Húsnæðisstefna – ræða í borgarstjórn 18.10.2011

Hæstvirtur forseti, borgarfulltrúar og borgarbúar.

Þann 18. nóvember 2010 skipaði hæstvirtur Borgarstjóri starfshóp sem falið var að móta húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2020. Þann 6. september sl. var umræða um stefnuna hér í Borgarstjórn Reykjavíkur. Í þeirri umræðu kom fram að almenn sátt var um stefnuna þó svo að borgarfulltrúar gætu haft mismunandi skoðanir á útfærslum á einhverjum atriðum. Sú sátt endurspeglaðist m.a í jákvæðum umsögnum um stefnuna frá hagsmunaaðilum. Mánuði síðar eða þann 6. október voru tillögur starfshópsins samþykktar í borgarráði. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta ansi góður árangur hingað til og dæmi um það að hægt er að „vinda sér í hlutina“ þegar mikið liggur við. Við þurfum að fagna því sem vel er gert hér í okkar góðu borg og er Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar fyrirmyndardæmi um slíkt. Eins og ég benti á í ræðu minni þann 6. September sl. þá tel ég mikilvægt að stefnan verði lifandi plagg sem mótað verði áfram og unnið eftir en ekki enn ein rykfallin skýrsla sem fellur í gleymskunnar dá.

Mér þykja þær tillögur sem samþykktar voru í Borgarráði 6. október sl. gefa vísbendingar um að sú ósk mín gæti orðið að veruleika. Það sakar allavega aldrei að vera bjartsýnn. Þar voru samþykktar mikilvægar tillögur m.a um uppbyggingu námsmannaíbúða í Brautarholti, á Lindargötureit og á svæði Háskóla Íslands vestan Suðurgötu. Húsnæðismál stúdenta eru í miklum ólestri m.a eftir gjaldþrot Byggingarfélags Námsmanna og því ber að fagna samstarfi borgarinnar við Félagsstofnun stúdenta um fjölgun námsmannaíbúða miðsvæðis í Reykjavík.

Það ber að fagna tillögu um úttekt á hlutverki Reykjarvíkurborgar varðandi leigufélög en það er brýnt velferðarmál fyrir lágtekjuhópa sem og þá sem kjósa að fjárfesta ekki í húsnæði að koma á öflugum leigumarkaði í Reykjavík. Ef að Reykjavíkurborg getur tekið þátt í slíku þá tel ég það af hinu góða. Þar ber einna helst að líta til íbúasamvinnufélaga þar sem íbúar eru rétthafar í félögunum. Þannig er hægt að tryggja að arður af rekstrinum verði íbúunum sjálfum til góða í formi viðhalds, nýbygginga og góðra leigukjara. Ekki má falla í þá gryfju að nota opinbert fjármagn til þess að ausa undir arðgreiðslur til einkaaðila s.s verktaka en dæmi sýna að slíkt hefur verið misnotað t.d þegar verktakar fengu sérstök lánakjör til uppbyggingar á leigumarkaði en seldu síðan eignirnar á almennum markaði og hirtu gróðann. Fyrir þannig svik verður að girða þannig að slík mistök endurtaki sig ekki.

Mikilvægt er að setja hlutfall leiguhúsnæðis inn í gerð aðalskipulags, hverfis- og deiliskipulags. Ég tel að 20% leiguíbúða í grónum hverfum og 25% í nýjum hverfum og á þéttingarsvæðum sé raunhæft markmið. Þó svo að þessari tillögu hafi verið vísað til umsagnar skipulagsráðs þá hef ég fulla trú á jákvæðri umsögn þaðan. Ég viðurkenni að ég hef ekki kynnt mér nýtt aðalskipulag í þaula en ég tel að þessar áherslur rími vel við þau markmið sem ég hef séð útlistuð í þeirri vinnu. Ef að Reykjavíkurborg ætlar að axla ábyrgð á uppbyggingu leigumarkaðar sem stærsta sveitarfélag landsins er aðalskipulag mikilvægt verkfæri í þeirri vinnu.

Ég er sérstaklega ánægð með tillögu um úttekt á Félagsbústöðum enda vann ég ötullega að því í starfshópnum að slík úttekt yrði gerð. Ég vil þó brýna mikilvægi þess að skipaður verði starfshópur til þess að móta formlega eigendastefnu Félagsbústaða, þar sem m.a þarf að taka á rekstarformi félagsins. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg vinni slíka stefnu sjálf áður en til hugsanlegrar samvinnu kemur á höfuðborgarsvæðinu um rekstur félagslegs húsnæðis. Ég tel þó mikilvægt að Félagsbústaðir reki áfram húsnæði fyrir þá sem ekki geta leigt á almennum leigumarkaði þrátt fyrir sérstakan stuðning. Ég tel brýnt að félagslegt leiguhúsnæði þ.m.t Félagsbústaðir séu áfram í eigu opinberra aðila og tel ekki að einkavæða eigi slíka starfssemi. Auk þess er mikilvægt að Borgin endurskoði með hvaða hætti kosið er í stjórn Félagsbústaða óháð því hvað úttekt innri endurskoðunar leiðir í ljós.

En hver eru næstu skref?

Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut að veita húsnæðissamvinnufélögum og félagasamtökum sem hyggjast bjóða upp á leigu- og búseturéttaríbúðir á viðráðanlegum kjörum forgang við úthlutun lóða hjá Reykjavíkurborg. Tillögurnar um lóðir til Félagsstofnunar Stúdenta um námsmannaíbúðir eru góð byrjun en við verðum að halda áfram á sömu braut.

Reykjavíkurborg þarf síðan að fara í þá vinnu að endurskoða og samræma eins og kostur er reglur um sérstakar húsaleigubætur í samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Slík vinna myndi ýta undir þá framtíðarsýn að líta á höfuðborgarsvæðið sem eitt búsetusvæði. Samræmdar reglur um sérstakar húsaleigubætur gætu einnig leitt til þess að auka félagslega fjölbreytni í nágrannasveitarfélögunum sem hlýtur að teljast gott.

Upp hafa komið hugmyndir um að skipa að nýju starfshóp um húsnæðisstefnu sem hefði það hlutverk að fylgja stefnunni eftir til dæmis með því að fylgjast með þeim tillögum og aðgerðum sem koma í kjölfar stefnunnar. Ég vill nota tækifærið hér til að lýsa yfir stuðningi mínum við slíkar hugmyndir því þannig mætti tryggja þá sýn mína að Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar til ársins 2020 verði lifandi plagg sem hefur það markmið að auka húsnæðisöryggi borgarbúa og þar með bæta og efla lífsgæði þeirra.

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *