Úr viðjum vanans

Húsnæðissamvinnufélög og aðrir valkostir við einaeignarfyrirkomulag á húsnæðismarkaði.

Staðan;

Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi hefur einkennst af ofuráherslu á séreingarstefnu. Það er lítil sem næstum engin hefð fyrir leigufélögum sem bjóða langtímaleigu á íslenskum húsnæðismarkaði. Fæstir íslendingar velja leiguíbúðir sem langtíma búsetukost heldur tímabundið úrræði fyrir þá sem ekki hafa efni eða kost á öðru. Mikið af þeirri vinnu sem fram hefur farið í húsnæðismálum hefur miðast við ríkjandi stöðu.

Séreignarstefnan;

Við höfum áratugum saman (og jafnvel árhundruðum) haft þá ríkjandi hugsun að hver fjölskylda þurfi að koma sér upp þaki yfir höfuðið – þetta þak á helst að vera í þeirra eign, en ekki aðeins til leigu. Stuðningskerfi hins opinbera bæði í formi húsnæðisbótakerfisins (vaxtabóta) og skattalegs umhverfis hefur verið íviljandi fyrir þá sem “valið” að kaupa sér íbúð – en hvaða valkostir hafa verið í boði?

Leigumarkaðurinn;

Leigumarkaður hér á landi hefur árum saman einkennst af því að vera tímabundin redding eða þrautarlausn fyrir þá sem ekki hafa getað keypt sér húsnæði td. vegna lága tekna. Langflestir leigusalar eru einstaklingar sem leigja út eignir sínar og einkennist leigumarkaðurinn af óöryggi og tíðum flutningum t.d þegar dóttir leigusalans kemur fyrr heim úr námi frá útlöndum. Hér á landi eru um 15% á leigumarkaði en þetta hlutfall er um 30% í Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi. Þetta má einna helst skýra með því hversu óöruggur leigumarkaðurinn er hér á landi auk þess sem það er gríðarlegur munur er á stuðningi hins opinbera við leigjendur annarsvegar og þá sem kaupa hins vegar.

Húsnæðissamvinnufélög og annað sniðugt;

Hægt er að draga þá ályktun að áhersla hins opinbera á séreignarstefnu, árás á félagslega íbúðakerfið t.d með niðurlagningu Verkamannabústaða og upptaka 100% húsnæðislána, áttu stóran þátt í bólunni á árunum fyrir hrun sem og efnahagshruninu sjálfu. Mikilvægt er að líta til annara lausna en séreignarstefnunnar, samhliða ótraustum leigumarkaði sem aðeins er hugsaður fyrir þá sem ekki “geta” keypt.

Mikið hefur verið talað um mikilvægi húsnæðisleigufélaga sem boðið gætu upp á öruggt húsnæði til langtímaleigu. En hvaða valkostir standa til boða? Leigufélög, búseturéttur, leiguréttur og kaupleiga eru nokkrir valkostir sem hafa verið í umræðunni en hér ætla ég að fjalla nánar um húsnæðissamvinnufélög.

Húsnæðissamvinnufélög einnig nefnd íbúasamvinnufélög gætu orðið grundvöllur að leigumarkaði á félagslegum grunni. Íbúasamvinnufélög eru rekin á félagslegum grunni af og fyrir íbúa. Íbúar kaupa sig inn í félögin með leigu- eða búseturétti og verða þannig rétthafar í félögunum og reksturinn er í þágu íbúa en ekki hluthafa á markaði. Þannig má tryggja að arður af rekstrinum verði íbúunum sjálfum til góða í formi viðhalds, nýbygginga og góðra leigukjara. Þessi framtíðarsýn byggist þó á því að fjármagn fáist í langtímaverkefni með lægri arðsemiskröfu en t.d þeim 3.5% sem nú eru sett á lífeyrissjóðina.

Hægt verður að búa alla sína ævi í leiguhúsnæði sem hægt er að laga að þörfum og stærð fjölskyldunnar að hverju sinni. Þessi leið er alls ekki óraunhæf enda verið ríkjandi á Norðurlöndunum og víðsvegar í Evrópu um áratuga skeið og reynst vel. En þar þarf sameiginlegt átak fleiri aðila til að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd, til þess að gera þær að veruleika. Fjárfestar sem geta lagt til “þolinmótt fjármagn” skipta þar sköpum. Ríki, sveitarfélög, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og hin nýstofnuðu íbúasamvinnufélög gætu lagst saman á eitt til að finna viðeigandi lausnir.  Starfsumhverfi húsnæðissamvinnufélaga, sjálfseignarstofnanna og annarra félaga á húsnæðismarkaði sem hafa ekki hagnað að leiðarljósi þarf að vera öruggt.

Framtíðarsýn;

Núverandi húsnæðiskerfi, þar sem séreignarhúsnæði og óöruggur leigumarkaður ræður ríkjum, svarar ekki breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu eftir hrun. Íbúasamvinnufélög sem bjóða öruggt leigu- og kaupleiguhúsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur er mikilvæg viðbót við það sem nú býðst á íslenskum húsnæðismarkaði. Sá tími ætti að vera liðinn að ríki og sveitarfélög bjóði einkaaðilum lóðir til uppbyggingar á útsöluprís til að tryggja hagnað verktaka og fasteingafélaga á kostnað almennings. Ríki og sveitarfélög ásamt lífeyrissjóðum geta orðið hluthafar í nýjum húsnæðissamvinnufélögum með því að gera kröfu um að t.d lóðir verði metnar inn í félögin á markaðsvirði. Þannig má láta borgaranna njóta ágóðans í formi öruggrar langtímaleigu á viðráðanlegu verði.

Við eigum að þora að hugsa húsnæðiskerfið upp á nýtt, við þurfum ekki að festast í viðjum vanans.

 

Erindi flutt á málþinginu – Þak yfir höfuðið þann. 12. mars sl.

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Ræður

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *