Staða heimila með lánsveð?

Mikið hefur verið rætt um stöðu skuldara á síðustu misserum. Sérstök samtök hafa verið stofnum með hagsmuni heimilanna að leiðarljósi, borgarafundir hafa verið haldnir, greinar skrifaðar og dómsmál háð. Gengistryggð lán hafa verið dæmd ólögleg í hæstarétti og síðan var úrvinnsla þeirra mála dæmd ólögleg nú á dögunum. Það hefur því ríkt mikil óvissa í lánamálum heimilana í langan tíma eða allt frá hruni í óktóber 2008.

Ég hef talið mig vera þolinmóða manneskju. Ég gerði mér engar óraunhæfar væntingar um stórfelldar, almennar niðurfellingar á lánum til skuldugra heimila. Ég hafði hinsvegar gert mér upp háleitar vonir um aðgerðir í þágu heimila með lánsveð í kjölfar skýrslu eftirlitsnefndar viðskiptaráðherra um framkvæmd 110% leiðarinnar sem kom út í september 2011. Í niðurstöðum skýrslunnar kom m.a fram að sú staðreynd að ekki sé tekið tillit til lánsveða við beitingu 110% leiðarinnar, leiði til hróplegs ósamræmis við framkæmd hennar sem bitni fyrst og fremst á þeim heimilum sem vildu sýna ráðsemd þegar þau fjárfestu í húsnæði sínu. Hinsvegar hafi einstaklingar sem hafi tekið mun hærri lán með meiri veðsetningu eða tekið lán í erlendri mynt fengið úrlausn sinna mála en leiða má líkur að því að slíkum ákvörðunum hafi fylgt mun meiri áhætta en þeirra sem tóku lán með lánsveðum. En í skýrslunni segir orðrétt;

„Einstaklingar sem tóku húsnæðislán tengd erlendum myntum hafa nú fengið lán sín lækkuð niður í 110% af markarðsverði eignar sinnar. Óheppnir viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs, lífeyrissjóða og/eða sparisjóða sitja hins vegar uppi með heildarlánabyrði sem getur verið talsvert yfir 110% mörkunum vegna þess að höfuðstóll lánsveðláns þeirra er látinn óhreyfður. Það má því segja að 110% úrræðið taki ekki nema að takmörkuðu leyti á skuldavanda þeirra sem reyndu að sýna aðgæslu og forsjálni í ákvörðunum sínum.“

Nú bætist við sú óvissa sem nýfallinn dómur hæstaréttar skapar um lán tengd erlendum myntum sem dæmd voru ólögleg. Staðan getur orðið sú að þeir sem tóku mestu áhættuna við lántökur til húsnæðiskaupa komi best út úr húsnæðiskaupum sínum eftir hrun.

Ég hafði þá staðföstu trú að stjórnvöld myndu gera eitthvað í málefnum heimila með lánsveð þegar niðurstaða skýrslunnar lá fyrir í september 2011. Hinsvegar er staðan óbreytt og ekkert hefur gerst í málefnum skuldara með lánsveð, þrátt fyrir sláandi niðurstöður skýrslu eftirlitsnefndarinnar um beitingu 110% leiðarinnar. Ég tel að lánsveðin ásamt úrlausn á málum þeirra sem tóku verðtryggð húsnæðislán, sérstaklega á árunum 2004-2008 þoli litla sem enga bið. Úrlausn á skuldamálum heimilanna eru ekki aðeins algjört forgangsmál heldur brýnt velferðar- og réttlætismál sem núverandi ríkisstjórn hlýtur að ætla að beita sér fyrir. Húsnæðismál eru einn brýnasti málaflokkurinn fyrir íslensk heimili í dag. Þar er ekki einungis um að ræða skuldamál heimilana sem vissulega er risavaxið mál, heldur einnig uppbyggingu trausts leigumarkaðar, sanngjarns húsnæðisbótakerfis svo eitthvað sé nefnt.

Velferðarráðherra skipaði starfshóp um húsnæðismál í upphafi kjörtímabils en ekkert hefur heyrst frá honum í lengri tíma. Nú hlýtur tími greiningar, gagnaöflunar og annars undirbúnings að vera lokið. Tími aðgerða er núna!

Elín Sigurðardóttir, höfundur er Félagsfræðingur og áhugamanneskja um húsnæðismál.

Greinin birtist á Smugunni 28.02.2012

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *