Stóra Verkefnið – Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar, upprifjun

Hjálmar Sveinsson varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar skrifar grein á visi.is í dag þar sem hann fer yfir stóra verkefið framundan í húsnæðismálum borgarinnar. Í greininni koma fram gagnlegar upplýsingar á borð við þær að ástandið á húsnæðismarkaði megi m.a skýrast af því að kerfið umbunaði verktökum fyrir að byggja stórar og dýrar íbúðir, íbúðir sem fáir Reykjvíkingar hafa efni á að kaupa eða leigja. Því er skortur á litlum íbúðum miðsvæðis í Reykjavík. Greinarhöfundur gleymir þó að minnast á það hvernig húsnæðisstefnan var unnin.

Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var af öllum fulltrúum í húsnæðisstefnuhópi Reykjavíkurborgar og síðar borgarstjórn, var afrakstur þverpólitískrar vinnu og samþættingu ólíkra sjónarmiða. Hún er að mínu viti flott dæmi um afurð samræðustjórnmála, ekki bara í orði heldur á borði. Ég sem fulltrúi Vinstri grænna í starfshópnum lagði t.d mikla áherslu á félagslegan fjölbreytileika í hverfum – þannig að 25% íbúða í nýjum hverfum yrði ætlaðar undir leiguíbúðir. Sömuleiðis lagði ég áherslu á að innri endurskoðun tæki út rekstur Félagsbústaða.

Húsnæðisstefnan er plagg sem borgarbúar geti verið stoltir af. Í umræðum um stefnuna í borgarstjórn taldi ég mikilvægt að hún yrði lifandi plagg sem unnið væri með áfram á virkan hátt. Mikilvægt væri að stefnan skilaði sér í aðgerðum í þágu borgarbúa. Í þessu skyni skipaði borgarstjóri starfshóp sem ætlað var að innleiða húsnæðisstefnuna. Sá hópur skilaði af sér tillögum nú á haustdögum sem samþykktar voru af öllum fulltrúum í starfshópnum nema Sjálfstæðisflokks. Starfshópurinn um innleiðngu húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar lagði til að farið yrði í stórfellda uppbyggingu á leigu- og búseturéttaríbúðum í Reykjavík, samtals 2.500-3.000 á næstu þremur til fimm árum. Auk þess sem farið yrði í hönnunarsamkeppni um Reykjavíkurhúsið og 400 – 800 slíkar íbúðir byggðar á sama tímabili.

Ég sé fyrir mér að þessi áform geti orðið að raunveruleika en til þess þarf áframhaldandi samstöðu, kjark og þor til að hugsa út fyrir rammann með því að stuðla að uppbyggingu húsnæðissamvinnufélaga og búseturéttaríbúða.Það er margsannað að ofuráhersla íslenskra stjórnvalda á séreignarkerfið er löngu úr sér gengin. Með sameiginlegu átaki undir forystu Reykjavíkurborgar getum við leyst þann húnsæðisvanda sem nú blasir við í borginni.

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *