Um oddvita, mahogany-borð og brjóstmyndir…

Sveitarstjórnarkosningar eru í lok maí. Þrír listar hafa þegar valið sér oddvita og þrír hafa lýst því yfir að þeir eigi eftir að velja slíkan. Önnur framboð eiga etv. eftir að líta dagsins ljós. Á morgun verður lögð fram tillaga í borgarstjórn um að fresta fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 um fjögur ár eða út næsta kjörtímabil. Sjálf tel ég mikilvægt að fjölga borgarfulltrúum enda brýnt lýðræðismál að fleiri raddir heyrist í sal Borgarstjórnar Reykjavíkur.

Það má spyrja sig afhverju starfshættir í borgarstjórn hafa ekki þróast frekar í takt við tímana.  Af hverju eru 15 borgarfulltrúar, oddvitar, meiri- og minnihluti, bókanir, tillögur og atkvæðagreiðslur? Eru til aðrar leiðir að stjórna borginni okkar og ef svo er hverjir ákveða þær? Eru það kjörnir fulltrúar sem ákveða breytingar á eigin starfsháttum og kjörum, eða er það eðlilegt að það séu borgarbúar sem gera það? Er hægt að sleppa því að hafa oddvita? Er nauðsynlegt að hafa meiri-og minnihluta eða er hægt að mynda síbreytilegt samstarf um ákveðin mál?

Er ekki eðlilegt að starfshættir borgarstjórnar og borgarfulltrúa breytist á 21 öldinni? Eru hlutir eins og möguleikar á rafrænum kosningum um stærri mál og aukið íbúalýðræði mögulega að fara að breyta starfsháttum borgarstjórnar? Að mínu mati eru tækifærin fjölmörg og spennandi. Það má breyta og bæta kerfið í átt að aukinni þátttöku íbúa og gegnsæi stjórnsýslunnar. Tækifærin að breyttum strúktúrum og starfsháttum eru fjölmörg – við þurfum bara að grípa þau.

Kannski er tími oddvita, mahogany-borða og brjóstmynda úr bronsi af borgarstjórum liðin tíð. Kannski er tími samvinnutjórnmála, hringborða, rafrænna kosninga, íbúafunda, vinnuhópa, hverfisráða, hverfisstjóra og instagrammi af flashmobbi á Austurvelli upp runninn. 21 öldin er komin. Spurning hvort hún nái á endanum niður í ráðhús?

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Blogg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *