Vegið að þeim sem síst skyldi!

Að undanförnu hefur gætt vaxandi neikvæðra viðhorfa til þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Þessi umræða er því að miklu leyti á algerum villigötum. Hún er auk þess mjög skaðleg því hún vegur að mikilvægri stoð hins félagslega kerfis og þeirrar sáttar sem hér hefur skapast fyrir manneskjulegu samfélagi þar sem allir geta lifað við reisn.

Hluti af þeirri umræðu eru hugmyndir um nauðsyn þess að auka heimild til skerðingar á greiðslum eða svifta fólk rétti til hennar. Þó slíkar hugmyndir séu yfirleitt settar fram með jákvæðum formerkjum, með það markmið að auka eigi skilvirkni eða virkja fólk, hafa þær þó í raun þveröfug áhrif og stuðla að því að festa fólk í enn alvarlegri fátækrargildru.

Hlutverk fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga

Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga ber sveitarstjórnum að greiða íbúum sem ekki geta séð sér farborða með öðrum hætti, fjárhagsaðstoð. Litið hefur verið á þá aðstoð sem tímabundið neyðarrúrræði þeirra sem t.d ekki hafa unnið sér rétt til atvinnuleysisbóta, hafa fullnýtt rétt sinn, eða bíða eftir vinnslu umsókna um atvinnuleysisbætur, endurhæfingarlífeyri eða örorku. Á núverandi kjörtímabili hefur þeim sem þiggja fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg fjölgað, sem má meðal annars skýra með vaxandi langtímaatvinnuleysi sem birtist í því að æ fleiri hafa fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Aukningin er mest meðal yngstu aldurshópanna 18-25 ára. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga á að vera öryggisnetið sem tekur við þegar allt annað þrýtur.

Dulbúnar skerðingar

En á sama tíma og þörfin hefur aukist hafa því miður einnig verið tekin mörg smá, en alvarleg, skref í þá átt að skerða þá aðstoð sem veitt er. Það virðist vera svo að meirihlutinn í velferðarráði Reykjavíkurborgar sé þeirrar skoðunar að til þess að koma fólki í virkni þurfi að vera hægt að hóta fólki því að það missi aðstoð. Í þessu máli hafa fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar verið sammála fulltrúum Sjálfstæðismanna í ráðinu.

Mörg skref hafa verið stigin í þeim efnum, m.a hafa verið skilgreindir mismunandi hópar sem fá mismunandi aðstoð, t.d fá þeir sem búa með öðrum skerta fjárhagsaðstoð. Auk þess hafa greiðslur til þeirra sem fá fjárhagsaðstoð á grundvelli læknisvottorða verið skertar.

En um hvað snúast þessar skerðingar? Fjárhagsaðstoð í Reykjavík til þeirra sem fá óskerta upphæð er 156.586 krónur eftir skatta. Það er nú allt. Margir hverjir sem fá greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg glíma við fjölþættan félagslegan vanda, t.d. langvarandi líkamleg eða andleg veikindi eða fíknsjúkdóma. Ætlum við virkilega að hvetja fólk til virkni og þátttöku í samfélaginu með því að hóta þeim því að svipta þau þeirri litlu framfærslu sem það þó hefur? Eru einstaklingar í þessari stöðu betur settir til að taka á sínum málum þegar þeir eiga enga möguleika á grunnnauðsynjum á borð við mat, húsaskjól eða lyf?

Allir eiga að geta lifað með reisn

Það eina sem hefst upp úr skerðingum er að þeim fjölgar sem ekki geta lifað með lágmarks reisn, heldur neyðast til að lifa í örbirgð. Við hljótum að geta rekið félagsþjónustu sem veitir fólki stuðning og hvatningu til þátttöku í virkniúrræðum með það að markmiði að komast á vinnumarkað eða í nám án þess að þurfa að standa í hótunum um að svipa það því litla viðurværi sem það þó hefur. Það ætti að vera okkar metnaður. Að búa í borg sem styður við þá sem minnst hafa, en hefur ekki í hótunum við þá.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. apríl 2014

 

Deila:
  • Print
  • Facebook
  • Twitter
  • StumbleUpon

Leave a Comment

Filed under Greinar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *