Karllægar aðgerðir í atvinnumálum?

Kæru félagar!

Tölur um atvinnuleysi hér á landi fara lækkandi eins og formaður vor rakti hér áðan. Því ber hiklaust að fagna. Hinsvegar byrja ákvæðnar viðvörunarbjöllur að hringja þegar þessar tölur eru skoðaðar nánar. Í janúar 2010 var atvinnuleysi meðal karla 9,9% en 7,9% meðal kvenna. Á því voru ýmsar skýringar t.d hrun í byggingariðnaði sem bitnaði frekar á störfum karla en kvenna.

Síðan greip hið opinbera til aðgerða í atvinnumálum. Ráðist var gegn atvinnuleysinu fullum fetum. Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa farið í eru að mörgu leyti dæmigerðar og í anda “The new deal”. Opinberar framkvæmdir og uppbygging á steinsteypu, vegnum og göngum koma helst við sögu. Hinsvegar hefur hið opinbera skorið niður til heilbrigðis- og velferðarmála á sama tíma. Ríkisstjórnin og sérstaklega okkar fulltrúar í henni og á þingi verða að gæta að því að hugsa ekki aðgerðir í atvinnumálum út frá karllægum og svart hvítum forsendum stórframkvæmdanna.

Í heilbrigðis-og velferðargeiranum starfar fjöldi kvenna og það að verja störf þeirra snýst um atvinnumál ekki síður en um þjónustu í þessum geirum. Reynslan af hinum norðurlöndunum í kjölfar efnahagsþrenginga t.d í Finnlandi sýnir að ef aðgerðir í atvinnumálum eru of karllægar getur það haft mjög neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku kvenna til lengri tíma litið. Í desember 2011 var atvinnuleysi 7,2% meðal karla og hafði lækkað um 2,7% frá upphafi árs 2010. Hinsvegar var atvinnuleysi meðal kvenna 7,4 % í desember 2011 og hafði því lækkað um 0,5% á sama tímabili. Í yfirferð formannins áðan mátti sjá að “Atvinnuleysi kvenna hefur verið hærra en atvinnuleysi karla síðan í júlí 2011”

Nú virðist hinsvegar sem nokkru jafnvægi sé náð í atvinnuleysi karla og kvenna og því þarf að gæta að því að halda uppi atvinnustigi beggja kynja til framtíðar.

Aðgerðir sem ráðist verður í  tengdar atvinnumálum nú, þarf að hugsa til lengri tíma. Vinstri-græn þurfa að huga að stöðu kvenna og karla í allri umræðu um atvinnumál sem og mótun aðgerða í kjölfarið. Ef við gerum það ekki hverjir gera það þá? Ég treysti allavega engum öðrum til að þess að standa vaktina þannig að sómi sé af.

Ræða flutt á flokksráðsfundi Vinstri-grænna 24. febrúar 2012

 

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *