Lýðræði fyrir hverja?

Ég er nú á lokaspretti í minni fyrstu “forvalsbaráttu” fyrir Vinstri græn. Hluti af því að búa í nútíma samfélagi þar sem er fulltrúalýðræði er að geta kosið til alþingis og sveitarstjórna óháð kyni og efnahag. Áður fyrr voru það fáir útvaldir efnaðir karlmenn sem fengu að kjósa. Rödd hinna skipti ekki máli. Nú eru að koma fram nýjar og spennandi leiðir til þess að auka hlutverk almennings í ákvarðanatöku td. með þjóðaratkvæðagreiðslum. Reykjavíkurborg á einnig tækifæri í að færa ákvarðanatöku nær almenning með auknu íbúalýðræði og hverfavæðingu. Borgarbúar eiga að geta sótt sér þjónustu innan síns hverfis. Það er bæði réttindamál og umhverfismál. Aukið aðgengi íbúa að þjónustu  sem leiðir af sér minni umferð hlýtur að vera öllum í hag. En það er ekki bara kosningarrétturinn sem fylgir því að búa í lýðræðissamfélagi.

Þar hafa einnig allir tækifæri á að gefa kost á sér til þáttöku í stjórnmálum. Eða hvað? Er það ekki þannig að fjármagn og aðgangur að því skiptir ennþá lykilmáli í þeim prófkjörum sem þegar eru afstaðin? Er það lýðræðislegt þegar mælst er til að frambjóðendur eyði ekki meira en 1.5 miljón í prófkjörsbaráttu sína?

Ég er fegin að í forvali VG gilda ákveðnar leikreglur. Það kostar ekkert að taka þátt og eini kostnaðurinn sem er leyfður er sá sem fylgir því að halda úti heimasíðu. Ég hef að vísu samviskusamlega haldið utan um þær nótur sem gætu talist til kostnaðar hjá mér vegna forvalsins til að skila til Ríkisendurskoðunar og ég held að hann sé nú um fjögur þúsund krónur. Ég á nefnilega erfitt með að trúa því að sá sem eyðir miljónum í prófkjörsbaráttu þurfi ekki að gera þeim sem borguðu brúsann einhverja greiða þegar fram líða stundir. Hversu heppilegt er það ef sá sem fer með skipulagsmál í borginni hafi fengið styrki frá verktökum svo ímynduð dæmi séu tekin? Ég veit það fyrir mína parta að ég kem út úr forvalinu án þess að skulda einhverjum út í bæ einhverja greiða auk þess að vera með grunngildi Vinstri grænna að leiðarljósi um velferð, félagslegt réttlæti, kvenfrelsi og umhverfisvernd.

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *