Skipuleggjum blómlegan miðbæ!

Ég fór ekki að skipta mér af málefnum borgarinnar vegna brennandi áhuga á skipulagsmálum. Nú hef ég hinsvegar mikinn áhuga á því hvernig borgin mín er skipulögð. Skipulag borgarinnar snýr að velferð borgarbúa. Ég hef velt málefnum miðbæjarins mikið fyrir mér. Sú staðreynd að verktakar og hagsmunaaðilar hafa haft töglin og haldirnar í skipulagi hennar hefur leitt ýmislegt slæmt af sér.

Við eigum að skipuleggja borgina fyrir borgarbúa. Smágerð hús miðborgarinnar tóna illa við ferlíki úr gleri og steypu. Hugsum skipulagið út frá mannlífi og leyfum því að blómstra. Fjölgum torgum og grænum svæðum, hugsum um sól og skugga og gangandi vegfarendur. Þorum að loka götum fyrir umferð til að skapa rými fyrir fólk.

Hugmyndir sem komið hafa fram um að gera laugarveginn að göngugötu, glæða lífi og gróðri í lækjartorg og ráðhústorg á reitinn á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu eru hugmyndir sem vert er að skoða með opnum huga. Hægt er að gera mikið í að gera borgina okkar fallegri, blómlegri og skemmtilegri til að vera í. Margar af þessum hugmyndum er hægt að framkvæma fyrir lítinn kostnað. Skipuleggjum saman blómlegan miðbæ!

Deila:
 • Print
 • Facebook
 • Twitter
 • StumbleUpon

2 Comments

Filed under Blogg

2 Responses to Skipuleggjum blómlegan miðbæ!

 1. Ég verð að segja að þessi klisja um „glerferlíkin“ fer í taugarnar á mér og er að mörgu leyti ósönn og ósanngjörn.

  Í fyrsta lagi þá er Miðborg Reykjavíkur þegar full af húsum sem eru ekki byggð úr timbri og bárujárni. Meirihluti húsanna er frá 20. öld. Goðsagan um einhverja 19. aldar götumynd varð ósönn fyrir svona 50 árum síðan. Ef þú gengur niður Laugaveg, Bankastræti og Austurstræti og umhverfi Austurstrætis niður að höfn muntu sjá nokkur allhá hús, flest þeirra úr steini eða steypu, og allmörg með stórum flötum úr gleri.

  Í öðru lagi þá er nauðsynlegt fyrir framþróun lista, menningar og hönnunar að ekki sé endalaust námað í fortíðina, heldur í sköpunargleði, þekkingu og samtíma listamanna og hönnuða (og ég tel arkítekta til hönnuða). Það er allsendisóviðeigandi að byggja hús sem líkja eftir byggingum fyrri tíma bara til þess þess að þau „tóni“. Auðvitað er nauðsynlegt í allri hönnun að það sem maður skapar sé viðeigandi, en það má heldur ekki vera úr samhengi við samtíma manns.

  Í þriðja lagi tel ég mörg af nýrri húsunum sem byggð hafa verið í Miðborginni vera glæsileg og mörg þeirra afar falleg. Það eru undantekningar, auðvitað, en það má ekki leyfa einhvers konar fordómum og fortíðarþrá byrgja sýn. Og tvö af húsunum sem eiga að rísa í framtíðinni, Tónlistarhúsið og Listaháskólinn eru sérstaklega stórbrotin listaverk.

  Falleg Reykjavík er sköpuð af fólki með þekkingu á sögu borgarinnar, sögu arkítektúrs og hönnunar og á fagi sínu og umhverfi.

  En annars er ég fullkomlega sammála þér með að byggja upp fleiri torg, loka götum fyrir bílaumferð og gera allt sem mögulegt er til að gera fólki kleift að ganga frekar en keyra. Borgin er allt of dreifð. Íslendingar ákváðu einhvern tímann á sjöunda áratugnum að hvert og eitt hús ætti að standa eitt og sér á stóru túni. Þetta er vitleysa og verður bara til þess að auka bílaumferð, lengja akstursvegalengdir (með tilheyrandi vandamálum og aukinni hættu á slysum). Þéttum borgina. Gerum hana að borg en ekki einhvers konar úthverfi. Leyfum fólki að blómstra, ekki bílum.

  Kári Emil
  hönnuður og kjósandi

  • Ég er ekki talsmanneksja þess að við búum í torfbæjum, borðum fjallagrös og göngum á sauðsskinnsskóm þó svo að húsavernd eigi stað í hjarta mínu. Mikið er til af fallegum nýjum húsum sem byggð eru í satt við umhverfið og sóma sér vel í miðborginni. Það hversu lítið er af gömlum bárujárnhúsum í miðbænum eru einmitt rök mín fyrir því að þau beri að vernda sem hluta af byggingarsögunni.

   Hvað listaháskólann varðar þá finnst mér mikilvægt að hér rísi glæsilegur listaháskóli. Að mínu mati er brýnt að búa háskólum ekki of þröngan stakk hvað lóðir varðar til þess að þeir geti þróast og dafnað. Tillagan að bygginguni er fín en væri betur staðsett annarsstaðar miðsvæðis í borginni.

   Gott er að fleiri deili hugmyndum mínum um að takmarka bílaumferð í miðbænum og skapa þannig blómlegra mannlíf m.a á torgum og litlum grænum svæðum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *