Uppbygging félagslegra leiguíbúða í Reykjavík

Sífellt fleiri hafa sótt um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík síðustu ár. Algjör sprenging varð í umsóknum um slíkt leiguhúsnæði í kjölfar efnahagshrunsins. Við þetta lengdust biðlistar þannig að staðan er með öllu óásættanleg. Nú eru um 1.200 einstaklingar og fjölskyldur á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík. Þar af teljast um 550 einstaklingar eða fjölskyldur vera í brýnni þörf.

Til að teljast í brýnni þörf eftir félagslegu leiguhúsnæði þurfa einstaklingar eða fjölskyldur að búa við mjög óviðunandi húsnæðisástand, búa inn á öðrum eða hreinlega vera á götunni. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg axli ábyrgð á félagslegu hlutverki sínu á húsnæðismarkaði og bregðist af fullum krafti við þeim uppsafnaða vanda sem hefur skapast hefur á biðlistum eftir íbúðum.

Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur hefur lagt mikið kapp á að unnin sé raunhæf áætlun um uppbyggingu á félagslegu húsnæði í borginni. Leiðarljósið við það verkefni er einmitt að vinna á biðlistum meðal þeirra sem teljast í brýnni þörf eftir slíkum úrræðum. Nú hefur verið unnin stefnumótun um fjölgun félagslegra leiguíbúða Félagsbústaða, eða um fimm hundruð næstu fimm árin. Samhliða þessu stendur til að fylgja eftir markvissum áætlunum um eflingu og uppbyggingu almenns leigumarkaðar í Reykjavík auk þess sem til stendur að endurskoða reglur um sérstakar húsaleigubætur. Gangi þær áætlanir eftir mun það vinna á húsnæðisvanda Reykvíkinga enn frekar.

Mikilvægt er að láta verkin tala og fylgja eftir þeim uppbyggingaráformum sem nú liggja fyrir og tryggja fjármagn til þess í samstarfi við Íbúðalánasjóð. Markviss uppbygging á félagslegu leiguhúsnæði á ekki að fela í sér gámabyggðir á iðnaðarlóðum. Það er engum til sóma, síst þeim sem bíða eftir að komast í mannsæmandi húsaskjól.

Greinin birtist í Reykjavík Vikublað, 15. nóvember 2014.

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *