Hugleiðing um “Samtök fyrirtækja í Velferðarþjónustu”

Að gefnu tilefni finnst mér ástæða til að benda á að í Samtökum fyrirækja í velferðarþjónustu eru bæði gróðardrifin fyrirtæki á markaði sem og sjálfseignarstofnanir sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Ég tel þetta samkurl eðlisólíkrar starfssemi óeðlilegt og villandi.  Mikilvægt er að skilja á milli gróðarsækinna fyrirtækja á markaði og félagasamtaka og sjálfseignarstofnanna sem sinna velferðarþjónustu.

Hlutverk fyrirtækja er að framleiða vörur og þjónustu fyrir viðskiptavini sem er yfirleitt gert gegn greiðslu peninga. Hagnaðardrifin hugsjón fyrirtækjareksturs getur ekki átt við þegar við veitum velferðarþjónustu, þar sem sá arður sem greiddur er eigendum slíkra fyrirtækja koma úr vasa skattgreiðenda eða þeirra sem nota þjónustuna, oftast aldraðra eða fatlaðs fólks. Menn tala opinskátt um einkafjármögnun á byggingu nýs landspítala, fyrrverandi bæjarstýra greiðir sér tugmilljóna arð úr fyrirtæki í velferðarþjónustu á nokkra ára tímabili, og ráðherrar núverandi ríkisstjórnar telja eðlilegt að notendur velferðarþjónustu greiði í meira mæli úr eigin vasa til þess að hægt sé að fjármagna fyrirheit um “skattalækkanir”.

Sjálfseignarstofnanir og félagasamtök hafa sinnt velferðarþjónustu hér á landi um langt skeið. Hrafnista, Styrktarfélagið Ás, Krabbameinsfélagið og fleiri tugir aðila sinna í dag mikilvægri velferðarþjónustu. Rekstur slíkrar þjónustu á það sameiginlegt að vera ekki rekin í hagnaðarskyni fyrir eigendur sína og óheimilt er að greiða arð út úr starfsseminni, ef afgangur verður fer hann í frekari uppbyggingu og eflingu starfsins, notendum þjónustunnar til hagsbóta.

Ég tel að þau félagasamtök og þær sjálfseignarstofnanir sem sinna velferðarþjónustu án hagnaðarsjónarmiða ættu að sjá hag sinn í því að segja sig úr samtökum kennd við “fyrirtæki í velferðarþjónustu” og stofna frekar sér hagsmunasamtök. Það myndi bæta ímynd þeirra og gera hlutverk þeirra fjölmörgu frjálsu félagasamtaka sem sinna velferðarþjónustu með hag notenda og aðstandenda þeirra að leiðarljósi sýnilegri í umræðunni.

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *