á fæðingardeildinni á meðan aðrir stinga skattfé almennings í vasann í formi arðgreiðslna til eigenda.  Sú leið sem ráðherra talar fyrir um að „fé fylgi sjúkling“ var í Svíþjóð kölluð „Vårdval“. Sú leið beið skipbrot og hefur hið opinbera í síauknu mæli þurft að taka yfir rekstur heilsugæslustöðva frá einkaaðilum þar í landi með ærnum tilkostnaði, en arðurinn stundum horfinn í hyldýpi skattaskjóla. Ráðherra svaraði munnlegri fyrirspurn formanns Vinstri grænna á þingi á dögunum á þá vegu að ekki stæði til að einkareknar heilsugæslustöðvar á Höfðuborgarsvæðinu gætu greitt sér arð. Ég vil því nota tækifærið til að hvetja ráðherra til að setja lög strax sem koma í veg fyrir að slíkt sé mögulegt. Ekki virðist veita af slíkri lagasetningu miðað við áform ríkisstjórnarinnar um frekari einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Vonandi verður þó kosið fyrr en síðar þannig að hægt verði að koma í veg fyrir núverandi áform um aukin einkarekstur í heilbrigðiskerfinu okkar. Við eigum það nefnilega öll saman, enn sem komið er.

Greinin birtist í 1. maí blaði Vinstri Grænna í Reykjavík.

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *