Hvað um fullorðna námsmenn?

Menntamálaráðherra hefur tekið þá ákvörðun að loka framhaldskólum landsins fyrir nemendur eldri en 25 ára. Um þessar breytingar var lítillega rætt í lok síðasta árs en nú hefur þögnin tekið við. En hver er staðan?  Sú breyting að loka framhaldsskólum landsins fyrir nemum eldri en 25 ára mun hafa skelfilegar afleiðingar fyrir þann hóp sem er yfir þessum aldursviðmiðum og hefur ekki lokið námi. Afhverju? Menntun er eitt helsta tækið til að efla stöðu sína á vinnumarkaði, komast aftur út á vinnumarkað í kjölfar atvinnumissis eða ná bata í kjölfar veikinda og slysa.  Það eru ýmsar ástæður fyrir því að ungt fólk lýkur ekki menntaskólaprófi fyrir 25 ára aldur. Sumir eru að vinna, oft vegna bágrar efnahagslegrar stöðu, aðrir glíma við sjúkdóma , enn aðrir eru sjálfboðaliðar í öðrum löndum á meðan sumir standa í því að eignast börn.

Alveg sama hver ástæðan fyrir því að einstaklingar ljúki seinna námi en “normið” gerir ráð fyrir þá er það auðlind að geta menntað sig og klárað stúdentspróf seinna í lífinu. Fjölmargir velmenntaðir einstaklingar í góðum stöðum í samfélaginu luku stúdentsprófi eftir 25 ára aldurinn, það er staðreynd.  Hér á landi hafa ávallt verið fjölbreytt tækifæri til náms fyrir fullorðna námsmenn.  Flest önnur lönd Evrópu hafa nelgt niður fullorðinsfræðslu í ákveðið mót, það kerfi bauð upp á mun minni sveiganleika en hér hefur verið í boði.

Kerfið eins og það hefur verið byggt upp hér á landi, þ.e að það leyfi fólki á öllum aldri að ljúka stúdentsprófi er eitt mikilvægasta verkfærið til að tryggja öllum jafnan aðgang að menntun, óháð efnahag, sjúkdóma eða annarrar félagslegrar stöðu.  Þessar breytingar munu því hamla því að fjölmargir þjóðfélgashópar geti aflað sér menntunar á seinni stigum ævinnar, og vinna sig þannig upp úr veikindum, fátækt eða félagslegum vanda.

Nú hefur dyrum framhaldsskóla landsins verið lokað, án þess að aukið fjármagn hafi verið sett í að tryggja öflugri fullorðinsfræðslu við þá sem náð hafa 25 ára aldri. Fjölmargir munu því ekki geta nýtt sér það tækifæri sem í því fólst að sækja nám við almenna framhaldsskóla eftir 25. ára aldurinn. Sjálf var ég svo heppin að fá að stunda nám í dagsskóla með fjölmörgum fullorðnum námsmönnum á sínum tíma, ég lærði fjölmargt af þeim sem ég mun aldrei gleyma. Ég mun sjá stórlega eftir þeim fjölbreyttu tækifærum sem buðust fullorðnum námsmönnum í framhaldsskólum landsins. Nær væri að efla framhaldsskólastigið, vinna gegn brottfalli úr námi og tryggja aðgang allra að menntun óháð efnahag.

Það væri best ef menntamálaráðherra sjái að sér sem allra fyrst og leiðrétti þennan rugling , öllum til hagsbóta, ekki síst fullorðnum námsmönnum.

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *