Lumar þú á lausnum um sjálfstætt líf?

Reykjavíkurborg tekur nú þátt í norrænni samkeppni um tæknilausnir í þágu sjálfstæðs lífs. Keppnin er haldin á vegum Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar og fimm Norrænna höfuðborga, Reykjavíkur, Oslóar, Kaupmannahafnar, Stokkhólms og Helsinki.

Íbúar Norðurlandanna eru að eldast og eftirspurn eftir hagnýtum lausnum í þjónustu við aldraða og fatlað fólk sem þarf aðstoð við athafnir daglegs lífs er sem betur fer að aukast. Nýsköpun og tæknilausnir í velferðarþjónustu er hluti af svarinu við þeim auknu kröfum sem gerðar eru umeinstaklingsmiðaða þjónustu við þá sem þurfa aðstoð við athafnir daglegs lífs.

Höfðuðborgir Norðurlandanna hafa ákveðið að snúa vörn í sókn og standa fyrir hugmyndasamkeppni um nýsköpun og tæknilausnir í velferðarþjónustu til að styðja við sjálfstætt líf. Keppninni er ætlað að auka lífsgæði fatlaðs fólks og aldraðra samhliða því að einfalda má umönnun ættingja og fagaðila. Keppninni er ætlað að auka samvinnu höfuðborga Norðurlandanna til þess að leita tæknilegra lausna meðal íbúa, sem geta tryggt sjálfstætt líf þeirra, sem þurfa aðstoð við athafnir daglegs lífs. Tæknilausnum í velferðarþjónustu er ætlað að auka lífsgæði og jafnræði meðal íbúa höfuðborganna.

Með samkeppninni vonumst við til að þróaðar verði tæknilausnir sem geta gagnast íbúum og elft sjálfstætt líf þeirra, en hún skapar jafnframt tækifæri til þverfaglegrar vinnu milli frumkvöðla á Norðurlöndunum. Fyrstu verðlaun eru ein milljón norska króna eða tæplega 17 milljónir íslenskra króna.  Auk aðalverðlauna verða veitt sérstök verðlaun fyrir þverfaglega norræna samvinnu og námsmannaviðurkenning.

Allir sem luma á góðri hugmynd geta skilað inn tillögu í keppnina fyrir 15. mars n.k. Ekki er nauðsynlegt að hafa fastmótaða hugmynd, þar sem keppninni er meðal annars ætlað að leiða saman hugmyndir og hugvit, auk þess að skapa vettvang fyrir frekara þverfaglegt samstarf. Lumar þú á góðri hugmynd um sjálfstætt líf? Taktu þátt í að aðstoða Norrænar höfuðborgir í að leysa alvöru áskorun!

Kynntu þér keppnina nánar á heimasíðu samkeppninnar;  www.realchallenge.info

Greinin birtist í Reykjavík Vikublað 7. mars 2015.

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *