Reykjavík – fyrir okkur öll!

Ræða flutt í Borgarstjórn þriðjudaginn 15. júní 2021 um Velferðarstefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030.

Borgarstjóri, borgarfulltrúar og aðrir áheyrendur. Það var lagt af stað í mikinn leiðangur þegar ákveðið var að móta fyrstu heildstæðu Velferðarstefnuna fyrir Reykjavíkurborg á haustmánuðum 2019. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að vera hluti af þeim stýrihóp sem hélt utan um að leiða þá vinnu. Ég er stolt af þessarri vinnu enda fór í gang umfangsmikið samráðsferli sem var meginstefið í allri vinnu stýrihópsins, en í honum áttu sæti fulltrúar Velferðarráðs, Velferðarsviðs auk fulltrúa helstu hagsmunaðila. 

Mörg könnumst við sjálf við eða höfum heyrt sögur af oft torveldu kerfi þegar kemur að því að fá þjónustu hjá Reykjavíkurborg. Sjálf man ég eftir því eins og það hefði gerst í gær þegar ég steig fæti inn á skrifstofu þáverandi Félagsþjónustu Reykjavíkur fyrir um aldarfjórðung til að sækja um fjárhagsaðstoð, viðhorf þeirra sem þar tóku á móti mér skiptu á þeim tíma öllu máli. Leiðarljós mitt frá því að ég hóf afskipti af borgarmálum hefur ávallt verið að setja notendur þjónustunnar og þarfir þeirra í fyrsta sæti. Við þurfum að huga að því hvernig við getum minnkað flækjustig og háttað samskiptum við íbúana út frá þeirra þörfum frekar en hentugleika kerfisins. Kerfi fyrir fólk en ekki fólk fyrir kerfi er slagorð sem ég hef tileinkað mér í öllum mínum störfum í þágu borgarbúa. 

Nú standa eftir sjö stefnumarkandi áherslur í Velferðarstefnu borgarinnar, þær munu skilgreina forgangsáherlsur sem nánar eru útfærðar í aðgerðaráætlun sem fylgja stefnunni. Mig langar aðeins að tæpa á þeim rauða þræði sem ég sé í þeim sjö áherslum sem markaðar hafa verið 

1. Með því að viðurkenna að engin tvö eru eins þarf að breyta þjónustumenningunni og setja þarfir íbúa í fyrsta sæti. “Computer says no” – heyrir sögunni til!

2. Með nálægð og aðgengileika viljum við einfalt skipulag sem er hannað út frá þörfum notenda þjónustunnar í hvítevna t.d með eflingu stafrænna lausna, felst viljum við geta gengið frá umsóknum og slíkum málum í símanum eða tölvunni frekar en að mæta á staðinn, þeir sem ekki geta nýtt sér stafrænar lausnir fá auðvitað áfram þjónustu á staðnum. 

3. Með þjónustulipurð og skilvirkni nýtum við notendamiðaða hönnun og ferðalag íbúa gegnum allt kerfið, við hreinlega löbbum í gegnum þetta með fólki og finnum bestu lausnirnar þannig. 

4. Með virðingu og umhyggju leggjum við áherslu á valdeflingu fólks, byggjum samkipti á gagnkvæmri virðingu og trausti og vinnum gegn hvers kyns fordómum með hugmyndafræði mannréttinda að leiðarljósi. Munum ávallt að einstaklingar eru ekki jaðarsettir, það erum við samfélagið sem jaðarsetjum þá. 

5. Með forvörnum og frumkvæði, viljum við að frumkvæði gæti orðið stærri þáttur í vinnubrögðum starfsólks, hægt er að benda á ýmsar lausnir án þess að íbúinn þurfi ávallt að biðjaa um nákvæmlega þá lausn. Frumkvæðisskyldan snýr að því að upplýsa íbúann um rétt sinn á hinum ýmsu sviðum og fara heildstætt yfir málin. 

6. Með samtali og samráði bætum við upplýsingagjöf til borgarbúa, umfram allt notendur velferðarþjónustu og aðstandenda þeirra. Mikilvægt er að framkvæma reglulega þjónustukannanir á sem flestum sviðum. 

7. Með fagmennsku og framsýni sköðum við eftirsótt vinnuumhverfi, því án starfsólks er engin velferðarþjónusta. Í öflugri velferðarþjónustu fara hagsmunir starfsfólks og notenda saman. Öflugt fagfólk sem er stolt og ánægt í vinnunni sinni veitir íbúum gæðaþjónustu. 

Með þessar sjö stefnumarkandi áherslur að leiðarljósi, sköpum við Reykjavík sem sannarlega er fyrir okkur öll. Nú er það okkar sem sitjum í þessum sal að tryggja það að stefnan verði innleidd með aðgerðaráætlun á næstu árum. 

Takk kærlega öll sem lögðuð ykkar að mörkum og mótuðuð þessa stefnu, í dag er gleðidagur. 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *