Ný Innflytjendastefna samþykkt- Ræða flutt í Borgarstjórn.

Kæru borgarfulltrúar, borgarstjóri og kæru áheyrendur.

Við búum í fjölmenningarlegri borg sem hefur tekið hefur þátt í netverkinu Intercultural Cities frá árinu 2014. Það er því löngu orðið tímabært að Reykjavíkurborg setji sér heilstæða stefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umfjöllun um alþjóðlega vernd. Við alla umfjöllun hér framundan ber að hafa þann fyrirvara að ekki er hægt að líta á innflytjendur sem einsleitan hóp. Þarfir innflytjenda eru jafn fjölbreyttar og annarra borgarbúa. Þó þurfum við ávallt að hafa í huga þær hindranir sem innflytjendur mæta í þjónustu borgarinnar eða til þess að þeir geti notið sín í starfi og er stefna og þær aðgerðir sem henni fylgja til þess fallnar að útrýma slíkum hindrunum.

Stýrihópur var skipaður í september 2016 og skilaði drögum að stefnu og aðgerðaráætlun í september 2017. Í hópnum áttu allir flokkar sem sæti eiga í borgarstjórn fulltrúa ásamt áheyrnarfulltrúa fjölmenningarráðs. Stefnan var sett í umsagnarferli s.l. sumar og framhaldi var brugðist við þeim athugasemdum sem bárust. Þann 19. desember s.l. fór fram fyrri umræða um stefnuna ásamt aðgerðaráætlun í borgarstjórn.

Eftir fyrri umræðu í borgarstjórn var óskað eftir frekari umsögnum frá þeim sviðum og skrifstofum borgarinnar sem ætlað er að framfylgja aðgerðum tengdum stefnumótuninni, þar sem hver aðgerð var skoðuð og rýnd frekar. Sjö svið og skrifstofur sendu svör við þeim spurningum og í framhald að því voru aðgerðir stefnunnar metnar út frá þeim svörum sem bárust. Auk þess var stefnumótun einstakra sviða tengd innflytjendamálum skoðuð og samlegðaráhrif við stefnur einstakra sviða og málaflokka skoðuð. Ljóst er eftir þá greiningu að mikið af því sem tiltekið er í aðgerðaráætlun með stefnu í málefnum innflytjenda, hælisleitenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd má finna í annarri stefnumótun borgarinnar sem þegar hefur verið samþykkt í ýmsum málaflokkum.

Eitt að þeim atriðum sem margir sérfræðingar nefndu sem stýrihópurinn ræddi við var að það vantaði heildstæða yfirsýn yfr málaflokkinn á einum stað í borgarkerfinu. Samþykkt þeirrar stefnu og þeirrar aðgerðaráætlunar sem hér liggur fyrir er til þess fallinn að bregðast við þeim ábendingum og halda miðlægt utan um þau fjölmörgu verkefni sem unnin eru víðsvegar um borgina í þessum mikilvæga málaflokki. Ég tel að hér sé um mikilvægt skref en ein heildarstefnumótun ásamt aðgerðaráætlun veitir Reykjavíkurborg sem stjórnvaldi, atvinnurekenda og miðstöð þjónustu,  ákveðna yfirsýn yfir málaflokkinn á einum stað. Ég tel einnig að stofnun þverfaglegs teymis sem vinnur þvert á svið sé til þess fallið að bæta þjónustuna og gera hana skilvirkari.

Aðgerðaráætlunin með stefnunni er gerð til fjögurra ára í senn og er gert ráð fyrir að hún verði leiðarljós við þá vinnu sem Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir við að þjónusta hóp innflytjenda og flóttafólks. Í þeirri aðgerðaráætlun sem nú liggur fyrir er ljóst að framvinda verkefna fer eftir því fjármagni sem nú er til staðar innan sviða og skrifstofa Reykjavíkurborgar og mun fjármagn verða tryggt við afgreiðslu fjárhagsáæltunar hvers árs eins og venja er. Ef flýta á framgangi verkefna gæti það í einstaka tilvikum kallað á aukafjárveitingar.

Mannréttindaskrifstofa hefur nú þegar yfirumsjón með eftirliti með aðgerðaráætlun í jafnréttismálum og er það skilningur minn að umsjón með aðgerðaráætlun í innflyltjendamálum muni fara fram með svipuðum hætti hvað varðar eftirfylgd með þeirri áætlun.

Það er ákveðin sýn sem felst í því að líta á innflytjendur sem auðlind fyrir samfélagið. Sem fjölmenningarborg á Reykjavíkurborg að stuðla að því að allir sem hér setjast að og búa upplifi sig sem Reykvíkinga óháð þjóðerni og uppruna, þá höfum við náð árangri í að skapa borg fyrir alla.

Ég vil að lokum þakka öllum í stýrihópnum fyrir þeirra framlag sem og starfsmanni hópsins auk þeirra fjölmörgu aðila sem hittu hópinn, miðluðu af reynslu sinni og veittu umsangir. Auk þess ber að þakka sérstaklega þá vinnu sem innt hefur verið af hendi hjá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar vegna stefnumótunarinnar.

 

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *